Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 13:30:10 (952)

2003-10-30 13:30:10# 130. lþ. 18.2 fundur 110#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002# (munnl. skýrsla), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[13:30]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það fóru fram gagnlegar og fróðlegar umræður fyrr í morgun um skýrslu umboðsmanns Alþingis og er svolítill áherslumunur milli manna, sýnist mér, á því hvernig framgangur mála eigi að vera. Sumir hv. þm. hafa verið mjög ánægðir með það að lítið sé um það núorðið að ekki sé farið að tilmælum umboðsmanns Alþingis. Ég er á þeirri skoðun að enn sé allt of mikið um það. Einn partur af því máli hefur ekki verið ræddur mikið hér núna, þ.e. að stjórnvöld bregðast nokkuð jákvætt við aðfinnslum umboðsmannsins í vissum tilfellum en gera svo ekkert í málinu og þá er Alþingi auðvitað vandi á höndum. Sérstaklega hlýtur forsetaembættinu að vera vandi á höndum, forsetaembætti Alþingis, vegna þess að með því fyrirkomulagi sem hér gildir, að umboðsmaður beini tilmælum til stjórnvalda og geri síðan skýrslu um málin og leggi fyrir Alþingi, þá hlýtur að vera ætlast til þess að eftirlitsaðilinn með því að farið sé að tilmælum umboðsmanns sé Alþingi. Og auðvitað alveg sérstaklega þegar umboðsmaður leggur til að gerðar verði breytingar á lögum eins og oft vill verða í hans umfjöllun.

Ég ætla að nefna eitt dæmi sem er í skýrslunni um það hvernig þetta gengur stundum hjá umboðsmanni Alþingis.

Á bls. 149 í skýrslunni er mál sem umboðsmaður tók upp að eigin frumkvæði. Það er mjög ítarleg skýrsla um málið í þessari bók sem okkur hefur verið fengin, á 16 blaðsíðum um þetta tiltekna mál. Þetta mál er nr. 3204/2001, en nú er sem kunnugt er árið 2003. Það heitir Frumkvæðisathugun. Meinbugir á lögum. Félagafrelsi. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Þarna segir, með leyfi forseta, í upphafi greinargerðarinnar:

,,Umboðsmaður tók að eigin frumkvæði til athugunar hvort og þá með hvaða hætti fyrirkomulag ákvæða 6. og 8. gr. laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, um skyldu þeirra sem taka til vinnslu og sölu sjávarafurðir af opnum bátum og þilfarsbátum undir 10 lestum til að greiða hlutfall af hráefnisverði þess afla sem þeir taka inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning smábáta og ráðstöfun þeirrar greiðslu til Landssambands smábátaeigenda, samrýmdist 74. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, um félagafrelsi.``

Hér er því um að ræða mjög mikilsvert mál, þ.e. hvort verið sé að fara eðlilega að stjórnarskránni. Og niðurstaða umboðsmanns Alþingis af þessu máli, hæstv. forseti, er sú að hann segir hér á bls. 164 í bókinni:

,,Með vísan til þess ...``

(Forseti (JóhS): Það þarf leyfi forseta ef vitnað er í prentað mál.)

Hæstv. forseti. Ég óska eftir leyfi til þess að vitna í skýrsluna sem er hér til umræðu. Þar stendur á bls. 164 undir kaflafyrirsögninni Niðurstaða:

,,Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það niðurstaða mín að verulegur vafi leiki nú á því hvort tilhögun ákvæða 6. og 8. gr. laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, fullnægi þeim kröfum sem síðari málsl. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar gerir. Hef ég því ákveðið að vekja athygli Alþingis og sjávarútvegsráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, á þessu áliti mínu og beina þeim tilmælum til þeirra [þ.e. Alþingis og hæstv. sjútvrh.] að kannað verði hvort og þá með hvaða hætti þurfi að endurskoða lög nr. 24/1986 ...``

Og nú ætla ég að ljúka þessari tilvitnun, en annars staðar, hæstv. forseti, undir kaflafyrirsögninni V. segir, með leyfi forseta:

,,Með bréfi til sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 11. febrúar 2003,`` --- ég vek athygli á þessu ártali --- ,,óskaði ég eftir upplýsingum um hvort eitthvað hefði verið aðhafst af hálfu ráðuneytisins í tilefni af tilmælum þeim sem ég setti fram í áliti mínu og þá í hverju þær aðgerðir hefðu verið fólgnar. Í svari sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 25. mars 2003 segir m.a.:`` --- Og áfram, með leyfi forseta, vitna ég í lokakafla þessa hluta skýrslunnar sem ég er að vitna hér til:

,,Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 19. apríl 2002, lagði forsætisráðherra fram álit umboðsmanns Alþingis dags. 12. apríl 2002 varðandi framangreint úrlausnarefni.`` --- Það hefur komið fram áður að álit umboðsmanns er frá árinu 2001 varðandi framangreint úrlausnarefni.

,,Jafnframt tilkynnti forsætisráðherra ríkisstjórninni það álit sitt að álit umboðsmanns Alþingis gæfi fullt tilefni til að endurskoða hin tilgreindu ákvæði laga, en að jafnframt yrði ekki hjá því komist að taka sams konar gjaldtöku í þágu félagasamtaka í öðrum atvinnugreinum til endurskoðunar.

