Vernd trúnaðarsambands fjölmiðla og heimildarmanna þeirra o.fl.

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 16:48:46 (981)

2003-10-30 16:48:46# 130. lþ. 18.6 fundur 41. mál: #A vernd trúnaðarsambands fjölmiðla og heimildarmanna þeirra o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., 42. mál: #A bótaréttur höfunda og heimildarmanna# frv., EKH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[16:48]

Einar Karl Haraldsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur fyrir vandaðan undirbúning að þessu máli og öðrum flutningsmönnum. Í raun má segja að þetta væri næstum því kvennafrv. eins og það frv. sem var til umræðu áðan ef ekki kæmi til þess að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefði léð því sinn þunga aftast á blaðinu.

Mér rennur að sjálfsögðu blóðið til skyldunnar sem gömlum blaðamanni að fjalla um þetta mál. Þó er það svo eins og frummælandi nefndi áðan að þetta trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna er ekki síst mikilvægt fyrir almenning og til þess að vernda heimildarmenn fyrir óþægindum. Ég þykist vita það að hv. þingmenn muna eftir þeim ágætu heiðurskonum Cynthiu Cooper, Coleen Rowley og Sherron Watkins sem voru kjörnar menn ársins 2002 í vikuritinu Times. Þessar konur komu upp um mikið hneykslismál. Cynthia Cooper upplýsti það að fyrirtækið WorldCom hefði falið 3,8 milljarða dollara tap fyrir hluthöfum og almenningi, Sherron Watkins ljóstraði upp um bókhaldssvindl risafyrirtækisins Enron og Coleen Rowley upplýsti um vanrækslu alríkislögreglunnar um að rannsaka mál Zacariasar Moussaouis sem hefði hugsanlega, ef það hefði verið rannsakað, leitt til þess að hægt hefði verið að koma í veg fyrir árásina á tvíburaturnana 11. september eins og frægt er orðið.

Það sem er einkennandi fyrir þessar konur er að þær voru og eru allar samviskusamar og fyrirvinnur heimila sinna. Þær mátu störf sín mikils og höfðu til að bera sterka siðferðiskennd. Þær settu starfsferil sinn að veði til að koma á framfæri upplýsingum um vanrækslu, svindl og svínarí, upplýsingum sem sannarlega verða að teljast í almannaþágu, enda aldar upp í anda hinnar gömlu siðferðisreglu: Gjör rétt og þol ei órétt. Í kjölfar þessara upplýsinga neyddust stórfyrirtæki í Bandaríkjunum til þess að breyta og bæta reglur um endurskoðun og upplýsingagjöf til hluthafa og starfsemi bandarísku leyniþjónustunnar hefur sætt harðri gagnrýni og endurskoðun. Það er athyglisvert í þessu dæmi að þær sóttust ekki eftir sviðsljósinu og tóku málin fyrst upp innan húss en röð tilviljana leiddi þær síðan í frægðarljómann.

Uppljóstrarar kosta miklu til. Þeir sem hafa rannsakað þessi mál á alþjóðavettvangi segja að flestir þeirra sem telja það skyldu sína við þjóðfélagið að upplýsa fjölmiðla um misferli í fyrirtækjum eða opinberum stofnunum segja eftir á að þeir mundu ekki vilja ganga í gegnum það aftur. Ef þeir eru ekki reknir eru þeir oft og tíðum settir út í horn, einangraðir eða settir í einskis nýt verkefni. Í eftirleiknum hneigjast margir til þunglyndis og alkóhólisma að því er kemur fram í alþjóðlegum rannsóknum en þessi mál hafa verið mjög víða til umræðu, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.

Við höfum í fersku minni tvo uppljóstrara á íslenskum vettvangi, BYKO-manninn og litla Landssímamanninn. Forustumenn BYKO urðu í upphafi tvísaga þegar mál Árna Johnsens var til umræðu í fjölmiðlum og gerðu tilraunir til að þvinga fram upplýsingar um hver hefði lekið upplýsingum innan úr fyrirtækinu til fjölmiðla. Síðan sáu þeir að sér og gerðu að lokum vel við BYKO-manninn. Blaðamenn sem skrifuðu um þessi mál segja að eftir þau blaðaskrif sem urðu í kjölfar upplýsinga BYKO-mannsins hafi afstaða forustumanna stofnana og fyrirtækja breyst og margir hafi í kjölfarið kosið að gera hreint fyrir sínum dyrum strax og fjölmiðlar grennsluðust fyrir um einhver álitamál á þeirra vettvangi.

