Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 15:38:27 (972)

2003-10-30 15:38:27# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Frú forseti. Ég tel ekki að þessi samlíking eigi við. Það er ekki hægt að tala um kaupanda og seljanda sem jafnréttháa einstaklinga hér og það er ekki heldur hægt að líkja saman sölu á vöru annars vegar og sölu á fólki hins vegar. Jafnvel þó að eitthvað kunni að vera líkt með misvæginu á milli kaupanda og seljanda erum við annars vegar að tala um vöru og hins vegar um fólk. Það finnst mér vera grundvallaratriði.

Varðandi fjölmiðlaumræðuna er það hins vegar vissulega rétt að fjölmiðlar drógu mjög fram þessa mynd strax og það er svo sem ekkert nýtt að fjölmiðlar kveiki á svona hlutum. Þegar þeir sjá að það eru konur úr öllum flokkum nema einum þarf ekkert að benda þeim á það sérstaklega.

En mér þykir, svo að ég gagnrýni þátt þeirra sjálfstæðiskvenna sem hafa svarað fyrir þetta, að það hefði verið stórmannlegra af þeim að segja einfaldlega: Já, það er rétt, við erum ekki með á þessu frumvarpi, við erum ósammála þessu frumvarpi --- eins og þrjár þeirra hafa núna sagt --- í staðinn fyrir að segja: Það var vegna þess að hún Kolbrún lét okkur ekki vita fyrr en deginum áður, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, svo að ég haldi mig við þingsköpin, frú forseti.

Tvær hv. þingkonur Sjálfstfl. hafa tekið ansi mikinn þátt í því að blása þetta út í fjölmiðlum og ég horfði á heilan umræðuþátt nánast bara um það, frú forseti.