Aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 18:29:21 (1000)

2003-10-30 18:29:21# 130. lþ. 18.10 fundur 45. mál: #A aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum# þál., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[18:29]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Það er rétt sem komið hefur fram í ræðum hv. þingmanna í kvöld, að það rennur ansi hratt úr stundaglasinu hjá mörgum byggðum á Íslandi, því miður. Þetta hefur margoft verið til umræðu á hinu háa Alþingi og fluttar margar ræður um þessi mál á undanförnum árum.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir, um aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum, er svo sem góðra gjalda verð. Það er mikil slagsíða á byggðamálunum og mörg vandamál við að kljást. Ég hef oft hugleitt þetta og finnst oft og tíðum mikil þversögn að slík vandamál skuli til staðar. Þegar maður kemur út á land og í viðkomandi byggðir þá finnst manni skrýtið að fólk skuli flykkjast frá þeim. Þetta eru yndislegir staðir hvort sem um er að ræða þorpin eða sveitirnar. Það er gott að vera úti á landi og það verður stöðugt betra. Samgöngur eru alltaf að batna og farartækin alltaf að batna. Bílarnir eru alltaf að verða betri. Fólk finnur minna og minna fyrir einangrun, miklu minna en fyrir örfáum árum síðan. Við getum talað um nýjungar í tölvutækni, betri dreifingu á fjölmiðlaefni, t.d. sjónvarpi. Menn hafa þar gervihnattamóttakara. Það er farið að skipta voðalega litlu máli hvar fólk býr.

Landsbyggðin býr yfir mörgum kostum sem ég held að við ættum að hafa í huga. Ég held að það sé mjög mikilvægt að reyna að hlúa að landsbyggðinni fyrir framtíðina í þessu landi, fyrir komandi kynslóðir. Þessir staðir úti á landi, bæði sveitir og sjávarþorp, eru góðir til búsetu. Það er gott fyrir börn og ungt fólk að alast upp á þessum stöðum. Þarna er ódýrt húsnæði, oft og tíðum alveg ágætis húsnæði. Fyrir ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum er alls ekki slæmur kostur að búa á þessum stöðum og ala upp börn þar, þar til þau komast til manns. Oft hefur það verið þannig að fólk er á þessum stöðum fyrstu 30--40, jafnvel 50 ár ævinnar og flyst síðan suður, í átt að höfuðborgarsvæðinu, jafnvel í takt við það þegar börnin fara að afla sér menntunar.

En hvað á að gera gegn ójafnvægi í byggðamálum? Ég tel að þetta sé ekki svo voðalega flókið, herra forseti. Ég mundi flokka vandann í þrjá þætti.

Í fyrsta lagi þarf að búa svo um hnútana að þessar byggðir fái notið náttúruauðlinda sinna, þeirra auðlinda sem þær búa að eftir því sem framast er kostur, á jafnréttisgrundvelli. Það eru þessar auðlindir sem gerðu það að verkum að byggð varð til á þessum stöðum, að fólk settist að á þessum stöðum og fór að búa þarna, að þar mynduðust þéttbýliskjarnar o.s.frv.

Í öðru lagi tel ég að stjórnvöld eigi að tryggja að góðar samgöngur séu á þessum stöðum og fjarskiptamál í lagi. Það er hlutverk stjórnvalda, að sjá til þess að vegir séu góðir, jafnvel flugsamgöngur, flutningar séu í lagi og fjarskipti í lagi, þá er ég að tala um símasamband og líka tölvutengingar sem skipta sífellt meira máli.

Í þriðja lagi er það skylda stjórnvalda að sjá til að þessir staðir njóti viðunandi opinberrar þjónustu, heilbrigðisþjónustu og menntunar. Gera þarf fólkinu á þessum stöðum kleift að sækja sér menntun, annaðhvort innan þess svæðis sem það býr á eða að svo verði búið um hnútana að fólk geti stundað fjarnám. Ég er í þessu sambandi að tala um framhaldsmenntun, framhaldsskóla eða jafnvel háskólanám.

