Vernd trúnaðarsambands fjölmiðla og heimildarmanna þeirra o.fl.

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 17:15:06 (986)

2003-10-30 17:15:06# 130. lþ. 18.6 fundur 41. mál: #A vernd trúnaðarsambands fjölmiðla og heimildarmanna þeirra o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., 42. mál: #A bótaréttur höfunda og heimildarmanna# frv., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[17:15]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns rifja upp að í gær í þessum virðulega ræðustól var ég ítrekað áminntur af virðulegum forseta, reyndar ekki þeim sem nú situr heldur hv. þm. Halldóri Blöndal, fyrir það að vera ekki í andsvari eða vera ekki að hreyfa andsvörum þegar ég í raun var hér í andsvari. Nú var hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir í ræðustól áðan í andsvörum við Hjálmar Árnason og ég gat ekki heyrt að það væri neitt andsvar heldur var hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir aðallega að þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir hversu vel hann tæki undir þau frv. sem hér eru til umfjöllunar sem varða það sem við getum kallað fjölmiðlarétt. Ég vildi aðeins benda á þetta. Ég er ekki að þessu til að sýna neinum óvirðingu, síður en svo, og ég er heldur ekki að þessu til að sýna neitt vanþakklæti í garð hæstv. þingforseta Halldórs Blöndals. Ég virði það mikils við hann að hann sé að reyna að gera úr mér, nýliðanum á Alþingi, bæði forhertan og góðan stjórnarandstöðuþingmann sem virkilega notfærir sér andsvör ...

(Forseti (BÁ): Vegna ummæla þingmannsins vill forseti taka fram að það hlýtur alltaf að vera mat hverju sinni hvort um andsvör er að ræða. Þingmenn og forseta kann að greina á um þetta mat, en úrskurður forseta gildir.)

Ég dreg það ekki í efa, virðulegur forseti, að hann gerir það.

En við skulum snúa okkur að því sem máli skiptir. Hér eru til umræðu tvö ágætisfrumvörp sem ég tel að séu góðra gjalda verð og varða mikilvæga hluti, þ.e. réttindi og skyldur bæði fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra og vernd heimildarmanna þegar um er að ræða mikilvæg mál. Ég hnýt í greinargerð með öðru frv. um setningu sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu sem varða brot á tjáningarfrelsi hefur verið staðfest að hlutverk fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi felst ekki eingöngu í því að veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald með gagnrýnni umræðu heldur ekki síður í að tryggja almenningi upplýsingar um hvers konar mál er varða almannahagsmuni.``

Ég er eins og hv. þm. Einar Karl Haraldsson gamall fjölmiðlamaður. Ég tel því að þetta mál sé mér að vissu leyti svolítið skylt. Ég hef nefnilega lent í því, við getum kallað það átök, varðandi fréttaflutning þar sem einmitt þessir hlutir hafa komið upp, þ.e. verndun heimildarmanna, tjón sem heimildarmenn hafa orðið fyrir, skyldur fjölmiðla til að upplýsa almenning um hluti sem betur mættu fara í þjóðfélagi okkar og varða stórkostlega almannaheill. Því miður er reynsla mín og heimildarmanna minna ekki góð. Þetta eru atburðir sem hafa gerst nýlega og þess vegna fagna ég mjög þessu frv. því að ég tel að það sé mjög mikilvægt.

Mig langar til að nota tíma minn aðeins til að fara yfir þá sögu því að ég held að hún sé á margan hátt mjög merkileg. Hv. þm. Einar Karl Haraldsson fór áðan yfir svokallað BYKO-mál og mál litla Landssímamannsins svokallaða, ég ætla ekki að eyða tímanum í það. Ég ætla frekar að segja sögu mína.

Þetta hófst allt með því að árið 2000 kom enn á ný upp kvittur um brottkast á fiski á Íslandsmiðum. Það sem kannski gerði greinarmuninn í þetta skipti var að Fiskistofa aflaði gagna sem sýndu fram á að ástæða væri til að gruna að menn væru að henda þorski og öðrum bolfiski í stórum stíl. Á sama tíma kom það upp að Hafrannsóknastofnun óð í villu og svima við mat sitt á stærð þorkstofnsins sérstaklega og hafði að eigin sögn ofmetið hann mjög harkalega sem leiddi til þess að skera varð niður fiskveiðikvóta allverulega.

