Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 12:47:02 (945)

2003-10-30 12:47:02# 130. lþ. 18.2 fundur 110#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002# (munnl. skýrsla), BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[12:47]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt því aldrei fram að þingið sinnti ekki skyldu sinni með að taka þessar skýrslur til umræðu hér. En ég tel hins vegar að þingið geti --- þegar fram koma ábendingar um það líkt og hér kemur fram, ég ætla ekkert að fara að rekja það aftur sem fram hefur komið í umræðunum, en það má m.a. sjá á bls. 19 í yfirliti fyrir árið 2001 að stjórnvöld hafi í tveimur málum ekki farið að tilmælum. Í báðum tilvikum er um að ræða kvartanir frá dóms- og kirkjumrn. Í einu máli 2002 hafi stjórnvöld ekki farið að tilmælum og það eru ýmis önnur atriði sem umboðsmaður gerir athugasemdir um að ekki sé farið að tilmælum hans. Ég held að ekki þurfi að endurvekja þá umræðu sem hér hefur átt sér stað í dag.

Það er alls ekki þannig að verið sé að biðja um að farið verði yfir hvert einasta mál og ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst svona viðbrögð nánast vera útúrsnúningur. Það sem verið er að tala um er það sem þekkist víða í öðrum nágrannaríkjum, að skýrslurnar í heild sinni séu teknar til skoðunar og þá yrði umboðsmaður kallaður fyrir og farið ítarlega yfir þær og síðan mundi sú nefnd gefa skýrslu til þingsins um hvort ástæða væri til einhverra viðbragða.

Það er vissulega þannig að hver og einn þingmaður hefur möguleika á að framfylgja og koma fram athugasemdum en það sem ég er að spyrja hæstv. forseta um er hvort hann skynji ekki sérstaklega ábyrgð sína í þessum efnum, að gera þingeftirlitið virkara og þá er ég bæði að vísa til þeirra athugasemda sem koma fram í þessari skýrslu og fjölmörgum skýrslum umboðsmanns áður og einnig því sem kom fram í skýrslunni um starfsskilyrði stjórnvalda að ýmsir meinbugir væru á því að þingeftirlitið virkaði nægilega vel.

Mér heyrist, frú forseti, að hæstv. forseti Alþingis hafi ekki af þessu áhyggjur og þá erum við ósammála, en ég er ekki að halda því fram að ekki sé farið að lágmarksskyldum þeim sem á þingið eru lagðar með því að ræða þessa skýrslu. En það má kannski gera betur.