Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 15:08:38 (963)

2003-10-30 15:08:38# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Ég finn mig knúna til þess að standa hérna upp í þessari umræðu. Reyndar er það nú svo að mér finnst ég vera aðeins vanbúin til þessarar umræðu því ég átti nú ekki von á því að hún færi fram í dag, þó maður hafi kannski mátt vita betur þar sem þetta umræðuefni var á dagskránni, en ég átti ekki von á því að það yrði tekið fram yfir mörg önnur mál sem eru á dagskrá hér í dag.

Ég er búin að vera á þingi núna í tvo daga og hefði gjarnan viljað hafa meiri tíma til þess að undirbúa mig undir þetta, því þetta er náttúrlega stórt mál. Ég er svo sem ekkert að afsaka mig hér, en vildi að þetta kæmi fram og geri athugasemdir við það að ekki var haft samráð við þingflokksformennina varðandi breytingu á dagskránni í þessa veru.

Mig langaði til þess að ræða málið bæði efnislega og hvernig að því var staðið og vildi þá fyrst fjalla um aðdraganda þess.

Í kynningu á frv. hefur því mikið verið haldið á lofti að eingöngu konur standi að frv. og var gengið svo langt að útiloka karlmenn, áhugasama karlmenn, til þess að vera meðflutningsmenn. Ég heyri það á hv. þm. Steingrími Sigfússyni að honum þótti þetta mjög miður og hefði gjarnan viljað vera með. En það að eingöngu konur eru á þessu frv. átti sennilega að vera merki um ákveðna samstöðu kvenna á þingi sem mætti kalla, með slettu og með leyfi forseta, svona ,,sisterhood`` --- systrasamstöðu. Við kynningu á frv. hins vegar þá vék meginhugmyndafræði frv. fyrir árásum á konur í þingflokki Sjálfstfl. að þær væru ekki með. Skilaboðin voru þau að konur í Sjálfstfl. væru svo aumar að þær þyrðu ekki að taka afstöðu nema bera það undir karlana í flokknum. Og síðast í Fréttablaðinu í dag birtist endurvarp þessara skilaboða frá konum í þingflokki Vinstri grænna, Samf., Framsfl. og Frjálsl. til alþjóðar undir yfirskriftinni: Ósjálfstæðar konur í Sjálfstæðisflokknum.

Augljóst má því vera að það fór lítið fyrir systrasamstöðu. Meginatriðið við framlagningu frv. var ekki efnisleg kynning á frv., heldur að koma höggi á konur í Sjálfstfl. og gefa í skyn að þær standi og sitji eftir reglum karlanna í flokknum. Það fór sem sagt lítið fyrir systrasamstöðu þegar mátti koma höggi á stallsystur sínar.

Vissulega er það svo að konur, reyndar einnig karlar í Sjálfstfl. og reyndar þingheimur allur er í sárum eftir ákveðna niðurstöðu þingkosninganna í vor þegar fimm reyndar stjórnmálakonur Sjálfstfl. duttu út af þingi. En það var hins vegar lúalegt bragð af konum í öðrum flokkum á þingi að snúa hnífnum í sárinu.

Það er almenn regla í þingflokkunum hér á hinu háa Alþingi að þingmenn ræða það í þingflokkunum hafi þeir hug á að vera meðflutningsmenn að frumvörpum eða þáltill. þingmanna annarra flokka. Það á ekki bara við um Sjálfstfl. því ég hef kynnst því þegar ég hef verið að biðja aðra þingmenn um að skrifa upp á þáltill. eða frumvörp sem ég hef verið að leggja fram, þá hefur verið svarað með þeim formerkjum: Já, en ég þarf fyrst að bera það undir þingflokkinn minn. Í þessu tilviki var konum í Sjálfstfl. ekki gefið tækifæri til slíks. A.m.k. ein þeirra var erlendis og hending hvort hinar voru í tölvusambandi. Þeim sem voru þó í tölvusambandi var gefinn kostur á að svara samdægurs, daginn fyrir þingsetningu.

Nú er mér ekki kunnugt um það hvort konum í þingflokkum annarra flokka hafi einnig verið gefinn sami stutti fyrirvari, en mig grunar að svo hafi ekki verið og tilmæli til kvenna í þingflokki Sjálfstfl. hafi verið yfirklór eða eftiráhugsun. En augljóslega var tilgangurinn sá að koma höggi á þær, koma á bak þeim. Hvar er þá systrasamstaðan hér?

