Stækkun NATO

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 15:02:52 (1003)

2003-11-03 15:02:52# 130. lþ. 19.1 fundur 112#B stækkun NATO# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Í fjarveru hæstv. utanrrh. vil ég leyfa mér að beina fyrirspurn til hæstv. forsrh. Hún varðar stækkunarferli NATO. Eins og kunnugt er hafa NATO-ríkin samþykkt að taka inn sjö ný aðildarríki. Þessi stækkun kallar hins vegar á það að þjóðþing allra 19 NATO-ríkjanna staðfesti þetta. Nú er svo komið að 11--12 NATO-ríki hafa þegar gengið frá þessari staðfestingu. Hins vegar hafa þrjú NATO-ríki satt að segja ekki hreyft sig í málinu. Þau eru Grikkland, Portúgal og Ísland.

Í ljósi þess að langstærstur hluti þingsins hefur verið meðmæltur þessari stækkun NATO og verið áfram um það að hún gengi hratt og vel fyrir sig --- einkum og sér í lagi höfum við lagt á það áherslu að Eystrasaltsríkin þrjú kæmu inn í hið vestræna andrúmsloft, bæði með aðild að ESB og ekki síður NATO --- þykir mér skjóta skökku við að við sitjum svona aftarlega á merinni. Mig langaði þess vegna að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hefði hugmynd um stöðu mála í utanrrn. í þessum efnum og hvort vænta mætti tillögu frá ráðherranum og ríkisstjórninni þessa efnis þannig að við gætum gengið frá málinu áður en það er komið í tímaþröng. En eins og kunnugt er þá er stefnt að því að þessi ríki verði fullgildir aðilar eigi síðar en næsta vor.