Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 14:53:37 (962)

2003-10-30 14:53:37# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[14:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vona að ég geti talist í hópi hinna ungu karla sem hugsa sér að styðja þetta frv. Ég hef reyndar verið flutningsmaður að því á tveimur síðustu þingum og færði þá fórn í þágu aukinnar samstöðu um málið að hverfa af lista yfir flutningsmenn. Mér var það nokkuð þungbært og segi eins og síðasti hv. ræðumaður að ég hefði gjarnan viljað vera á þessum lista áfram en það má svo sem einu gilda. Stuðningur minn við málið á a.m.k. að liggja rækilega fyrir.

Ég vil byrja á að þakka hv. 1. flm. frv. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir dugnaðinn og einbeitnina sem hún hefur sýnt í þessu máli og þann árangur sem ég tel tvímælalaust að sé að nást frá því málið hóf hér göngu sína á þingi fyrir fjórum árum, að jafnbreið samstaða skuli orðin um málið og raun ber vitni. Vonandi hillir undir að hún verði alger og málið fái hér endanlega afgreiðslu.

Auðvitað er þetta mál ekki einhlítt. Það er síður en svo að allir séu ánægðir með það. Það þekkjum við vel sem erum aðstandendur þess frá fyrstu tíð. Það hafa ekki alltaf verið hlýlegar kveðjur og góðar óskir sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur fengið fyrir frumkvæði sitt í þessu máli þótt þær séu sem betur fer mjög margar. Ég er í engum vafa um að það hefur orðið gríðarleg hugarfarsbreyting í almennri umræðu um þessi mál, bara á þessum síðustu árum. Lagabreytinga af þessu tagi nýtur núorðið mjög víðtæks stuðnings úti í þjóðfélaginu og hlýtur náttúrlega að koma að því að einhver geri um það skoðanakönnun. Í skoðanakönnunum er spurt um allt milli himins og jarðar og löngu tímabært að kanna afstöðu almennings til þessa máls.

Ég vil í öðru lagi sérstaklega halda á lofti þeirri staðreynd að þetta er að sjálfsögðu ekki sérmál kvenna, nema síður væri. Ef eitthvað er ætti körlum að renna blóðið enn frekar til skyldunnar og leggja þessu lið sitt, að takast á við þann gríðarlega harmleik sem vændið er og allt sem því fylgir. Ég vona sannarlega að karlar hér á þingi og annars staðar í þjóðfélaginu láti ekki sitt eftir liggja hvað það varðar að tala fyrir þessu máli og takast á við, oft kynbræður sína, sem hafa önnur viðhorf uppi í þessum efnum. Þau eru því miður víða á ferli.

Ég hef fylgst mjög náið með ferli þessa máls í Svíþjóð allt frá því á árinum 1997 og 1998 þegar til umræðu kom í sænskum stjórnmálum að fara þessa leið. Gegnum veru mína í Norðurlandaráði allan þennan tíma hef ég haft ágæta aðstöðu til þess. Ég fylgdist með umræðunum á sænska Ríkisdeginum þegar frumvarpið var þar til meðferðar. Þá voru auðvitað um það mjög skiptar skoðanir og ýmsar hrakspár uppi sem hafa síðan sem betur fer nánast allar afsannast.

Þegar menn vitna til þess að það sé mikilvægt að fylgjast með reynslunni og skoða hana þá er það að sönnu rétt. En hún liggur nú þegar fyrir með býsna afdráttarlausum hætti. Það er komin heilmikil reynsla á þessa löggjöf í Svíþjóð. Það er búið að dæma menn í nokkuð miklum mæli. Það er ekki bara búið að dæma einstaka kaupendur heldur hefur löggjöfin nýst til að koma upp um skipulagða umfangsmikla starfsemi og vændishringi. Hún hefur nýst í baráttunni gegn mansali og á margan annan hátt hefur þetta reynst mjög árangursríkt tæki í að takast á við allt sem vændi fylgir og því tengist. Þetta leiðir einnig yfir í fíkniefnaheiminn og skipulagða glæpastarfsemi og annað í þeim dúr.

Rökin sem helst hafa verið höfð uppi gegn því að fara þessa leið eru þau að þetta ýti vandanum bara neðan jarðar. Ef við veltum því aðeins betur fyrir okkur þá halda þau rök ekki. Þau standast ekki dóm reynslunnar og halda heldur ekki nema menn séu tilbúnir til að lögleiða vændi. Svo lengi sem vændi er ólöglegt er það auðvitað bannað. Eðli málsins samkvæmt er það þar af leiðandi dulin starfsemi. Ég fæ ekki séð að það sé frambærileg og haldbær röksemdafærsla að neikvæðir fylgifiskar lagabreytingar af þessu tagi séu þessir, nema menn séu tilbúnir til að snúa algerlega við blaðinu og velja þá leið að lögleyfa þessa starfsemi, sem ég vona að fáir séu, a.m.k. hér á þingi, til að tala fyrir.

