Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 14:37:48 (957)

2003-10-30 14:37:48# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að hv. þm. Jónína Bjartmarz beindi eiginlega orðum til mín um umræðu á Norðurlandaráðsþinginu sem við vorum að koma af í gærkvöldi, þá var það rétt að þar var mikil umræða um þessi mál og þar var samþykkt tillaga um að myndin Lilya 4-ever yrði send í alla skóla á Norðurlöndum og ekki bara á Norðurlöndum, heldur líka í baltnesku löndunum. Það var líka umræða á þinginu um þá tillögu sem liggur fyrir hér eða aðferð Svía í vændismálunum. Ekki voru allir sammála um að fara leið Svíanna, heldur vildu menn sjá hvernig því máli reiddi af eða hver niðurstaðan yrði hjá þeim. Ég man ekki betur en að hafa heyrt það einnig eftir Elisabeth Rehn, sem var hér um daginn, að hún væri ekki heldur sátt við að fara þessa leið.

Af því að það hefur verið rætt mikið um það og við sjálfstæðiskonur dregnar fram í umræður um að við værum ósjálfstæðar og vildum ekki standa með ykkur að þessu máli, þá vil ég bara vísa því á bug. Það er nú bara einu sinni þannig að ef við eigum að vera með í máli, þá viljum við kannski fá að koma að því frá frumgerðinni og hafa það í því formi sem við mundum vilja sjá það. Við höfum ekki fengið tækifæri til þess. En við höfum mikla samúð með þessu máli. Það má ekki túlka þetta þannig að við séum eitthvað samþykkar vændi, konur í Sjálfstfl. Það er bara alveg af og frá.