Vernd trúnaðarsambands fjölmiðla og heimildarmanna þeirra o.fl.

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 17:07:51 (984)

2003-10-30 17:07:51# 130. lþ. 18.6 fundur 41. mál: #A vernd trúnaðarsambands fjölmiðla og heimildarmanna þeirra o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., 42. mál: #A bótaréttur höfunda og heimildarmanna# frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[17:07]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Þetta er eiginlega að verða nokkuð undarlegur þingdagur því að ekki eiga sér oft stað umræður í hverju málinu á fætur öðru þar sem stjórn og stjórnarandstaða skiptast á skoðunum án mikilla upphrópana og mikils andstreymis hvor við aðra. En það er einmitt eðli lýðræðisins að umræðan fari fram. Ég hygg að ég og hv. frummælandi þessa máls, hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, séum sammála um þetta.

Hvað varðar ábyrgðina og frelsið þá eru tengslin þar á milli eiginlega órjúfanleg. Ég tek mjög undir það að mjög mikilvægt er að hafa fyrirbrigði eins og siðanefnd blaðamannafélags.

Ég hef hins vegar ekki mikla trú á því að með lagasetningu sé hægt að þvinga fram siðferði. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir hvern vinnustað, ekki bara hver samtök eins og Blaðamannafélagið, að hafa sína siðanefnd. Það þarf líka að gilda fyrir hvern vinnustað. Einstakir fjölmiðlar þurfa að hafa sínar siðareglur þannig að starfsmenn þeirra séu stöðugt minntir á þá ábyrgð sem þeir bera og ekki síst af því að, eins og hv. þm. nefndi, misjafn sauður er í mörgu fé og það á við blaðamenn eins og aðra. Það á meira að segja jafnvel örugglega við um þingmenn líka. En hvernig á að bregðast við þegar einhver á vinnustað eins og fjölmiðli misnotar þetta mikla vald? Hvernig ætlar vinnustaðurinn sjálfur að taka á málunum þegar þetta vald, fjölmiðlavaldið, er misnotað? Það er mjög mikilvægt að einstakir fjölmiðlar móti sér slíkar siðareglur til þess að bregðast við þannig að þeir axli ábyrgðina eins og þeir vilja örugglega flestir gera.