Aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 17:52:24 (989)

2003-10-30 17:52:24# 130. lþ. 18.10 fundur 45. mál: #A aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum# þál., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[17:52]

Sigurjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Við í Frjálsl. getum tekið undir þessa þáltill. og ég hef lengi furðað mig á aðgerðaleysi kvótaflokkanna, Sjálfstfl. og Framsfl., í byggðamálum. Því miður höfum við dæmi víða um land um að sjávarbyggðir og hinar dreifðu byggðir standi illa. Bæði hafa verið uppi umræður um þorpið á Bíldudal og svo Raufarhöfn. Ég hef ekki heyrt af neinum sérstökum aðgerðum af hálfu stjórnvalda til að rétta þessum byggðum hjálparhönd. Ef svo er fyndist mér að einhver stjórnarliði ætti að koma hingað í ræðustól og greina okkur frá þeim. En fólkið í sjávarbyggðunum þarf ekki fleiri skýrslur eða markvissa fundi. Það þarf einhverjar aðgerðir, raunverulegar aðgerðir. Og þá þarf hæstv. ráðherra byggðamála að horfast í augu við raunverulegan vanda sjávarbyggðanna.

Því miður er sú ekki raunin. Það kom fram í umræðum á þingi um daginn að það væri eins og hæstv. byggðamálaráðherra væri í afneitun, þ.e. neitaði að horfast í augu við raunverulegan vanda byggðanna og neitaði að horfast í augu við það að kvótakerfið hefur leikið byggðirnar grátt. Þar valdi hæstv. ráðherra að vitna í þriggja ára gamla skýrslu máli sínu til stuðnings þótt augljóst ætti að vera öllum sem velta þessum málum fyrir sér að kvótakerfið hefur farið illa með byggðir víða um land. Ég sakna þess að sjá ekki hæstv. ráðherra í salnum og það er raunar enginn hv. þm. stjórnarflokkanna í salnum ef frá er talinn virðulegur forseti. Sýnir þetta í rauninni áhuga þessara kvótaflokka á byggðamálum? Er þetta lýsandi dæmi um það? Ætla þau ekkert að taka þátt í þessari umræðu? Eru þau alveg stikkfrí?

Satt að segja átti ég ekki von á því að þau tækju mikinn þátt í umræðu um byggðamál því að þetta er mál sem þeim þykja erfið og þau vilja flýja. Þau vitna gjarnan í þetta álver fyrir austan en síðan á allt annað að gleymast, byggðirnar á Vestfjörðum, byggðirnar á Norðausturlandi. Ég spyr: Er þessum flokkum nákvæmlega sama hvernig fer um þessar byggðir?

Það er alveg rétt sem kemur fram í þáltill. sem við höfum hér til umfjöllunar, sjávarbyggðirnar þurfa fyrst og fremst að fá atvinnufrelsi á ný og fá að nýta nálæg fiskimið. Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. ber mesta ábyrgð á ástandinu eins og staðan er nú og því að hafa gert atvinnurétt þessara byggða að söluvöru. Ríkisstjórninni ber að bæta fyrir það tjón sem ástandið hefur valdið þessum íbúum og sem hefur valdið mörgu fólki búsifjum. Bæði hefur það lækkað verðið á eignum þeirra og síðan komið í veg fyrir að fólkið hafi getað sótt vinnu. Ég er sannfærður um að sjávarbyggðir, svo sem á Bakkafirði, Grímsey, Þingeyri og Bíldudal, séu þjóðhagslega hagkvæmar. Það er mjög hagkvæmt að sækja á nálæg fiskimið og hætt er við að staðbundnir stofnar verði vannýttir nema fólk búi á þessum stöðum.

Á síðustu 10 árum hefur fólki fækkað gífurlega á landsbyggðinni. Á Norðurlandi vestra hefur fólki fækkað um 1.100, þ.e. um 10%, á Vestfjörðum um 18%, 1.700 manns. Á Vesturlandi hefur líka fækkað ef litið er fram hjá þeirri fjölgun sem hefur átt sér stað á Akranesi. Í kjördæmi hæstv. byggðamálaráðherra hefur einnig orðið fækkun ef litið er fram hjá þeirri fjölgun sem hefur orðið á Akureyri, eða um heilt þúsund sem hefur fækkað í kjördæminu. Þá á ég við Norðausturland. Þessar tölur tala sínu máli og það er kominn tími til þess að hæstv. byggðamálaráðherra fari að opna augun og grípi til raunverulegra aðgerða, viðurkenni vandann og orsök hans.

Virðulegi forseti. Við í Frjálsl. höfum lagt fram fjölmargar tillögur til þess að laga stöðu landsbyggðarinnar og oftar en ekki hafa fáir og stundum engir hv. þm. stjórnarinnar tekið þátt í þeim umræðum. Þær hafa verið fjölmargar, allt frá því að leyfa fólki að draga bein úr sjó, gefa því tækifæri til að draga ferðakostnað frá skattstofni og til þess að fara yfir það hvort hægt sé að lækka raforkuverð til fyrirtækja á landsbyggðinni sem er 30% hærra en raforkuverð fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. En aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa verið í þveröfuga átt. Ríkisstjórnin hefur staðið fyrir hækkun á þungaskatti sem hefur hækkað vöruverð á landsbyggðinni og skert samkeppnisstöðu framleiðslufyrirtækja þar. Síðan hefur ríkisstjórnin svikið kosningaloforð sem átti að koma hinum dreifðu byggðum sérstaklega til góða og þá á ég við línuívilnunina en hún átti að koma til framkvæmda strax í haust. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson lofaði þessu hátíðlega á fundi á Ísafirði. Hæstv. samgrh. Sturla Böðvarsson lofaði þessu í grein og hv. þm. Halldór Blöndal, þingforsetinn, lofaði því í blaðagrein í Morgunblaðinu en nú virðist sem allir þessir menn vilji að sem allra minnst sé minnst á línu\-ívilnunina sem átti að koma þessum byggðum sérstaklega vel.

Í fjárlagafrv. sjáum við síðan að það eru skert fjárframlög til framhaldsskóla á landsbyggðinni. Síðast en ekki síst er algjör óstjórn í landbúnaðarmálum. Ríkisstjórnin stendur hér fyrir ríkishagræðingu, engir útreikningar fylgja því hvort þessi hagræðing skili nokkrum ávinningi. Það er verið að flytja allt sláturfé í útflutningshús og það gefur augaleið að sláturkostnaður er mun hærri í þessum útflutningshúsum en í þeim húsum sem verið er að leggja af. Sá sem ber ábyrgð á þessari byggðaröskun er ríkisstjórnin og hún verður að fara að taka sig saman og horfast í augu við ástandið: Ætla mennirnir að gera eitthvað eða ætla mennirnir bara að horfa á?