Seðlageymslur á landsbyggðinni

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 15:05:44 (1006)

2003-11-03 15:05:44# 130. lþ. 19.1 fundur 113#B seðlageymslur á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er að vísu ekki jafnstórbrotið viðfangsefni og stækkun NATO sem ég hyggst taka upp við hæstv. forsrh. heldur málefni sem varðar Seðlabanka Íslands. Ég beini máli mínu til hæstv. forsrh., þess ráðherra í ríkisstjórn landsins sem fer með málefni Seðlabanka Íslands.

Þannig er að nú fyrir skemmstu barst sparisjóðum og útibúum á landsbyggðinni bréf frá Seðlabankanum þar sem tilkynnt er um lokun á 16 af 22 seðlageymslum í landinu. Þessar 16 seðlageymslur eru að sjálfsögðu allar á landsbyggðinni. Seðlabankinn tilkynnir þetta án nokkurs samráðs við viðkomandi stofnanir en hefur að vísu unnið eitthvað að málinu síðan í sumar með fulltrúum Samtaka banka og verðbréfasjóða.

Það sem þetta felur í sér, herra forseti, er án nokkurs vafa mikið óhagræði fyrir viðkomandi stofnanir og viðkomandi svæði. Þetta skerðir öryggi í dreifingu peningasendinga um landið og hér er verið að eltast við aura og að mínu mati kasta krónunni og örygginu. Það fyrirkomulag sem hefur verið við lýði er að Seðlabankinn fer um landið tvisvar á ári með sérútbúna bifreið og fjóra menn og fyllir á seðlageymslurnar. Þar eru síðan til staðar, í viðkomandi stofnunum, nægar seðlabirgðir til þess að sparisjóðir og bankar þurfi ekki sjálfir að halda umfangsmikla sjóði. Rekstrarkostnaður er sáralítill fyrir viðkomandi stofnanir til að annast hann.

Það sem þetta mun hafa í för með sér er að annaðhvort eða hvort tveggja verða viðkomandi stofnanir að fara að halda miklar seðlabirgðir, peningasendingar með pósti eða með öðrum hætti munu stóraukast og öryggi verður fyrir borð borið. Maður sér ekki hvaða tilgangi það þjónar að fara út í þessar breytingar til þess eins, að því er virðist, að spara fáeinar krónur. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hafi kynnt sér málið og ef ekki hvort hann sé tilbúinn til að gera það og beita sér við Seðlabankann um að þessi ákvörðun verði endurskoðuð.