Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 15:44:26 (975)

2003-10-30 15:44:26# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., SigurlS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 8. þm. Reykv. n., Kolbrúnu Halldórsdóttur, fyrir þá elju að flytja hér frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum. Ég er sannarlega stolt af því að vera meðal meðflutningsmanna frv. og vil því koma því á framfæri að þingflokkur Frjálsl. styður það.

Vændi er skilgreint sem ofbeldi, svo mikið er víst. Það að fara út í vændi er nokkuð sem enginn gerir nema í algerri neyð. Þá neyð hefur samfélagið að stórum hluta kannski mótað ósjálfrátt án þess að einstaklingarnir fái rönd við reist.

[15:45]

Fjölmargar ástæður liggja að baki því að fólk leiðist út í vændi. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór vandlega yfir þær ástæður í flutningi sínum. Sú breyting sem frv. felur í sér er að gera þann sem skapar eftirspurnina að vændi refsiverðan, þ.e. kaupanda vændisins. Það hlýtur líka að teljast fullkomlega eðlilegt að sá sem kaupir vændi skuli gerður refsiverður því að vændi er í sjálfu sér refsivert. Í dag höfum við lög sem banna vændi.

Umfang klámiðnaðarins er orðið verulegt áhyggjuefni yfirvalda um allan heim. Því hafa mörg félagasamtök, bæði hér heima og erlendis, lýst því yfir að vændi sé ofbeldi og mannréttindabrot.

Í 6. gr. kvennasamnings Sameinuðu þjóðanna sem tók gildi árið 1981 segir, með leyfi forseta:

,,Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstefanir, þar á meðal með lagasetningu, til að hamla gegn hvers konar verslun með konur og gróðastarfsemi tengdri vændi kvenna.``

Ísland er aðili að þessum samningi og hefur undirritað hann.

Það á aldrei að samþykkja að lifandi fólk gangi kaupum og sölum. Þetta frv. felur því í sér grundvallarbreytingu á siðferðislegu viðhorfi þjóðarinnar til vændis.

Formaður þingflokks Frjálsl., Guðjón Arnar Kristjánsson, hefur stutt þetta frv. frá því að það kom fyrst fram á þingi. Í frv. felst grundvallarbreyting á siðferðislegu viðhorfi til vændis þar sem litið er svo á að vændi sé kynbundið ofbeldi gegn konum. Vændi brýtur gegn lögbundnum mannréttindum og vinnur gegn jafnrétti kynjanna. Frjálslyndi flokkurinn lítur svo á að ekki sé hægt að líta á vændi sem starfsgrein og vill sporna gegn því að fólk gangi kaupum og sölum í nafni vændis. Því telur flokkurinn mikilvægt að auknum fjármunum verði varið til þess að hjálpa fórnarlömbum vændis til að byggja upp líf sitt að nýju.