Aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 18:24:20 (997)

2003-10-30 18:24:20# 130. lþ. 18.10 fundur 45. mál: #A aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[18:24]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara viðurkenna það fyrir hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að auðvitað er maður gramur yfir því að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki hafa brugðist við í kjölfar ákvarðanatöku um þessar framkvæmdir. Þannig eru málin bara og þetta var náttúrlega rætt í þaula. Það er búið að ræða þessi áform í fjögur ár. En hafi hv. þm. Jóhann Ársælsson hlustað vel á ræðu mína áðan þá undirstrikaði ég það einmitt að nauðsynlegt væri að fara í þá vinnu sem hv. þm. var að tala um. Ég styð það heils hugar. Ég nefndi í því dæmi rekstur á opinberum stofnunum, vegagerð o.s.frv. Auðvitað viljum við fara í þá vinnu. Ég lýsti stuðningi við tillöguna hvað það varðar en vildi undirstrika þessa forsögu sem ég tel að sé mjög mikilvæg og gera grein fyrir þeim vandræðum sem við erum í, hver blóðtakan er, hver ruðningsáhrifin eru að verða. Það held ég að sé mjög mikilvægt í þessari umræðu þannig að það er það sem ég vildi draga fram. Þáltill. sem slík er fín og ég styð hana. Ég vil fara í þessa vinnu. Ég hrósaði hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur fyrir það sem hún nefndi í sambandi við opinbera þjónustu þannig að ég tel að enginn ágreiningur sé á milli okkar þó að ég hafi viljað draga það fram að við og sérstaklega hæstv. ríkisstjórn hefðum mátt sjá þessa hluti miklu meira fyrir en ekki láta þetta gusast yfir menn eins og hverja aðra kalda sturtu.