Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 15:34:41 (970)

2003-10-30 15:34:41# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Frú forseti. Ég mótmæli því líka að í umræðu um þetta mál hafi átt sér stað einhvers konar aðför að sjálfstæðiskonum. Hafi það komið þannig út held ég að það hafi ekki verið meiningin en ég verð að segja eins og er að ég undrast mjög hvernig þær sjálfstæðiskonur sem ég hef heyrt fara í þessa umræðu í fjölmiðlum tjá sig um málið. Hv. þm. Ásta Möller nefndi tvær þeirra hér áðan og nú endurtekur hv. þm. Ásta Möller þessa sömu rökræðu sem snýst annars vegar um að ,,við fengum ekki að vera með`` og hins vegar ,,við viljum ekki vera með``. Hvort er það?

Mér finnst kannski ekki skipta öllu máli þó að fólki hafi ekki verið boðið að vera með á frumvörpum ef það er síðan jafnákveðið í að það hefði ekki verið með. Mér var ekki boðið að vera með á rjúpumáli hv. þm. Gunnars Birgissonar, svo dæmi sé tekið, og ég er ekkert mjög móðguð yfir því. Mér finnst þessi umræða hafa fengið allt of mikið svigrúm í tengslum við þetta mál því að auðvitað eigum við að halda okkur við efnislegu umræðuna.

Ég vil hins vegar gera þá efnislegu athugasemd við ræðu hv. þm. að mér finnst óviðeigandi þegar hún talar um kaupanda og seljanda vöru í þessari umræðu. Hér kom m.a. mjög skýrt fram hjá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni og e.t.v. fleirum að ekki er hægt að líkja þessu saman. Við erum ekki að tala um kaup og sölu á ,,vöru``. Þetta eru ekki viðskipti í þeim skilningi. Við erum að tala um sölu á fólki. Mér finnst mjög mikilvægt að við höfum það í huga í umræðunni og þess vegna mótmæli ég þessari samlíkingu.