Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 11:48:45 (936)

2003-10-30 11:48:45# 130. lþ. 18.2 fundur 110#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002# (munnl. skýrsla), BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[11:48]

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Umboðsmaður Alþingis gegnir því mikilvæga hlutverki að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Allshn. Alþingis hefur jafnan fundað með umboðsmanni í tengslum við skýrslugjöf hans til Alþingis og fór allshn. að þessu sinni í heimsókn til umboðsmanns þar sem ágætt tækifæri gafst til þess að ræða störf embættisins og helstu áherslur í nýútkominni skýrslu. Ábendingar umboðsmanns um úrbætur í stjórnsýslunni þurfa að eiga sér traustan farveg í allri umræðu á Alþingi og get ég tekið undir það í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram í dag í því efni.

Í skýrslu umboðsmanns er að finna upplýsingar sem eru Alþingi afar mikilvægar til að fylgjast með allri framkvæmd stjórnsýslunnar sem og einstökum brotalömum í framkvæmd sem umboðsmaður hefur í störfum sínum orðið áskynja um.

Þá geymir skýrslan einnig almennar athugasemdir umboðsmanns um ýmis atriði sem að hans mati væru til þess fallin að renna enn styrkari stoðum undir faglega og vandaða stjórnsýslu hér á landi. Þessar ábendingar verða teknar til frekari umræðu og úrvinnslu í allshn.

Á árinu 2002 fjölgaði málum hjá umboðsmanni miðað við árið á undan en engu að síður náðist góður árangur í því að hraða afgreiðslu þeirra kvartana sem borist höfðu. Afgreiðslutími embættisins er þó m.a. háður afgreiðslutíma stjórnvalda á erindum frá embættinu og á undanförnum árum hefur umboðsmaður bent á mikilvægi þess að stjórnvöld svöruðu fyrirspurnabréfum embættisins vegna athugunar einstakra mála tímanlega svo afgreiðsla kvartana dragist ekki.

Á árinu 2002 varð breyting til batnaðar hvað þetta snertir en enn eru þó dæmi um að stjórnvöld taki sér óhæfilega langan tíma til að svara erindum umboðsmanns. En það eru einmitt málaflokkarnir málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar og tafir hjá stjórnvöldum á afgreiðslu mála sem eru að venju fyrirferðarmestir í skýrslu umboðsmanns. Án þess að fara ofan í einstök mál þykir mér ástæða til þess að draga athygli að nokkrum athugasemdum sem umboðsmaður fjallar um í I. kafla skýrslu sinnar og snertir þessi mál m.a.

Fyrst má hér nefna að því miður hefur engin breyting orðið á því að um 20% allra kvartana sem berast til umboðsmanns varða tafir hjá stjórnvöldum við afgreiðslu máls og þetta er auðvitað óásættanlegt. Skv. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er og í þessari sömu lagagrein kemur einnig fram sú mikilvæga regla að þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Enginn vafi er á því að ef stjórnvöld mundu almennt fylgja þeirri reglu að staðfesta móttöku erinda og eins greina frá fyrirsjáanlegum töfum mundu mál færast mjög til betri vegar. Það er ekki ásættanlegt að stjórnvöld sýni engin viðbrögð þegar þeim eru send erindi.

Það skal tekið fram að í mörgum tilfellum eru þessi mál í ágætisfarvegi í stjórnsýslunni eins og vera ber, en við eigum hins vegar að gera þá kröfu að þetta sé almennt þannig og það heyri til algerra undantekninga að brögð verði að þessu og þannig geti menn gert sér grein fyrir því hvar mál þeirra eru stödd í stjórnsýslunni en þurfi ekki að leita atbeina umboðsmanns nánast til þess eins að reka á eftir svari.

Ég vil einnig staldra við þá athugasemd í skýrslu umboðsmanns sem lýtur að viðbrögðum stjórnvalda við tilmælum og ábendingum hans. Sérstaklega sé ég ástæðu til þess að staldra við þá athugasemd að stjórnvöld láti sér það nægja þegar umboðsmaður hefur bent á að tiltekin framkvæmd hafi ekki verið í samræmi við gildandi lög að greina frá því að viðkomandi reglur séu til endurskoðunar eða ný lagasetning um efnið sé væntanleg. Eftir stendur að leysa þarf úr því réttarbroti sem þegar hefur átt sér stað og hefur orðið tilefni til þeirrar kvörtunar sem um er að ræða í hverju tilviki. Þannig bendir umboðsmaður réttilega á að stjórnvöld geti ekki látið hjá líða að afgreiða erindi vegna þess eins að þau telji rétt að bíða nýrra laga og það er ástæða til þess að taka sérstaklega undir þetta með umboðsmanni.