Ég taldi þetta brottkastsmál mjög mikilvægt, bæði brottkastið og málefni varðandi skráningu afla og fór á stúfana sem fréttamaður til að rannsaka þetta frekar. Ég talaði við fjölda sjómanna sem allir komu fram undir nafnleynd, ég notaði þá aldrei sem vitni, ég hafði aldrei neitt eftir þeim, sagði alltaf við menn: Ef þið ætlið að segja frá þessu, þá verðið þið að gera svo vel að koma fram undir nafni, vegna þess að þetta voru alvarlegar ásakanir. En hvað um það. Ég fékk staðfestan grun um að hér væri pottur brotinn, gerði frétt um þetta og lenti strax í því að skrifuð voru mikil og merkileg klögubréf frá Landssambandi ísl. útvegsmanna til yfirmanna Ríkisútvarpsins þar sem þess var krafist að ég yrði tekinn úr umferð, helst rekinn. Ég lét mér ekki segjast og hélt áfram og árið 2001 komst ég í samband við skipstjóra sem voru reiðubúnir til að leyfa að myndað yrði brottkast um borð í skipum þeirra. Við fórum og tókum myndir og voru þær sýndar í sjónvarpinu. Þær vöktu gríðarlega athygli og mikið umtal, m.a. hér í sölum hins háa Alþingis. Þetta var í árslok árið 2001.

Rétt fyrir jólin árið 2001 voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem gerðu það að verkum að sjómönnum var leyfilegt að koma með meðafla botnfisks sem ekki reiknaðist þá til kvóta, allt að 5% af afla á hverjum tíma. Greinilega kom fram í umræðum á Alþingi að sú regla var sett á einmitt til þess að menn væru ekki að henda fiski, að menn kæmu með allan afla í land. Þetta kom greinilega fram og sú lagabreyting var sett á í þeirri trú að hún ætti að virka þannig.

Í dag fékk ég svar við fyrirspurn minni frá hæstv. sjútvrh. um það hversu mikill afli hefði borist frá því að sú reglugerð eða lagabreyting tók gildi frá 1. febrúar árið 2002. Í ljós kemur að á þeim mánuðum sem liðnir eru hefur borist að landi afli að verðmæti 300 millj. ísl. kr. Þar af er þorskur 230 millj., tæplega 2 þúsund tonn af þorski sem hafa komið á land.

Ég er alveg sannfærður um að þessar myndir gerðu það að verkum að Alþingi samþykkti að setja slíka reglu á og það eru þessar myndir sem hafa þó skilað þessu verðmæti á land á ekki lengri tíma en þetta. Við skulum heldur ekki gleyma því að þetta hefur líka leitt til þess að öll gagnaöflun Hafrannsóknastofnunar, t.d. mikilvæg gögn sem eru nánast hryggsúlan í stofnstærðarmati þeirra hafa líka orðið réttari fyrir vikið þar sem við vitum nú betur hver afföll eru vegna veiða. En nóg um það. Þarna var sem sagt alveg klárlega að mati þess sem hér talar verið að fjalla um mál sem vörðuðu almannahagsmuni, svo sannarlega, vörðuðu nýtingu á mikilvægustu auðlind þjóðarinnar. Það var greinilega verið að henda fiski, miklum verðmætum þó svo menn væru mjög tregir til að viðurkenna það, bæði ýmsir stjórnmálamenn og líka ýmsir útgerðarmenn, þá var þetta því miður staðreyndin. Sannarlega mál sem varðaði almannahagsmuni.

En hvað gerðist svo? Hvað varð síðan um þá sem öfluðu þessara gagna, þ.e. fréttamanninn, myndatökumanninn og heimildarmennina, þ.e. sjómennina og útgerðarmennina um borð í umræddum bátum? Við skulum taka sjómennina fyrst. Þeir voru kallaðir til yfirheyrslu hjá lögreglu, einn á eftir öðrum. Þetta endaði allt með því að skipstjórar og útgerðarmenn bátanna voru kærðir. Annar útgerðarmaðurinn var sýknaður. Hinn útgerðarmaðurinn var dæmdur í milljón kr. sekt eða hann skyldi ella sæta langri fangelsisvist fyrir að hafa leyft okkur þessa ósvinnu, tel ég vera, að hafa tekið þessar myndir. En það var ekki nóg með að hann hefði verið dæmdur í héraðsdómi heldur voru þeir bátar sviptir veiðileyfum um leið og Fiskistofa komst að raun um hvaða bátar þetta voru. Annar báturinn, bátur þess útgerðarmanns sem síðar var dæmdur í milljón kr. sekt var sviptur veiðileyfi í fjóra mánuði. Ég er ekki lögfræðimenntaður maður, herra forseti, en mér skilst að þetta sé svokölluð stjórnsýslusekt, þ.e. ákveðnar stofnanir í þjóðfélaginu geta beitt svona ákvæðum, refsiákvæðum án þess að mál fari fyrir dómstóla og jafnvel án þess að mál séu rannsökuð almennilega. Í þessu tilfelli hafði málið alls ekki verið rannsakað á neinn hátt, menn höfðu bara fundið út hvaða bátur þetta var og einn, tveir og þrír, hann var sviptur veiðileyfi í fjóra mánuði yfir hábjargræðistímann frá janúar og fram undir páska. Þetta olli útgerðinni gríðarlegu fjárhagstjóni, náttúrlega skipstjóranum líka og áhöfn. En síðan er skipstjórinn aftur dæmdur í annað sinn fyrir sama brot og þá fyrir héraðsdómi og þá er milljón kr. sekt. Ég hef kallað þetta mannréttindabrot og ég tel mig alveg geta rökstutt það.

