Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 14:45:33 (961)

2003-10-30 14:45:33# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[14:45]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Frú forseti. Fyrir Alþingi liggur afar merkilegt lagafrv. um að gera kaup á vændi refsivert. Ég vil hvetja alla hv. þm. til að styðja efnisatriði þessa frv. og tel mikinn sóma fyrir löggjafarsamkunduna ef við getum komið okkur saman um að taka þessa sögulegu ákvörðun. Við þurfum að gera greinarmun og átta okkur á eðlismun viðskipta með vörur og þjónustu annars vegar og hins vegar viðskipta með líkama fólks. Við getum ekki litið á það sem viðskipti þegar einstaklingur ákveður að kaupa afnot af líkama annars einstaklings líkt og í vændi. Við getum ekki litið á það sem frjálst val að selja líkama sinn eins og gerist í vændi.

Goðsögnin um hina hamingjusömu hóru er einmitt goðsögn. Það getur hins vegar verið mjög erfitt að sannfæra einstakling sem afgreiðir þessa umræðu iðulega á þeim orðum að um sé að ræða frjálst val í frjálsum viðskiptum. Menn verða að átta sig á þessum eðlismun í hjarta sínu og með skynsemi sinni.

Ég tel að Alþingi Íslendinga mundi senda sterk og jákvæð skilaboð út í samfélagið ef við gerðum kaup á vændi refsiverð. Við megum ekki gleyma því að mannskepnan er í eðli sínu löghlýðin og því mundu lög í þessa átt hafa mikil áhrif á eftirspurn eftir vændi. Meðalmaðurinn mundi einfaldlega ekki taka áhættuna ef kaupin væru orðin refsiverð. Þar með væri eftirspurnin minnkuð sem væri fyrsta skrefið í að uppræta þessa misnotkun á manneskjum.

Ísland er eitt Norðurlanda með löggjöf sína þannig að seljandinn sé brotlegur en kaupandinn ekki. Ef maður skoðar hins vegar hver er að brjóta á hverjum þá er augljóst að þetta á að vera öfugt. Kaupandinn hefur valið sem seljandinn hefur ekki. Kaupandinn er gerandi í því broti sem á sér stað þegar líkami er keyptur til afnota. Getur verið að þingmenn líti svo á að vændiskona sé meiri glæpamaður en sá sem kaupir líkama hennar? Íslenskar vændiskonur geta því ólíkt öðrum konum ekki notið aðstoðar lögreglu verði þær fyrir ofbeldi eða sé réttur þeirra brotinn án þess að bjóða þeirri hættu heim að sæta ákæru og jafnvel fangelsi. Þessu þurfum við að breyta.

Það er einnig merkilegt að í núverandi löggjöf skiptir öllu máli hvort vændi sé til framfærslu eða ekki. Löggjafinn hefur einungis áhuga á vændi sem er stundað í svo miklum mæli að það hafi veruleg áhrif á afkomu þess sem það stundar. Þetta sýnir að afstaða löggjafans til vændis mótast fyrst og fremst af því hvort fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi. Sé svo er talin ástæða til að spyrna við fótum. Vændi er hins vegar alvarlegt vegna þess að það felst í misnotkun á manneskjunni. Alvarleikinn felst ekki í þeim fjárhagslegu hagsmunum sem í húfi eru. Skilningur eða öllu heldur misskilningur löggjafans á vændi sést einna best á því að allt fram til ársins 1992 var ákvæði um vændi í þeim kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um brot á reglum um framfærslu og atvinnuhætti.

Í umræðunni heyrir maður iðulega röksemdir á borð við þær að með því að gera kaup á vændi refsivert fari vændi neðan jarðar. Þessa röksemd tel ég ekki í takt við íslenskan veruleika. Vil ég þá spyrja þá sem halda þessu fram hversu sýnilegt vændi sé nú þegar í íslenskum veruleika. Þar sem hluti vændis er nú þegar ólöglegur, þ.e. salan, þá er vændi nú þegar neðan jarðar. Vændi verður því áfram neðan jarðar þótt kaupin á því séu leyfileg. Því tel ég að þessi lagabreyting breyti þar engu um.

Sem betur fer hefur vændi ekki tíðkast á Íslandi fyrir opnum tjöldum. Því tel ég að refsiverð kaup á vændi muni breyta litlu þar um. Hér er einungis verið að tala um að færa refsiábyrgðina þangað sem hún á heima.

Áhugamenn um lagatæknileg atriði benda á sönnunarbyrðina, að erfitt sé að sanna kaup á vændiskonu þegar kaupin eru orðin refsiverð. En mikilvægari spurning hlýtur að vera hvort eðlilegt sé að erfiðleikar við sönnun standist sem sjálfstæð röksemd gegn refsingu fyrir brot. Við bönnum margs konar brot, hvort sem erfitt er að sanna þau eða ekki. Nærtækustu dæmin eru að sjálfsögðu kynferðisbrot gegn börnum og nauðganir.

Á sínum tíma var ekki talið hægt að viðurkenna að nauðgun gæti átt sér stað innan hjónabands þar sem sönnun væri mjög erfið í slíkum málum. En nú viðurkenna allir að eiginmenn geta nauðgað eiginkonum sínum og jafnvel þótt erfitt geti reynst að sanna slíkar nauðganir, eins og reyndar nauðganir yfirleitt, eru það ekki rök fyrir því að nauðgun eigi að vera refsilaus samkvæmt lögum. Staðreyndin er nefnilega sú að í mörgum alvarlegum brotaflokkum er sönnunarstaðan erfið.

Við eigum einfaldlega að banna háttsemi sem brýtur á rétti einstaklings, hvort sem það er erfitt að sanna hana eða ekki. Með því að gera þátt seljandans refsilausan opnast einmitt sá möguleiki að sanna brot milligönguaðila vændis en seljendur vændis hafa hingað til ekki verið viljugir að blanda sér í slík mál, enda er þáttur þeirra refsiverður samkvæmt núgildandi lögum.

Þrátt fyrir fréttir um annað er reynslan af svipaðri löggjöf í Svíþjóð góð. Þeir vinna með þessi málefni hafa staðfest það að dregið hefur úr vændi eftir að lögunum var breytt þar. Og ofbeldi gegn vændiskonum hefur ekki aukist. Þetta hefur m.a. fyrrv. aðstoðarforsætisráðherra Svía staðfest. Hún benti einnig á mikilvægi þess að fræða lögregluna og koma henni til skilnings á löggjöfinni og markmiðum hennar, þannig yrði hún fús til að beita sér.

Ég vil að lokum hvetja alla þingmenn til að styðja efnisatriði þessa frv., ekki síst karlkyns þingmenn og þá sérstaklega unga karlkyns þingmenn. Ég sé að tveir eru hérna í salnum, hv. þm. Bjarni Benediktsson og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Ég hvet þá og reyndar allan þingheim til að styðja þetta frv. (Gripið fram í.) og ekki síst í því að þetta er í eðli sínu ekki spurning um refsilöggjöf heldur einnig jafnréttislöggjöf vegna þeirrar staðreyndar að það eru iðulega konur sem selja sig og karlar eru kaupendurnir. Þó er það langt frá því að vera algilt eins og við vitum. Lagabreytingin felur í sér viðhorfsbreytingu með þeim mikilvægu skilaboðum að líkamar kvenna eða annarra séu ekki til kaups.

Ég vil taka það fram að ég hefði gjarnan viljað vera meðflutningsmaður á málinu en vil þó leggja mitt lóð á vogarskálarnar í umræðunni hér.