Nefnd um endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 15:20:56 (1017)

2003-11-03 15:20:56# 130. lþ. 19.1 fundur 116#B nefnd um endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í febrúar sl. var þess farið á leit við þingflokkana að þeir tilnefndu fulltrúa í nefnd til að endurskoða lögin um heilbrigðisþjónustu. Þessi nefnd er auk fulltrúa þingflokkanna skipuð fulltrúum samtaka launafólks og fleiri aðila. Þetta var og er mjög virðingarvert framtak af hálfu hæstv. heilbrrh. að leita eftir breiðri samstöðu í þjóðfélaginu um breytingar á þessum lögum.

Ýmis álitamál er brýnt að skoða svo sem hvernig hægt er að styrkja og efla heilbrigðisþjónustuna, hvort nauðsynlegt sé að setja sérstök lög um sérfræðiþjónustu, um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og hvaða stofnanir eigi að sinna einstökum verkþáttum. Allt þetta er mikilvægt að gaumgæfa.

Síðan er hinu ekki að leyna að örlagaríkt er hvaða stefna er tekin hér á landi um skipulag heilbrigðisþjónustunnar. Sterk öfl í fjármálalífinu hugsa gott til glóðarinnar, vilja umbylta þessari þjónustu og færa hana yfir á markaðstorgið. Verslunarráð Íslands hefur verið helsti málsvari slíkrar stefnu en ljóst er að á vettvangi stjórnmálanna hefur verið tekið undir þessi viðhorf, fyrst og fremst innan Sjálfstfl. en einnig af hálfu annarra eins og nýleg dæmi sanna.

Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh. hvað líði störfum starfsnefndarinnar um endurskoðun heilbrigðislaganna.