Aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 18:08:54 (991)

2003-10-30 18:08:54# 130. lþ. 18.10 fundur 45. mál: #A aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[18:08]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þessa þáltill. um aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum. Ég get í sjálfu sér stutt það að menn fari í slíka vinnu sem hér er lýst eina ferðina enn, en ég verð þó að segja það að mér finnst að hv. þm. sem hér hafa talað séu nú fullóraunsæir í málflutningi miðað við þá stöðu sem uppi er, vegna þess að ákvörðunartaka um stóriðju, bara það eitt, í umræðu um hana, kom í raun fram stór hluti af því sem er að gerast og hv. þm. lýsa áhyggjum yfir núna. Mikið innstreymi fjár og stórar framkvæmdir. Það var vitað fyrir fram að það mundi halda uppi gengi og bara það eitt að ætla að fara t.d. í Hvalfjarðaruppbygginguna líka, er samkvæmt bestu manna yfirsýn talið að muni styrkja gengið enn frekar, líklega um 3%. Menn verða að átta sig á því að ein ákvörðunartaka leiðir e.t.v. til blóðtöku á öðrum stöðum.

Hver er svo afleiðingin? Gengið hefur haldist mjög hátt alveg frá því að menn eygðu að möguleiki væri á þessum stóru framkvæmdum fyrir austan. Þannig að hér höfum við um margra mánaða skeið verið með gengi sem er óraunverulega hátt, byggt á væntingum áður er raunverulegar framkvæmdir hófust, því að þær eru rétt um það bil að fara í ganga núna. Við höfum allan tímann vitað að þetta mundi taka langan tíma. Nú erum við að horfa á afleiðingarnar og ég tala um raunsæi. Við vitum hvaða kerfi við búum við í sjávarútveginum. Við vitum að staðan í sjávarútveginum er þannig núna að þar er varla borð fyrir báru. Við vitum hvað menn gera þá miðað við þá stöðu sem uppi er, menn hagræða enn frekar. Þar eru möguleikar um frekari samruna fyrirtækja. Og hvað eru menn að gera? Þeir eru akkúrat að sameina.

Það er ekkert sem kemur á óvart í því ferli sem hér er verið að lýsa í þessum stóru málum. Það eru margir sem eru svo svartsýnir og tala um að þetta uppsveifluferli vegna þessara stóru ákvarðana verði svo erfitt sjávarútvegnum að hagræðingin stöðvist ekki bara við Akureyri heldur verði hagræðingin þess eðlis að við munum horfa fram á útgerð að langmestu leyti bara á einum stað á landinu.

Þessi umræða fór öll fram þegar við ræddum uppbyggingaráform í stórum skala í stóriðju. Og við erum að sjá byrjunina á þessu núna, hraðari og þyngri með hverju missirinu sem líður. Hvað er til ráðs? Ekki er það bara sjávarútvegurinn, vegna þess að við vitum nákvæmlega hvað átti sér stað og á sér stað í landbúnaðinum. Hv. þm. hafa lýst þeim ömurleika sem þar blasir við. Þar er hagræðingarferli í gangi og menn tala um þrjú stór sláturhús þar sem e.t.v. ætti að fara þveröfuga leið og hafa minni og færri sláturhús og nærri uppruna. Ég er auðvitað hlynntur því að menn geri úttekt á þessu og það er alveg nauðsynlegt að fara ofan í það.

Það var líka öllum ljóst fyrir mörgum missirum að uppbygging í svína- og kjúklingaframleiðslu væri algjörlega á óraunhæfum nótum. Enda er hverjum manni ljóst að það eru bankarnir sem halda fyrirtækjunum gangandi og fyrirtækjum sem eru í samkeppni við hefðbundinn landbúnað --- og þá ekki síst sauðfjárframleiðsluna --- svo hundruðum millj. kr. skiptir. Ekkert er afskrifað. Þetta vitum við öll. Þessu höfum við öll gert okkur grein fyrir en það hefur ekki verið vilji til að taka á því. Bankarnir sullast áfram með þessi fyrirtæki og hefðbundnu greinunum blæðir. Þetta er ískaldur raunveruleiki sem við stöndum frammi fyrir.

Gengismálin, sem afleiðing af þessari gríðarlegu innspýtingu, hafa auðvitað stór áhrif og eru farin að hafa það. Mér finnst ekki sanngjarnt að þeir sem styðja það að fara í stóriðju eða uppbyggingaráform, í þeim skala sem hér um ræðir, geri sér ekki grein fyrir afleiðingunum. Það kaupi ég bara ekki vegna þess að öll þessi umræða fór fram hér svo klukkutímum skipti. Það var talað um ruðningsáhrif, það var talað um að það þyrfti að kortleggja hvernig þetta mundi eiga sér stað, meira að segja var lögð fram þáltill. um að það ætti að senda menn út af örkinni til þess að skoða hvernig ruðningurinn færi fram. Þetta var allt vitað, menn gerðu sér grein fyrir þessu öllu.

En það má enn eina ferðina skoða og velta fyrir sér tillögum. Og það er auðvitað, eins og fram kom hjá sumum hv. þm. sem hér hafa talað, hægt að fara í hluti af ýmsu tagi sem stöðva þessa þróun. Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir benti réttilega á að stóru póstarnir eru náttúrlega opinber þjónusta sem er þó staðsett á landsbyggðinni og við getum farið línuna. Ef við tölum um Norvesturkjördæmi alveg frá Sauðárkróki, suður um og niður á Akranes er auðvitað hægt að bæta stöðu þessara aðila, skólanna, sjúkrahúsanna og annarrar opinberrar þjónustu á svæðinu. Það mun ekki leiða til þenslu. Það mun minnka flutning af svæðunum og inn á höfuðborgarsvæðið því að þessi þjónusta er byggð upp og þarf miklu meira fé hér vegna þess að hún er svelt úti á landi sem leiðir síðan til fólksflutninga suður. Þetta er vinna sem er tiltölulega auðvelt að fara í en menn hafa ekki viljað fara í hana.

Síðan söngurinn um uppbyggingu Akureyrar. Vita menn hvað fór í það stóra dæmi? Það fóru 20 millj. kr. sem átti að nota til að skipa nefndir um hvernig ætti að fara í málið. Það er allt og sumt. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, stofnanir þar náðu ekki, frekar en á Sauðárkróki eða Akranesi eða annars staðar, að draga miðað við það sem aðrir fengu, sérstaklega höfuðborgarsvæðið. Sjúkrahúsin hér fengu massa framlög meðan að aðrir fengu hlutfallslega miklu minna. Til hvers leiðir það? Það leiðir til þess að þjónustan fer hingað, meira að segja sjúklingarnir fara hingað. Svona mál er hægt að fara í á þessu þenslutímabili á auðveldan hátt og náttúrlega vegagerðarmálin líka. En ég vil og eiginlega krefst þess að menn horfi raunsætt á þær afleiðingar sem verða af því þegar menn taka svona stórar ákvarðanir eins og uppbyggingu af því tagi sem við erum að fara í núna fyrir austan. Það var allt fyrirséð. Það átti ekki að koma nokkrum manni á óvart, virðulegi forseti.