Í sumar sat ég sem fulltrúi Frjálsl. á fundi í allshn. og þar var meðal annarra mætra manna mættur fyrir nefndina Bogi Nilsson ríkissaksóknari. Var fjallað um hið meinta verðsamráð olíufélaganna og gerði Bogi Nilsson nefndinni grein fyrir því að það gæti verið svolítið snúið að senda það til ríkislögreglustjóra, sérstaklega í ljósi þess ef Samkeppnisstofnun væri búin að dæma olíufélögin til greiðslu sekta, þá væri ekki hægt að dæma olíufélögin í annað sinn, þ.e. fyrir dómstól, vegna þess að ekki væri hægt að dæma tvisvar sinnum fyrir sama brot. Hann sagði að þessi lög eða aðferð, þ.e. beiting hinna svokölluðu stjórnsýslusekta, ef ég fer rétt mað það orð, væri svo nýtilkomið hér á landi að á það hefði aldrei reynt en benti máli sínu til stuðnings á hæstaréttardóma sem hefðu fallið í Noregi. En hér er þessi útgerðarmaður sem ekki hefur jafnmikið bolmagn kannski og olíufélögin til að bera hönd fyrir höfuð sér dæmdur tvisvar sinnum fyrir sama brot fyrir þá ósvinnu að hafa leyft okkur að filma það sem allir vissu að væri að gerast í flotanum, þ.e. brottkast á fiskiafla. Og sá maður hefur orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni og hans fólk. Ég ætla ekki að rekja þá sögu lengra.

Fréttamaðurinn, sá sem hér stendur, var ásakaður um svik og falsanir og hafa ætlað að blekkja þjóðina, þetta hefði allt saman verið sett á svið. Þetta fékk hann m.a. að heyra frá hæstv. sjútvrh. í fjölmiðlum og frá öðrum þrátt fyrir að færðar væru ótal góðar röksemdir einmitt fyrir því að þetta hefði alls ekki verið sett á svið. Það sem síðar gerist er náttúrlega það, og flestir sem hlýða á mitt mál muna eflaust eftir því, að dómur féll í Hæstarétti hér á dögunum þar sem ráðherra var sýknaður fyrir þau ummæli þannig að þau virðast standa. Yfirvaldið í landinu, í þessu tilfelli ráðherra í ríkisstjórn Íslands getur sem sagt sakað fjölmiðlamann um að beita óheilindum. Hann getur tengt það mál frægum fölsunum erlendis sem varða eiturlyfjamál, mjög frægt mál í Bandaríkjunum sem er notað í kennslu í fjölmiðlun þar í landi í dag. Hann gat tengt það við hið svokallaða brottkastsmál með ummælum sínum og stimplað þann sem hér stendur sem svikara og falsara. Þetta voru afleiðingarnar fyrir fréttamanninn.

Síðan er það myndatökumaðurinn. Lögregluyfirvöld hafa ítrekað reynt að fá hann til að láta af hendi allar þær upptökur sem við tókum um borð í umræddum skipum. Hann hefur neitað að gera það og vísar einmitt til þess að hann vilji vernda heimildarmenn sína sem leyfðu honum að taka myndirnar. Einu myndirnar sem hafa borið fyrir augu almennings er myndskeið upp á kannski tvær mínútur þó að til séu miklu lengri myndskeið sem sýna menn að störfum um borð í skipunum, veiðarnar sjálfar og síðan vinnubrögðin við brottkast. Þessar myndir verða ekkert sýndar, það kemur ekki til greina. Fyrir það færi myndatökumaðurinn í fangelsi býst ég við. En mér er kunnugt um að lögregluyfirvöld íhugi nú að draga þennan myndatökumann fyrir dóm fyrir að hylma yfir í alvarlegum glæp.

