Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 11:22:00 (929)

2003-10-30 11:22:00# 130. lþ. 18.1 fundur 109#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[11:22]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hæstv. forseti er vísvitandi að misskilja það sem ég hef hér sett fram vegna þess að eins og hæstv. forseti benti á er þetta ekki í fyrsta sinn sem þessi ábending kemur fram hér í þingsölum. Það er reglubundið að þingmenn veki athygli á þessu og beini því til forsetaembættisins að gerð verði bragarbót á að þessar skýrslur og umfjöllun um þær séu settar í fastan farveg í þinginu, sem ekki hefur verið gert. Þingmenn vilja alls ekki búa við það að það sé bara tilviljanakennt hvernig fjallað er um þetta.

Hæstv. forseti talar um að fjárln. fjalli um málin og hún vísi einstökum þáttum fjárlaga til nefnda. Við erum bara að fjalla um allt aðra hluti. Við erum að fjalla um stjórnsýsluúttektir sem Ríkisendurskoðun er að gera sem fjallar um öll svið þjóðlífsins, alla geira og alla málaflokka. Það er ekki allt á sviði fjárln. að fjalla um heldur einstakra nefnda. Þetta er auðvitað liður í því að styrkja eftirlitshlutverk þingsins, styrkja stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, sem ekki veitir af, og við auðvitað treystum þar mjög á forustu og atbeina forseta þingsins og forsn. um að búa þinginu þá aðstöðu að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu. Þess vegna er ástæða til að harma það hversu litlar undirtektir það fær, sem ekki bara ég heldur þingmenn á umliðnum árum höfum verið að kalla eftir, að það sé skylda nefnda að fjalla um þetta, og m.a.s. hefur komið fram ábending og tillaga um að sérstök nefnd verði skipuð, að bætt verði við nefnd sem fjalli um slíkar skýrslur frá Ríkisendurskoðun, skýrslu umboðsmanns Alþingis o.s.frv. Það er því langt síðan við höfum vakið athygli á þessu og ber að harma hvernig forseti þingsins tekur undir þetta.