Forsætisráðherra lagði til að framangreind endurskoðun færi fram í starfshópi sem skipaður yrði tilnefndum fulltrúum iðnaðaráðherra, landbúnaðarráðherra, sjávarútvegsráðherra, undir forustu fulltrúa forsætisráðherra.`` --- Ekki er nú lítið í málið lagt. --- ,,Jafnframt taldi hann rétt að fjármálaráðherra tilnefndi fulltrúa í hópinn, enda bæri gjaldtaka af þessu tagi öll einkenni skattheimtu.

Ríkisstjórnin samþykkti tillögu forsætisráðherra. Samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu hefur dregist að starfshópurinn taki til starfa, þar sem enn skortir tilnefningar í hópinn.``

Og nú er komið árið 2003 og þing komið saman. Ríkisstjórnin hefur sett fram skrá yfir þau mál sem hún áætlar að leggja fyrir Alþingi í vetur, þ.e. hefur tekið ákvörðun um að leggja fram, það hlýtur að mega skilja það þannig, og það þýðir að ríkisstjórnin hefur ekki enn tekið ákvörðun um að leggja til breytingar á þessum lögum sem umboðsmaður Alþingis fjallaði um í áliti sínu frá 2001.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að ánægjuræðurnar mættu kannski vera færri um það hvað mönnum hefur miðað þegar ríkisstjórnin hefur fengið álit umboðsmanns Alþingis, fjallað um það, en svo situr málið allt saman strandað hjá ríkisstjórninni sjálfri vegna þess að ráðherrarnir skipa ekki menn í nefndina sem á að skila tillögunum og það er ekki gerður neinn reki að því að klára þetta mál. Og það er ekki um að ræða neitt venjulegt mál. Málið snýst um það að umboðsmaður telur að hér sé um brot á stjórnarskránni að ræða. Það má því auðvitað velta því fyrir sér hvernig í ósköpunum stendur á því að menn leggja ekki meiri áherslu á að taka á málum en þetta. Og ég held að hv. þm. Halldór Blöndal, sem gegnir aðalforsetaembætti á þessu þingi, hljóti að bera alveg sérstaka ábyrgð á því að málum af þessu tagi sé framfylgt, einmitt vegna þess hvernig þessum málum er öllum háttað gagnvart umboðsmanni Alþingis og líka vegna þess að hér er um það að ræða að menn telja að stjórnarskráin sé ekki virt.

En það má kannski segja um ríkisstjórnina að sjaldan bregður mey vana sínum. Þegar um er að ræða stjórnarskrána virðast ekki vera miklar áhyggjur uppi og þar á bæ eru menn tilbúnir að taka áhættu gagnvart stjórnarskránni, eins og sést nú best á því að hæstv. utanrrh. sagði í viðtali við fjölmiðil þegar umræðan um öryrkjamálið var um daginn, að það hefðu verið mikil átök milli lögfræðinga, lögskýrenda um það hvort aðferðir ríkisstjórnarinnar stæðust. En hann var tilbúinn að taka áhættuna af því gagnvart stjórnarskránni. Ríkisstjórnin virðist vera tilbúin til þess að taka áhættuna gagnvart stjórnarskránni og ekki láta málefni njóta vafans þegar átök eru á milli lögmanna um það hvort lög standist stjórnarskrá.

Mér finnst þetta vera dæmi um það að menn taki ekki hlutina alvarlega. Og nú þarf ekki að sækja sökudólgana neitt langt frá sér því þeir eru auðvitað hér staddir, að vísu er bara einn hæstv. ráðherra mættur í salinn núna, en það er greinilegt að ráðherrarnir sem ætlast var til að settu mannskap í þessa nefnd sem ríkisstjórnin ákvað að setja í málið, hafi ekki allir klárað að skipa fulltrúa í nefndina. Það er að vísu þetta svar sem umboðsmaður Alþingis fékk frá ríkisstjórninni í mars sem segir það, en síðan eru liðnir nokkrir mánuðir þannig að það hefur nú verið möguleiki á því að kippa þessum hlutum í lag og ríkisstjórnin hefði getað klárað það með litlum vandkvæðum fyrir þann tíma sem nú er kominn. En það að ekki skuli boðað frv. um breytingar á þessum lögum segir meira en mörg orð um það hvað búið er að gera í málinu.

Ég vildi bara taka þetta sérstaka mál hérna til umræðu og benda á það vegna þess að þetta er mikilvægt mál. Það er mjög mikilvægt mál að mati umboðsmanns Alþingis, sem lýsir sér í því að hann skuli hafa að eigin frumkvæði tekið málið upp. Niðurstaða hans er alveg skýr, hann telur að það þurfi að endurskoða þessi lög og telur miklar líkur á því að þau stangist á við stjórnarskrána. Og auðvitað á að bregðast við slíkum ábendingum frá umboðsmanni Alþingis og sýna bæði stjórnarskránni sérstaklega og umboðsmanni Alþingis þá virðingu að vinna hratt og markvisst að því að fara yfir mál af þessu tagi ef það kemur upp.

Ég vildi koma þessari gagnrýni minni á framfæri, en að öðru leyti tek ég undir það sem menn hafa sagt hér um að þessi skýrsla er afar gagnleg. Ég tel að á meðan málum er háttað með þeim hætti sem hefur verið gagnvart skýrslunni og umfjöllun um hana hér í Alþingi, þá eigi starfsnefndir þingsins, þeir sem í þeim eru, að fara yfir skýrsluna með það í huga að þeir beri svolitla ábyrgð á því að skoða einstök mál sem heyra undir þeirra nefndir. Og það er þess vegna sem ég fjallaði um þetta mál að ég á sæti í sjútvn. og finnst ástæða til þess að lesa sérstaklega það sem umboðsmaður er að segja um þann málaflokk sem heyrir undir hana.