Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 12:34:11 (943)

2003-10-30 12:34:11# 130. lþ. 18.2 fundur 110#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002# (munnl. skýrsla), BH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[12:34]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Frú forseti. Ríkisstjórninni og stjórnvöldum er samkvæmt stjórnarskránni skylt að standa þinginu skil gerða sinna. Þetta má leiða af þingræðisreglu stjórnarskrárinnar. Í krafti þeirrar reglu á Alþingi að hafa eftirlit með stjórnvöldum og ráðherra bera síðan ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum gagnvart Alþingi.

Segja má að í þessu felist það sem hefur oft verið nefnt þingeftirlit eða eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu og stjórnvöldum. Þetta er einn af hornsteinunum í okkar stjórnskipan. Mjög mikilvægt er að þetta þingeftirlit sé virkt til þess að lýðræðið og það stjórnskipulag sem við höfum byggt okkur upp virki eins og ætlast er til.

Alþingi hefur nokkur úrræði til að sinna þessu hlutverki sínu, fyrirspurnir til ráðherra, skýrslubeiðnir um tiltekin mál, það að krefja ráðherra svara í utandagskrárumræðum o.s.frv. Í seinni tíð hafa síðan verið tekin upp ýmis úrræði til þess að styrkja þetta eftirlit. Og segja má að þar fari fremst í flokki stofnun umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar.

Frú forseti. En við höfum líka í stjórnarskránni úrræði eins og heimildina í 39. gr. um skipan þingeftirlitsnefnda. Það er nánast dautt úrræði og hefur ekki virkað hér á landi. Til þess að taka allt ferli þingeftirlitsins má líka vekja athygli á því í þessari umræðu að enn eitt úrræðið sem mundi heyra undir þingeftirlit, þ.e. ráðherraábyrgðin, hefur ekki virkað heldur hér á landi. Má segja að það sé svo þungt í vöfum í þeim lögum sem við höfum sett að það sé nánast ómögulegt að láta það virka.

Þessar ábendingar hafa svo sem oft áður komið fram hér í þinginu. En það hefur líka komið fram mjög skilmerkileg greinargerð um þetta í skýrslu sem forsrh. lét vinna að beiðni hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og nefnist skýrslan: Starfsskilyrði stjórnvalda. Hún er afrakstur nefndar sem Páll Hreinsson stýrði. Voru niðurstöður nefndarinnar síðan gefnar út í bókarformi og þar koma fram fjölmargar ábendingar um það sem betur mætti fara í þessum efnum og m.a. er komið inn á þau atriði sem við erum að ræða hér, þ.e. um möguleika þingsins til þess að sinna þingeftirliti sínu.

Ég verð að segja það eins og er, frú forseti, að ég er svolítið undrandi á því að ekki hafi verið gert neitt af hálfu þingsins eða yfirstjórnar þingsins eða framkvæmdarvaldsins til þess að koma þeim fjölmörgu góðu hugmyndum sem eru nefndar í skýrslunni um starfsskilyrði stjórnvalda, í framkvæmd. Þar eru fjölmargar góðar hugmyndir, m.a. um að taka til gagngerrar endurskoðunar lögin um ráðherraábyrgð frá árinu 1963, um landsdóm, þannig að þau virki í raun. Hugmyndir að ýmsum úrræðum eru nefndar í því skyni að efla t.d. þingeftirlitið sem við erum að ræða hér.

En ég nefni þetta hérna vegna þess að ég tel mikilvægt að við setjum þetta í samhengi. Það sem við ræðum hér, skýrsla umboðsmanns Alþingis, er hluti af þessu þingeftirliti. Nú erum við að ræða skýrslu umboðsmanns og í þeirri skýrslu koma fram, eins og rakið hefur verið í umræðunum, fjölmargar athugasemdir um að stjórnvöld fari ekki að tilmælum umboðsmanns. Umboðsmannsembættið er byggt þannig upp, eins og víða í nágrannaríkjunum, að það getur ekki þvingað stjórnvöld til að fara að tilmælum sínum. Einungis er um tilmæli að ræða. En maður getur velt því fyrir sér hvað gerist í þeim tilvikum þegar stjórnvöld fara ekki að tilmælum umboðsmanns, eins og fjölmörg dæmi eru rakin um í þessari ágætu skýrslu.

Umboðsmaður gerir athugasemdir og gefur síðan tilmæli. En ef ekki er farið að þeim þrátt fyrir það, hvað á umboðsmaður þá að gera? Hann hefur í raun og veru ekki úrræði. En, frú forseti, þá hlýtur að koma til kasta þingsins að bregðast við. Ef ekki er farið eftir þeim úrræðum sem þingið hefur sett til þess að sinna eftirliti með stjórnvöldum og stjórnsýslunni þá hlýtur þingið að koma til og skoða hvað megi gera í þeim efnum.

Ég fagna því sem hér hefur komið fram, m.a. í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar formanns allhn., um að ástæða sé til þess að stofna stjórnsýsluskóla eða auka stjórnsýslufræðslu. Það er eitt þeirra úrræða sem er, held ég, orðið mjög brátt að grípa til þannig að a.m.k. sé tryggt að þeir sem fara með það mikilvæga vald sem felst í því að starfa í stjórnsýslunni, eigi kost á öflugri fræðslu um stjórnsýsluna.

