Aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 18:26:07 (998)

2003-10-30 18:26:07# 130. lþ. 18.10 fundur 45. mál: #A aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum# þál., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[18:26]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni fyrir þessa ræðu og reyndar hina líka, en alveg sérstaklega þessa af því að mér fannst andinn í henni miklu þekkilegri. Ég verð að segja það einu sinni enn að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með að ríkisstjórnin skyldi ekki bregðast við strax síðasta haust því að þá voru möguleikarnir meiri til þess að vinna gegn þessum óheppilegum áhrifum. Ég er á þeirri skoðun að það hafi verið rétt skref að fara í þessa stóriðju fyrir austan og ég studdi það. Ég stend við það. En mér finnst hart að þurfa að horfa upp á að menn skuli ekki hafa vandað sig við framhaldið. Það hefur ekki verið gert. Ég bara vona af því að auðvitað verður maður að halda áfram að vona. Við í stjórnarandstöðunni verðum að benda á möguleikana og leiðirnar til þess að reyna að draga úr vandanum og það erum við að gera hér. Við erum að reyna að stunda jákvæða pólitík hvað þetta varðar með þessum tillögum okkar þó að sandurinn renni hratt úr stundaglasinu. Verulegt svigrúm var til staðar og svigrúm er til staðar enn þangað til mesta spennan myndast vegna framkvæmdanna sem fram undan eru og þann tíma á að nota.