Aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 18:22:16 (996)

2003-10-30 18:22:16# 130. lþ. 18.10 fundur 45. mál: #A aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum# þál., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[18:22]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson virðist vera dálítið bitur eftir umræðuna um stóriðjuna á síðasta kjörtímabili. Hann talar um að þetta sé óraunsæi og það hafi verið rætt um þetta allt í þeirri umræðu. Málið er að mínu viti svolítið rangfært og snúið með þessari framsetningu. Við lögðum þessa þáltill. fram sem vorum á þingi fyrir Samfylkinguna á sl. hausti. Við töldum og teljum meira að segja enn að það sé hægt að bregðast við og koma í veg fyrir sum af þeim vandamálum sem annars koma upp. Við erum ekki að tala um að láta fara fram einhverja athugun eða eitthvað slíkt. Tillögugreinin gengur út á það að Alþingi feli ríkisstjórninni að leggja fyrir Alþingi aðgerðaráætlun sem hafi það að markmiði að draga úr þessu ójafnvægi. Við bendum á hluta af þeim möguleikum sem þar væru til staðar.

Ég held að þetta sé nokkuð einfalt og ljóst. Ég verð að segja að ég harma að menn skyldu ekki taka á þessu máli strax í haust sem leið. Mér finnst eiginlega ekki að ég ætti að þurfa að þræta við hv. þingmann um þennan hluta málsins. Þó svo að menn hafi farið yfir afleiðingar þess hvað gæti gerst ef þessi stóriðja yrði að veruleika fyrir austan þá er náttúrlega líka eðlilegt að þeir geri þá kröfu að reynt sé að koma í veg fyrir afleiðingar sem mögulegt er að koma í veg fyrir eins og við teljum alveg hiklaust að hægt sé að gera.