Ég fagna þessu sérstaklega vegna þess að á hinu háa Alþingi hefur verið lögð fram tillaga um stofnun stjórnsýsluskóla. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er 1. flm. að henni og við hv. þm. Jóhann Ársælsson erum meðflutningsmenn. Þar leggjum við til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að undirbúa stofnun stjórnsýsluskóla. Í því skyni verði skipuð nefnd sem móti markvissa endurmenntunarstefnu hjá ríki og sveitarfélögum um endurmenntun þeirra starfsmanna og nefndarmanna sem fara með opinbert vald til þess að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu borgaranna. Síðan er kveðið á um að í nefndinni skuli vera fulltrúar fjármálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, Endurmenntunar Háskóla Íslands og heildarsamtaka opinberra starfsmanna.

Þetta er kannski a.m.k. ein hugmynd í þá veru að efla þessa fræðslu innan stjórnsýslunnar. Ég held að það sé úrræði sem sé mjög mikilvægt að grípa til.

Frú forseti. En ég tel líka að Alþingi geti ýmislegt annað gert til að sjá til þess að stjórnvöld fari að tilmælum sem beint er til þeirra á grundvelli þeirra laga sem við setjum hér. Til dæmis tel ég að það væri mjög mikilvægt að taka til umfjöllunar skýrslur umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar og setja þær í ákveðinn farveg í þinginu þannig að þær fari til umfjöllunar í nefnd þar sem farið verði yfir skýrsluna frá A til Ö, umboðsmaður kallaður til eða sá sem gefur skýrsluna út og farið yfir helstu atriði sem fram koma þannig að tryggt verði að þessar skýrslur fái jafnvandaða meðferð og t.d. lagafrumvörp. Þó að ekki sé hægt að líkja þessu tvennu saman þá sjáum við alveg muninn á þessu þegar skýrslur eru teknar á dagskrá, eins og nú, og ræddar. En í raun og veru er ekki neinn farvegur í þinginu þar sem er kafað ofan í hverja skýrslu. Síðan getur þingið eða viðkomandi nefnd komið fram með hugmyndir um það í kjölfarið hvað beri að gera. Hér eru ákveðin vandamál sem hafa komið fram ítrekað í skýrslum umboðsmanns Alþingis þar sem ekki er farið að tilmælum hans. Ætlar hið háa Alþingi ekkert að gera í því?

Finnst Alþingi og finnst hæstv. forseta Alþingis --- af því að ég sé að hv. þm. Halldór Blöndal er kominn í salinn --- finnst honum ekki ástæða til að taka þessar alvarlegu ábendingar alvarlega? Við höfum sett ákveðinn ramma. Við höfum búið til lög um umboðsmann Alþingis. Þau eru liður í því að sinna þingeftirliti sem okkur er á herðar lagt samkvæmt stjórnarskrá. Nú er ekki farið eftir því og það kemur ítrekað fram. En hvað ætlar Alþingi að gera í því?

Ég vísa líka til þess, frú forseti, að í stjórnskipunarréttinum er skýrt tekið fram að samkvæmt stjórnskipan okkar er Alþingi æðsta stofnun þessa ríkis. Alþingi eitt getur sett framkvæmdarvaldinu skorður. Alþingi eitt getur séð til þess að framkvæmdarvaldið fari eftir þeim ramma og þeim lögum sem hér hafa verið sett. Því hlýtur það að vera verkefni okkar, frú forseti, að sjá til þess að farið sé að tilmælum þeirra embætta sem við höfum sett til þess að framfylgja þessu eftirliti.

Ég held að bara með því að taka skýrslurnar til umfjöllunar í nefnd, eins og mér skilst að sé gert víða annars staðar --- í öðrum þjóðþingum eru þessar skýrslur teknar fyrir og ræddar í nefnd. Mig minnir að ég hafi einhvers staðar heyrt að líka finnist það form að til sé sérstök nefnd sem hafi skýrslur á borð við þessa til athugunar. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til þess í okkar litla þjóðfélagi að búa til sérstaka nefnd í kringum þetta. En vel mætti hugsa sér að hv. allshn. Alþingis sinnti þessu hlutverki, þ.e. að taka þessar skýrslur til ítarlegarar skoðunar hjá sér. Þá væri það ákveðin skylda líka að Alþingi færi yfir þær og gæfi skýrslu, það væri lögð fram skýrsla frá Alþingi hér í þessum stól.

Þetta mundi ég vilja leggja inn í þessa umræðu, frú forseti. Ég vonast til þess að hæstv. forseti Alþingis taki til máls og greini okkur frá því hvort eitthvað sé fyrirhugað í þessum efnum. Þá er ég að tala um úrræði til þess að bregðast við þeim alvarlegu athugasemdum sem koma fram í skýrslu umboðsmanns ár eftir ár um að ekki sé farið að tilmælum hans og e.t.v. líka þeim ábendingum sem komu fram í skýrslunni um starfsskilyrði stjórnvalda. Þar eru líka mjög alvarlegar ábendingar um að ýmislegt sem snýr að þingeftirliti okkar virki ekki sem skyldi. Ef þingeftirlitið virkar ekki sem skyldi þá hlýtur það að vera Alþingis að bregðast við því, frú forseti.

Ég ætla ekki að hafa þetta mál mitt lengra að sinni.