Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 15:24:44 (964)

2003-10-30 15:24:44# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er svo sem ekki ljúft að koma í ræðustól og gefa andsvar við ræðu hv. þm. Ástu Möller en ég verð að segja samt sem áður að málin hér þróast ansi oft þannig að dagskránni er breytt án þess að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar séu látnir vita. Og ég vil að því sé haldið til haga að ég gerði mitt ýtrasta til að láta vita af því að samkomulag hefði náðst meðal þingmanna sem áttu hér mál á dagskrá um að þetta mál færi fram fyrir nokkur önnur mál og það vildi þannig til þegar ég var að láta fulltrúa úr Frjálsl. vita að þingflokksformaður Sjálfstfl. varð á vegi mínum og ég tilkynnti honum um að það væri verið að gera breytingu á dagskránni. Það kom engin athugasemd við það frá honum. Um þetta vissi forseti þingsins, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, þannig að formlega var ekki neitt að því að þetta mál væri tekið fram fyrir önnur mál. Það var gert í samkomulagi og með vitneskju þeirra sem ég taldi að þyrftu að vita.

Um annað í málflutningi hv. þingmanns langar mig til að segja að hún talar af fullkominni vanþekkingu um málið. Mér finnst kannski eðlilegt að þingkonur Sjálfstfl. séu fullar af vonbrigðum með það hvernig umræðan um málið hefur þróast úti í fjölmiðlum. Það vita allir sem vilja vita að ég hef reynt að ljá ekki máls á þeim umræðum sem fjölmiðlamenn vilja fara út í hvað þetta varðar.

Það skal upplýst hér að ég var í sambandi við þingkonur Sjálfstfl., sannarlega ekki allar en þann 4. september óskaði ég eftir því við hv. þm. Drífu Hjartardóttur að hún talaði við sínar konur og þær skoðuðu þetta mál með jákvæðum huga. Mér finnst þetta mál svo miklu mikilvægara en svo að það sé hægt að ásaka mig um það að ég hafi með lúalegu bragði reynt að koma höggi á þingkonur Sjálfstfl. því að það hef ég svo sannarlega ekki gert.