Þetta eru þrír aðalþættirnir í þjónustunni við landmenn. Við í Frjálsl. höfum sett byggðamál mikið á oddinn. Ég hef flutt óteljandi ræður um þetta, sérstaklega í kosningabaráttunni. Tíminn leyfir að sjálfsögðu ekki að ég fari með alla þá rullu hér og nú.

Ég tel, herra forseti, nauðsynlegt að við tryggjum að byggðirnar fái aftur nýtingarréttinn og að atvinnurétturinn haldist í byggðunum. Atvinnurétturinn skiptir svo miklu máli. Hann býr til peninga á þessum stöðum, peninga sem fólk notar til þess að lifa af og fara í það að kaupa vörur og þjónustu á þessum stöðum, byggja þessa staði upp. Það skiptir mjög miklu máli.

Landbúnaðarhéruðin eiga t.d. í miklum vandræðum nú um stundir. Þar þarf virkilega að taka til hendinni. En ef við tökum sjávarþorpin meðfram ströndum landsins sem dæmi og skoðum Íslandskortið þá eru þau oft á tíðum þjónustumiðstöðvar fyrir næsta nágrenni, fyrir sveitirnar í kring. Ef sjávarbyggðirnar gefa eftir þá hrynur hitt líka. Þetta getur hrunið eins og spilaborg.

Ég vil taka fram að ég er sammála Jóhanni Ársælssyni um að það er ekki of seint að bjarga þessum stöðum. Það er enn þá hægt. Hins vegar þarf að hafa snör handtök. Því miður eru margar af þessum byggðum komnar að fótum fram en eins og ég benti á áðan er ofboðslega mikil þversögn fólgin í því. Ég tel að það ætti að vera skylda okkar stjórnmálamanna að fara vandlega yfir þessi mál.

Ég sakna þess t.d. mjög að sjá ekki stjórnarliða í salnum í kvöld. Af hverju vilja þeir ekki taka þessa umræðu við okkur? Þetta er umræða sem skiptir íslensku þjóðina miklu máli. Við verðum að vera á verði. Ég er ekki að tala um einhver stórfengleg ríkisfyrirtæki, langt í frá. Við eigum bara að búa svo um hnútana að lífvænlegt verði að búa í þessu landi, öllu landinu, alls staðar meðfram ströndinni, eins og verið hefur þar til fyrir svona 20 árum eða þar til sú ríkisstjórn sem nú situr tók við völdum.

Þetta er ekki voðalega flókið mál að laga. Ég mundi treysta mér til þess ef ég kæmist í valdastól að fara í þessi mál, taka til hendinni og kippa þessu í liðinn. Það væri ekkert voðalega flókið. En því miður er búið að búa svo um hnútana, m.a. með hræðilegum ákvörðunum hér í sölum Alþingis, að til eru orðin manngerð vandamál víða um land. Ég hef oft kallað þetta manngerðar náttúruhamfarir. Þetta er mjög slæmt og ekki aðeins sjálfra okkar vegna heldur líka vegna barna okkar og barnabarna, komandi kynslóða. Það er slæmt að við skulum markvisst brjóta niður byggð á Íslandi. Ég tel að land sem ekki er í byggð sé einskis virði. Ef við ætlum að geta selt Ísland sem ferðamannaland í framtíðinni þá þurfum við t.d. að hafa landið í byggð. Það sem ferðamenn vilja sjá þegar þeir koma til Íslands eru ekki bara fjöll og firnindi, ár og lækir. Nei, þeir vilja líka sjá mannlífið. Þeir vilja koma í þorp og sveitir og sjá hvernig fólkið í landinu býr.

Við getum sjálf bara gert okkur í hugarlund það sem við viljum skoða þegar við erum á ferðalögum erlendis. Við viljum kynna okkur mannlífið í þeim löndum sem við heimsækjum.