Þetta er nú allt öryggið sem fjölmiðlamenn í rauninni búa við á Íslandi ef þeir eru svo ósvífnir að draga á land myndir eða hvað sem er, gögn sem sýna eitthvað sem yfirvöldum er ekki að skapi. Þá er nefnilega hægt að ganga ansi langt í því að refsa bæði fréttamönnum og heimildarmönnum fyrir að hafa voga sér, herra forseti, að upplýsa þjóðina um málefni sem svo sannarlega varða almannaheill og í þessu tilfelli aflaverðmæti upp á fleiri hundruð milljónir ísl. kr. Við getum margfaldað það með þremur sem er yfirleitt þumalputtareglan til að reikna útflutningsverðmæti og þá erum við komin upp í tæpan milljarð frá 1. febrúar árið 2002.

Ég ætla svo sannarlega að vona að frv. nái fram að ganga og ég ætla líka sannarlega að vona að frv. komi af stað umræðu í þjóðfélaginu. Umræða þarf að fara fram um þetta og ég sakna þess að Blaðamannafélag Íslands skuli ekki taka þetta mál til miklu ítarlegri umræðu en verið hefur. Ég sakna þess að sjá ekki félaga í Blaðamannafélagi Íslands sitja hér á þingpöllum þegar þetta mál er flutt til að fylgjast með því. Hér var fyrr í dag hópur af konum til að fylgjast með frv. sem lagt var fram, ágætu frv. varðandi það hvort beita skuli refsingu í vændismálum. En fjölmiðlamenn Íslands eru því miður fjarri, það er miður en ég vona að þeir heyri orð mín og taki þessari áskorun og fari aðeins að hugsa sinn gang og velti frv. vel fyrir sér og ræði innihald þess og reyni að hafa þau áhrif að það verði jafnvel enn betra en hér er lagt til.

Það er skoðun mín, herra forseti, að íslenskir fjölmiðlar eru oft og tíðum allt of veikir og standa sig alls ekki í stykkinu með að veita aðhald, bæði valdhöfum og hagsmunaaðilum í þjóðfélaginu, að veita þeim almennilegt aðhald og líka stjórnvöldum og stjórnmálamönnum, okkur sem hér sitjum m.a. Þetta er hlutverk fjölmiðla og þeir eiga að vera óhræddir við að beita slíku aðhaldi. Auðvitað fylgir því mikil ábyrgð. En þetta er nú einu sinni hlutverk fjölmiðla að mínu mati og ég vildi svo gjarnan sjá að á Íslandi væri stundað meira það sem kallað er rannsóknarblaðamennska, hér væru fjölmiðlar virkilega á fullu í því að kanna málin til fulls. Því miður er allt of mikið um það á Íslandi að fjölmiðlar taki gagnrýnislaust við fréttatilkynningum og birti þær nánast orðréttar í blöðum sínum eða fjölmiðlum og jafnvel heilu fréttirnar les maður stundum og sér sem eru samdar á skrifstofum fyrirtækja, á skrifstofum hagsmunaaðila. Þetta kemur nánast orðrétt frá þeim. Maður les ákveðnar fréttir, ég ætla ekki að nefna neina fjölmiðla á nafn í þessu sambandi, það skiptir svo sem engu máli, en maður hefur stundum upplifað það að lesa orðrétt fréttir í fjölmiðlum sem líta út fyrir að vera skrifaðar af blaðamanni tiltekins fjölmiðlis og finna síðan sömu fréttir á heimasíðum fyrirtækjanna. Þá eru þær sennilega skrifaðar af forstjóra fyrirtækisins eða einhverjum honum nátengdum. Einn ágætur maður hefur kallað þetta kramablaðamennsku. Þetta er því miður allt of algengt á Íslandi og íslenskir blaðamenn mættu virkilega standa sig betur í stykkinu með að stunda gagnrýna blaðamennsku og bera sig virkilega eftir því að finna fréttnæma hluti. Ég tel t.d. að full ástæða sé til að setja spurningarmerki við það hvort upplýsingalögin svokölluðu fái að virka til fullnustu eins og þau voru sett upp á sínum tíma. En það er umræða sem verður að bíða seinni tíma.