Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 15:40:30 (974)

2003-10-30 15:40:30# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., KJúl
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[15:40]

Katrín Júlíusdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er á ferðinni afar gott mál að mínu mati. Í vændi felst alvarleg misnotkun á manneskjunni og gríðarlegt ójafnvægi á milli einstaklinga. Íslensk refsilöggjöf er lýtur að vændi er í dag mjög óréttlát og ekki síður gamaldags. Þetta frv. sem hér liggur fyrir er því afar tímabært.

Í almennum hegningarlögum er það skýrt að hver sá sem stundar vændi sér til framfærslu skuli sæta refsingu. Þetta er óréttlátt. Það er óréttlátt vegna þess að hvergi er minnst á ábyrgð þess sem kaupir líkama annarrar manneskju sér til afnota. Ábyrgð þess sem kaupir líkama annars til sinna afnota hlýtur að vera veruleg því að það er alls ekkert jafnvægi í þessum samskiptum. Einn kaupir aðgang og afnot af líkama annars með peningum á meðan þeir sem selja líkama sinn búa yfirleitt við afar bágar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður sem kaupandinn færir sér í nyt í skjóli almennra hegningarlaga þar sem engin refsing liggur við því. Lögin eru í dag kaupandanum í hag sem eykur enn á ójafnvægið í þessum samskiptum.

Virðulegi forseti. Sú leið sem lögð er til í frv. hefur verið sett í lög í Svíþjóð. Þar í landi hafa menn nefnilega þorað að viðurkenna að enginn selur líkama sinn nema í algerri neyð. Því sé rangt að ríkið og samfélagið refsi fólki sem býr við slíka neyð og grípur til slíkra neyðarúrræða. Kaupandinn er sá sem notfærir sér neyð vændiskvenna og -karla og því ber okkur að færa refsinguna á kaupandann. Kaupandinn er gerandi í því broti sem á sér stað þegar líkami er keyptur til afnota.

Virðulegi forseti. Forsendur og röksemdir fyrir þessari breytingu eru fjölmargar og vel raktar í grg. með frv. sem og í framsögu 1. flm., Kolbrúnar Halldórsdóttur, og annarra sem hér hafa talað. Ég er afar þakklát fyrir það að vera meðflutningsmaður á þessu máli á mínu fyrsta þingi og á ég þá ósk heitasta að frv. verði samþykkt svo að réttlætið endurspeglist í lögunum hvað þessi mál varðar.

Sú leið sem hér er lögð til mun líklega ekki útrýma vændi á Íslandi en hún lýsir gildismati sem við viljum að börnin okkar alist upp við, er skref í átt að samfélagi þar sem virðing fyrir manneskjunni er í hávegum höfð, samfélagi þar sem líkami fólks er ekki til kaups. Það er grundvallaratriði að mínu mati.