Seðlageymslur á landsbyggðinni

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 15:08:37 (1008)

2003-11-03 15:08:37# 130. lþ. 19.1 fundur 113#B seðlageymslur á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér heyrist nú reyndar ekki að við séum að deila mikið, við forsrh., frekar en fyrri daginn, þó að það sé gjarnan sett þannig upp. Út af fyrir sig hefði verið gaman að hafa þessar samræður á dönsku svona í tilefni af tengslum okkar við þá ágætu þjóð.

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin og tel að þau séu eftir atvikum eins og við gat verið að búast. Ég fagna því að hæstv. forsrh. kynni sér málið og hafi samband við Seðlabankann. Að sjálfsögðu er ekki spurt með því hugarfari að forsrh. eigi að vera með nefið ofan í einstökum ákvörðunum Seðlabankans um rekstur og þjónustu en hér er um ákveðið grundvallaratriði að ræða. Það er um þjónustu þessa miðlæga banka við fjármálastofnanir vítt og breitt um landið og það er mál sem kemur okkur öllum við. Þetta er líka byggðamál og ríkisstjórnin fer með það og það væri alveg ástæða til að hæstv. iðn.- og viðskrh. sem fer með byggðamál væri jafnframt hafður með í ráðum í þessum efnum. Þetta er spurning um þá þjónustu sem landsmenn njóta og stofnanir af þessu tagi án tillits til staðsetningar í landinu. Ég tel að ef einhverjum ber skylda til að standa svona sæmilega að málum í þeim efnum, sé það t.d. seðlabanki þjóðarinnar.