Reyndar verð ég að segja að þessi vinnubrögð koma mér á óvart, því ég þekki hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að öðru. Hingað til hafa konur á hinu háa Alþingi lagt upp úr því að þær standi saman. Sjálf hef ég einnig haldið þessu fram og er ósammála þeirri mýtu að konur séu konum verstar. Ég er ósammála því. Það má því ljóst vera að þessi framgangsmáti að konur í þingflokki Vinstri grænna, Samf., Framsfl. og Frjálsl. hafi lagt sig í líma við að koma höggi á konur í Sjálfstfl. eru mér mikil vonbrigði. Og síðast í umræðunni í dag þegar hv. þm., ágæt vinkona mín, Guðrún Ögmundsdóttir, hélt áfram þessari sömu klisju. Vonbrigði mín varða þá pólitísku hlið sem snýr að því að koma höggi á andstæðinginn.

Hins vegar er það annað mál hvort þingmenn séu efnislega sammála því frv. sem hér hefur verið lagt fram, hvort konur í Sjálfstfl. hefðu kosið að vera meðflutningsmenn frumvarpsins hefðu þær fengið tækifæri og rými til þess að skoða málið.

Reyndar hefur komið fram í viðtölum við hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur og Sólveigu Pétursdóttur að þær hafi ákveðnar efasemdir um setningu slíkra laga. Hér segir, með leyfi forseta, í viðtali við hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur og hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur, þriðjudaginn 21. október í Morgunblaðinu, með leyfi forseta:

,,Ég tel að setning slíkra laga muni ekki ná þeim árangri sem til er ætlast.`` Og hv. þm. Sólveig segir, með beinni tilvitnun: ,,Sólveig segir það ekki rétta leið að útrýma mannfyrirlitningu með breytingu á refsilöggjöfinni.``

[15:15]

Jafnframt kemur fram að þegar hv. þm. Sólveig Pétursdóttir var dómsmrh. lét hún þessi mál sig mikið varða og lét gera tvær skýrslur um vændi sem eru grundvöllur að umræðu um vændi í nútímanum, í dag, og grundvöllur að því frv. sem hér hefur verið lagt fram og enn fremur að þar hafi verið nefndar fjölmargar úrbætur. Svo segir, með leyfi forseta:

,,Þar er á hinn bóginn tekið fram að nefndin, sem vann skýrsluna, telji ekki rétt a.m.k. að svo stöddu að fara út í þær lagabreytingar sem hér um ræðir vegna þess að ákveðin hætta fylgi slíkum breytingum. T.d. er bent á sönnunarvanda og hættuna á því að vandamálið, vændið, fari undir yfirborðið. Þar með verði síður hægt að hjálpa þeim sem eiga í vanda.``

Síðan kemur einnig fram sú varfærni hjá hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur að hún telur að miklu betri upplýsingar þurfi að koma fram um það hvaða áhrif lögin hafa haft í Svíþjóð. Jafnframt leggur hún áherslu á að mikilvægt sé að ráðast gegn því samfélagsböli sem vændi er. Í máli hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur kemur enn fremur fram, með leyfi forseta:

,,Ég er einfaldlega mjög efins um að þessi aðferð stemmi stigu við vændi,`` útskýrir hún. ,,Ég tel að margir hafi ofmetið þessa aðferð.``

Það er alveg ljóst af þessu að afstaða tveggja af fjórum konum í þingflokki Sjálfstfl. liggur ljós fyrir og þær hafa ákveðnar efasemdir, og leyfa sér það, og ég verð að segja að mér finnst sem ég standi hér uppi í ákveðinni úlfagryfju. Ég ætla samt að leyfa mér á sama máta og þeir tveir hv. þm. sem ég nefndi að hafa sömu efasemdir og þær og eins og Finnar hafa, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.

Ég vil aftur benda á það að ég sit hér sem varaþingmaður og ég var ekki þátttakandi í þessu sjónarspili sem fór fram í þingbyrjun eins og ég lýsti áðan. Núna ætla ég að halda mig við efnisatriði frv. og lýsa skoðunum mínum á málinu í stuttu máli.

Meginbreyting frv. lýtur að því að ekki verði lengur refsivert að stunda vændi til framfærslu, heldur verði refsiábyrgðinni snúið og verði refsivert að kaupa vændi og aðra kynlífsþjónustu. Ég er sammála því sem kemur fram í greinargerð með frv., að það þurfi að snurfusa ýmsar greinar og skilgreina sérstaklega hvað felst í ,,vændi`` og hvað felst í ,,lauslæti``. Hins vegar er ég ekki sannfærð um að árangur náist í baráttu gegn vændi og þeirri mannlegu niðurlægingu sem bæði konur og karlar upplifa við að selja aðgang að líkama sínum með því að snúa refsiábyrgðinni við og gera refsivert að kaupa vændi. Til að fyrirbyggja allan misskilning vil ég ekki að þessi afstaða sé túlkuð á þann veg að sjálfstæðismenn eða ég sem sjálfstæðismaður sé einhver sérstakur talsmaður hinnar hamingjusömu vændiskonu og því síður talsmaður þess að lögleiða vændi, svo að það sé alveg ljóst.