Hér vil ég einnig minnast á ábendingar umboðsmanns um að efla þurfi fræðslu í stjórnsýslunni. Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands er auðvitað fagnaðarefni en eins og bent er á í skýrslunni verður stjórnsýsla sveitarfélaga sífellt umfangsmeiri og ýmis verkfni sem áður tilheyrðu ríkinu hafa nú verið færð til sveitarfélaganna og við þetta verður stjórnsýsla þeirra sífellt umfangsmeiri. Þetta kallar auðvitað allt á öflugt fræðslustarf og Alþingi þarf að vera vakandi yfir því að því starfi sé sinnt með viðeigandi hætti. Það er þess vegna ástæða til þess að taka hugmyndum umboðsmanns um lágmarksfræðslu starfsfólks stjórnsýslunnar og um endurmenntun til nánari skoðunar.

Hér hefur áður í umræðunni um skýrslu umboðsmanns verið vikið að þeim ábendingum sem borist hafa frá alþjóðasamtökum umboðsmanna. Þau hafa sem sagt sammælst um það að vekja athygli þjóðþinga og ríkisstjórna og stjórnvalda reyndar líka á mikilvægi þess að sjálfstæði embætta umboðsmanna sé viðhaldið með því að slá skjaldborg um heiti umboðsmanns. Ég ætla svo sem ekki að bæta neitt frekar í þá umræðu um þetta sem hér hefur átt sér stað en það er ástæða til þess að taka eftir því að við höfum mjög nýleg dæmi sem gefa tilefni til þessarar umræðu þó að hún hafi áður átt sér stað á Alþingi þannig að það er e.t.v. komið að því nú að við stöldrum við og höldum ekki áfram á þessari braut því kannski getur það verið of seint þegar gripið verður í taumana.

Eins og fram hefur komið líður senn að því að 10 ár verði liðin frá því að stjórnsýslulögin tóku gildi. Umboðsmaður hvetur til þess í sinni skýrslu að við þessi tímamót verði framkvæmd laganna tekin til skoðunar og það kannað hvernig til hefur tekist við að innleiða reglur stjórnsýslulaganna í starfsemi stjórnsýslunnar. Ég tel að það væri vel við hæfi að taka þessari áskorun og huga að því hvernig til hefur tekist við að festa í sessi þær lágmarkskröfur um meðferð mála í stjórnsýslunni sem stjórnsýslulögin geyma.

Umboðsmaður bendir á að þrátt fyrir að nú séu liðin 10 ár frá gildistöku laganna þá virðist sem víða í stjórnsýslunni skorti að mótaðar hafi verið verklagsreglur um meðferð mála og afgreiðslu þeirra. Það er því full ástæða til þess að taka undir með umboðsmanni í þessu efni og eins og sjá má af skýrslunni eru til að mynda 17,9% þeirra mála sem koma til umboðsmanns þess eðlis að í þeim hefur kæruleið ekki verið tæmd og umboðsmaður tekur þess vegna ekki sérstaklega á þeim málum heldur beinir því til viðkomandi að tæma kæruleið áður en málin koma til hans kasta. Það er alveg skýrt í 20. gr. stjórnsýslulaga að stjórnvaldi beri að veita leiðbeiningar um kæruheimild þegar hún er fyrir hendi, kærufresti og kærugjöld og einnig hvert beina skuli kæru. Þessi mikli fjöldi mála þar sem kæruleið hefur ekki verið tæmd gefur e.t.v. tilefni til þess að ætla að þessari leiðbeiningarskyldu sé ekki fullnægt í framkvæmd í stjórnsýslunni. Það er því að mörgu að hyggja þegar þessi mál eru tekin til heildarendurskoðunar og fullt tilefni til þess að gera það.

Ég vil að lokum minnast á ábendingar umboðsmanns um mikilvægi þess að í stjórnsýslunni sé farið eftir ábendingum hans og tilmælum því það er auðvitað þannig að tilmæli hans eða ábendingar eru ekki bindandi fyrir stjórnvöld og þegar svo bregður við að stjórnvöld láta hjá líða að fylgja tilmælum umboðsmanns, þó að það heyri til algerra undantekninga þá eru til þess dæmi, þá reynir auðvitað á eftirfylgni og aðhald Alþingis til þess að tryggja vönduð vinnubrögð og skilvirkni í stjórnsýslunni. Þessu hlutverki má Alþingi ekki bregðast með því að treysta fyrir fram á að starf umboðsmanns tryggi eitt og sér þetta mikilvæga markmið.

Að lokum tel ég ástæðu til að geta þess hve skýrsla umboðsmanns er aðgengileg og greinargóð, framsetning skýr, og mér þykir ástæða til að þakka sérstaklega fyrir þessi vönduðu vinnubrögð við frágang skýrslunnar. Það er brýnt að Alþingi taki til umfjöllunar og bregðist við athugasemdum umboðsmanns þar sem því verður við komið og tekið verði á öllu því sem betur má fara í stjórnsýslunni eða færa þarf til samræmis við gildandi lög.