En skjótt skipast veður í lofti og þegar litli Landssímamaðurinn kom fram lagði allt silkihúfulið Sjálfstæðisflokksins kringum einkavæðingatilraunir Landssímans kapp á að upplýsa hverjir innan fyrirtækisins hefðu veitt fjölmiðlum upplýsingar. Allt var sem sagt reynt til að finna heimildarmanninn og hegna honum. Halldór Örn Egilsson gekk þá fram fyrir skjöldu og tók á sig alla ábyrgð. Hann var rekinn úr starfi. En annar maður innan Landssímans sem hafði leitað eftir upplýsingum slapp með áminningu. Mér er kunnugt um að Halldór Örn átti erfitt uppdráttar á vinnumarkaði eftir þetta.

Landssímamálið hafði þveröfug áhrif miðað við Árna Johnsen málið og blaðamenn úr hópi þeirra fáu rannsóknarblaðamanna sem virkir eru á Íslandi, tjá mér að talsvert beri á ótta við hefndaraðgerðir og innanhússofsóknir hjá hugsanlegum heimildarmönnum þar sem þeir leita hófana um upplýsingar í dag. En mér er einnig kunnugt um að það voru í rauninni fleiri heimildarmenn en BYKO-maðurinn og litli Landssímamaðurinn sem veittu fjölmiðlum upplýsingar í þessum málum tveimur sem ekki er ástæða til að rekja efnislega hér í dag. Allt í allt munu það hafa verið um átta starfsmenn sem komu upplýsingum á framfæri og sýnir það sem betur fer að það er alltaf til fólk sem hefur kjark til þess að koma upplýsingum á framfæri þegar valdsmenn og stjórnendur eru að misfara með trúnaðarfjármuni almennings eða hluthafa jafnvel þótt menn taki með því mikla áhættu með sína persónulegu velferð. Ég lít þannig á að þetta frv. sem hér er á ferðinni sé fyrst og fremst til þess að vernda hagsmuni, trúnað og nafnleynd þeirra fimm starfsmanna sem enn þá hafa ekki komið fram í dagsljósið í sambandi við upplýsingar um þessi tvö mál sem um ræðir.

Eins og ég sagði áðan þá er mikilvægt að tryggja möguleika fjölmiðla og fréttastofa til þess að ná upplýsingum og afla frétta um þau efni sem varða hagsmuni almennings. Reglur um heimildarvernd eru eitt veigamesta skilyrðið fyrir fullnægjandi starfsrækslu fjölmiðla. Engu að síður þarf fyrst og fremst að verja heimildarmennina. Fjölmiðlarnir hafa sínar ábyrgðareglur, siðareglur, útvarpslög og prentlög að starfa eftir og auðvitað er það þannig að hver ærlegur blaðamaður fer frekar í fangelsi heldur en að uppljóstra um sína heimildarmenn í alvarlegum málum. Þannig að við erum fyrst og fremst að tryggja það að almenningur fái upplýsingar um það ef um misferli, vanrækslu eða stórkostleg svik er að ræða í fyrirtækjum eða opinberum stofnunum. Við búum í þjóðfélagi sem er tiltölulega gegnsætt og tiltölulega óspillt en engu að síður er það þannig að það koma alltaf upp hneykslismál, það koma alltaf upp mál þar sem menn eru að misfara með trúnað eða fara á skjön við reglur og lög eða siðferðisvitund manna. Þá er mikilvægt að starfsmenn séu ekki múlbundnir og haldnir þrælsótta og þurfi að kosta til þess starfi sínu og heilsu fyrir það eitt að gegna þeirri þjóðfélagslegu skyldu og siðferðislegu skyldu að veita almenningi nauðsynlegar upplýsingar.