Annars er spurningin bara um hversu þungar refsingarnar og viðurlög eru við þessu og hverjir skuli dregnir til ábyrgðar. Ég held að við getum ekki notað það sem röksemd eða talið ókost að starfsemi sem er bönnuð hverfi af yfirborðinu við einhverjar breytingar. Eða eru menn þá að segja að lögum sé þannig framfylgt að menn setji kíkinn stanslaust upp að blinda auganu? Ja, ég veit það ekki.

Eitt er víst og það var prýðilega rökstutt í máli síðasta ræðumanns, Ágústs Ólafs Ágústssonar, 10. þm. Reykv. s., að núverandi ástand í íslenskum lögum er algerlega fráleitt. Það er í raun algjör hneisa að láta það standa áfram óbreytt í öllu falli, hvort sem okkur kann að greina eitthvað á um að fara nákvæmlega þessa sænsku leið eða einhverja útgáfu af henni. Ég held að það sé ekki á nokkurn hátt verjandi lengur að þetta sé í löggjöfinni íslensku eins og hún er, að það sé sá sem hefur neyðst út í þau ósköp, eða verið neyddur til þess sem jafnoft er, að selja líkamann sinn sem telst sökudólgurinn í málinu en hitt sé ekki refsivert.

[15:00]

Menn geta auðvitað velt því fyrir sér lagalega hvort að ábyrgðin ætti að vera á herðum beggja með einhverjum hætti. Sumir færa fram þá röksemd gegn þessu frv. að að því leyti sé gengið of langt. En það eru ekki rök fyrir því að láta núgildandi rök standa óbreytt, fjarri því.

Ég held að megingildi þessa frv. og það sem í því felst sé tvíþætt. Þetta hefur tvímælalaust lagalegt gildi. Þetta verður að mikilvægu tæki, vopni, í höndum okkar til að glíma við þennan vanda, vændið, mansalið, kúgunina, mannréttindabrotin og niðurlæginguna sem þessu eru samfara. En þetta hefur líka gríðarlega mikið pólitískt og huglægt gildi. Þetta er spurning um viðhorf, um nálgun í málinu. Það er ekki síður mikilvægt í mínum huga að menn horfi á þann þátt málsins. Það er grundvallarstefnubreyting fólgin í því af hálfu löggjafans hvernig menn nálgast þessi mál ef við veljum þessa leið. Við erum að lyfta þeim gildum sem allt of lítið hafa komist að í umræðunni sem snúa að mannréttindabrotunum, að frelsissviptingunni, að siðleysinu, sem býr á bak við. Þar af leiðandi er það hárrétt að þó það kunni oft á tíðum að vera torsótt að sanna brotin eru þau ekki betri fyrir það. Þau eiga að vera refsiverð eftir sem áður og ekki síður þó það sé stundum erfitt að komast að þeim.

Það er mikil hreyfing í gangi í þessum efnum. Það hefur verið nefnt að í Finnlandi er þetta mál á dagskrá og það lítur held ég betur og betur út fyrir það að ef Íslendingar verða ekki næstir á eftir Svíum þá verði það Finnar. Vonandi viljum við gjarnan vera í öðru sæti. Í Noregi er mikil umræða orðin um þessi mál þó svo það sé rétt að norsk stjórnvöld hafi verið afar hikandi í framgöngu sinni hingað til. En það gildir það sama þar og mjög víða annars staðar, að frumkvæði Svía er orðið mjög vel þekkt. Það er um það mikil umræða. Það er alls staðar verið að fylgjast með því hvernig til tekst. Og það er vaxandi fylgi við það, fullyrði ég, mjög víða á Norðurlöndunum, við Eystrasaltið og suður um alla Evrópu, Kanada og víðar, að fara þessa sænsku leið.

Ég held að við eigum líka að hafa það í huga að þetta er angi, að vísu mjög stór þáttur, af gríðarlega miklu máli sem er kynlífs- og klámvæðingin og öll sú starfsemi sem henni tengist. Við Íslendingar höfum sem betur fer verið tiltölulega heppin hvað það snertir. Smæð og fámenni og landfræðileg einangrun hefur varið okkur talsvert fyrir því að þessi starfsemi hefur ekki verið jafn umfangsmikil og útbreidd og víða annars staðar. Við njótum fjarlægðarverndar gagnvart þeim aðstæðum í austanverðri Evrópu sem hafa þýtt þessa flóðbylgju yfir á Norðurlönd og til Vestur-Evrópu enn um sinn og þó er það kannski mjög að bresta. Það er hins vegar engin afsökun fyrir því að takast ekki á við þetta og horfast í augu við það.