Hins vegar langar mig líka aðeins að nefna það að margir hv. þm. hafa bent á að þetta vandamál snúi sérstaklega að konum, það séu konur sem selji sig og karlar kaupi. Þess vegna hlýt ég að draga það fram sem sérstakt umhugsunarefni að þetta er ekki alveg svo. Í nýlegri skýrslu sem kom mér og held ég flestum öðrum á óvart, skýrslu um rannsókn eftir Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur, kom fram að af krökkum í framhaldsskólum höfðu 2% ,,selt sig`` og þar af voru um það bil 3/4 strákar, 1/4 stelpur. Þetta kom mér á óvart, veit ekki með aðra, en það kemur einnig fram í þessari rannsókn að þetta er ekkert einstakt fyrir Ísland, heldur á þetta við víðar, í Noregi, Bandaríkjunum og víðar.

Það kemur einnig fram og mjög sterklega í niðurstöðum þessarar rannsóknar að rótin að því að ungmenni leiðist út í vændi er félagslegt vandamál og ekki síst kynferðisleg misnotkun í æsku. Það vakti reyndar sérstaklega athygli sem kannski er þó ekki ástæða til að draga fram nema til umhugsunar --- og ég skil ekki reyndar --- að það skuli vera sterk fylgni milli lágrar menntunarlegrar stöðu feðra og líkanna á að einstaklingur leiðist út í vændi. Þetta er eitthvað sem þarf að skoða nánar. Það er alveg augljóst að við náum bestum árangri með því að ráðast á grunnundirliggjandi aðstæður þess að einstaklingur leiðist út í vændi til að verja börn á uppvaxtarárunum. Ég tel að einmitt á síðasta kjörtímabili hafi hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, þáv. hæstv. dómsmrh., beitt sér sérstaklega fyrir því að herða refsingu við kynferðislegri misnotkun barna. Við sjáum þessa dagana að þær breytingar sem hið háa Alþingi gerði á hegningarlögum á síðasta kjörtímabili eru að byrja að skila sér. Til viðbótar má segja að sú vitundarvakning sem hefur orðið í þjóðfélaginu varðandi einelti, að sporna við einelti sem er grundvöllur margra félagslegra vandamála hjá börnum sem síðan vaxa upp, er mjög ánægjuleg. Það er augljóst að tilgangurinn með þeirri breytingu sem frv. leggur til er að ekki verði lengur ólöglegt að stunda vændi sér til framfærslu heldur að það megi ekki kaupa það. Með öðrum orðum er með frv. verið að segja að það sé löglegt að stunda vændi en ólöglegt að kaupa það. Einhvern veginn passar þetta ekki saman í mínum huga. Ég er ósammála þessari nálgun og mér finnst hún ekki rökrétt.

Á sama hátt mætti segja að það væri heimilt að selja eiturlyf, seljandi eiturlyfja bæri enga refsiábyrgð, en það væri kaupandinn, eiturlyfjaneytandinn einn, sem bryti lög með því að kaupa eiturlyfin. Eiturlyfjaneytandanum væri refsað en eiturlyfjasalinn væri í rétti að selja vöruna. Þetta finnst mér heldur ekki standast. (BH: Þarna ertu komin með vöru.) Ég vona að hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir sjái nú samlíkinguna. Þarna er verið að skilgreina hver er seljandi og hver kaupandi á sama hátt og verið er að skilgreina hver er seljandi og hver kaupandi í frv. sem hér er til umræðu.

Rætt hefur verið um hvaða áhrif þessi löggjöf hefur haft í Svíþjóð. Ákveðnar vísbendingar hafa komið fram um framför en líka hefur verið dregið í efa að þær séu réttar og bent á að spádómur margra um að þetta vandamál færi undir yfirborðið hefði ræst, erfiðara yrði að nálgast konur í þessum vanda, konur eða karla í þessum vanda. Ég tel að við þurfum meira svigrúm til þess að fá reynslu á lögin, til þess að við séum nokkuð viss um að við séum að taka rétt skref í þessa veru. Það er mín skoðun, virðulegi forseti, að löggjafinn verði að gefa skýr skilaboð um þær samskiptareglur sem gilda eiga manna í milli er varða löggjöf landsins.

Sú tillaga sem hér er lögð fram gefur tvöföld skilaboð. Hún segir að annars vegar megi stunda vændi en hins vegar megi ekki kaupa það og ég segi að þetta passar ekki saman í mínum huga. Ég er tilbúin að skoða margar leiðir til að stemma stigu við vændi hér á landi og að aðstoða fólk við að vinna sig út úr neyð sem hefur knúið það til slíkrar iðju, eins og fátækt, áfengis- og vímuefnaneyslu eða aðrar aðstæður. Hins vegar verða skilaboðin að vera skýr og ef það á að fara þá leið að refsa fyrir vændi er það mín skoðun að refsi\-ábyrgðin eigi að vera á báða bóga. Það ætti að vera refsivert bæði að stunda vændi og kaupa vændi.