Eins og hér hefur komið rækilega fram þá er sá tími bara því miður liðinn að við getum leyft okkur að lifa í þeirri trú að þetta sé ekki vandamál á Íslandi. Það er algjörlega borðleggjandi, það vita það allir að sá tími er því miður liðinn. Það sem verra er, við höfum verið tiltölulega andvaralaus í þessum efnum, alveg fram á síðustu missiri. Menn opnuðu hér allar gáttir fyrir súlustöðunum og það er ágætt fyrir menn að hugleiða það í þessum sal þegar þau mál voru tekin upp á Alþingi fyrir einum sex til átta árum síðan og spurt hvort ekki væri nú ástæða til að sporna við og gera eitthvað. Hjörleifur Guttormsson þáv. hv. þm. tók það hér upp og spurði: Ætla menn að leyfa þessa starfsemi? Þarf fólk ekki atvinnuleyfi sem ætlar að koma inn og starfa þarna? Hvað var gert hér í salnum? Það var hlegið. Það vildu margir Lilju kveðið hafa núna. Hvað hafa síðan sveitarfélög og löggjafinn verið að reyna, því miður eftir að búið er að hleypa starfseminni af stað? Jú, að takast á við hana og takmarka hana. Banna einkadans og annað í þeim dúr. En það var algert andvaraleysi ríkjandi gagnvart því þegar þessu var hleypt af stað. Auðvitað er miklu betra ef menn takast á við hlutina strax og eru með fyrirbyggjandi aðgerðir í staðinn fyrir að fljóta sofandi að feigðarósi og vakna svo upp við vondan draum þegar allt er komið í óefni.

Þetta mál snýst því líka um að við reynum að taka á vaxandi vandamáli sem er vændi á Íslandi og gerum það fljótt áður en ástandið versnar enn. Það er enginn vafi á því í mínum huga að hvert einasta ár getur reynst mjög dýrmætt í þeim efnum.

Þá vil ég aftur minna á allt sem fylgir og við vitum vel að er fylgifiskur vændis og klámiðnaðar alls staðar í heiminum. Hann er alls staðar gróðrarstía fyrir fíkniefnadreifingu, fyrir mansal, fyrir skipulagða glæpastarfsemi og fyrir vopnaburð. Af hverju? Af því að það eru gríðarlegir fjármunir á ferðinni. Og fólk er tekið ófrjálsri hendi og þvingað inn í þessa starfsemi. Þá þurfa menn á vopnum að halda og skipulögðu neti til að halda utan um hlutina. Ég hef séð stóra og sterka karlmenn fara upp í flugvélar og fljúga milli Akureyrar og Reykjavíkur með þrjár konur af austrænum uppruna. Hverra erindagerða voru þeir? Þeir voru gæslumenn fyrir þessar ófrjálsu konur sem verið var að fara með á milli súlustaða norðan og sunnan heiða. Það er ömurlegt að horfa upp á slíkt gerast á Íslandi. Og maður er auðvitað varnarlaus. Þar væri þó löggjöf af þessu tagi strax í áttina og möguleiki kannski á að grípa inn í, þó auðvitað þurfi margt fleira að koma til. Á því er líka verið að taka í öðrum þingmálum eins og því að tryggja fórnarlömbum vernd, þeim sem vilja koma fram og kæra o.s.frv.

Það er ekki lítið í húfi fyrir Ísland að takast á við þessi mál og reyna eins og kostur er að fyrirbyggja að allir þessir hlutir skjóti hér rótum því við vitum alveg hvers konar grundvallarbreytingar verða á samfélagi við það að þar vaxi upp klámiðnaður, skipulögð glæpastarfsemi og allt sem þarna hangir á spýtunni.

Ég vona því svo sannarlega, herra forseti, að þetta mál fái afgreiðslu og við getum öll, karlar og konur í öllum flokkum, sameinast um farsæla afgreiðslu þess á þessu þingi. Ég bind miklar vonir við að svo verði og er algerlega sannfærður um að flm. frv. eru allir af vilja gerðir að gera á því þær breytingar, ef það þarf einhverjar, til þess að um afgreiðslu þess geti tekist samstaða, því það væri auðvitað langbest að um afgreiðslu málsins gæti tekist alger samstaða, þó meiri hluti þingsins eigi að ráða niðurstöðunni að lokum ef ekki tekst svo vel til að full samstaða náist um málið. Hún er í sjónmáli í formi þess að stór hópur þingmanna úr fjórum þingflokkum af fimm eru flutningsmenn málsins. Það eru auðvitað ákveðin skilaboð um að þegar sé í sjónmáli þingræðislegur meiri hluti fyrir því að gera þessar breytingar. Við skulum vona og vinna að því í lengstu lög að um málið geti tekist alger samstaða.