Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 15:38:29 (1028)

2003-11-03 15:38:29# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf., nr. 75/2001.

Með frv. þessu er lagt til að brott falli ákvæði til bráðabirgða við þessi lög sem mælt hefur svo fyrir að samgrh. fari með eignarhlut ríkisins í Landssímanum. Við brottfall þess tekur fjmrh. við handhöfn hlutafjárins en það er sú skipan sem almennt gildir um mál er varða eignir ríkisins og fyrirsvar vegna þeirra samkvæmt þeirri verkaskiptingu sem ákveðin er með reglugerð um Stjórnarráð Íslands eins og nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum við frv.

Ekki þykir lengur ástæða til að hafa aðra skipan á meðferð hlutafjár í Landssímanum. Má jafnvel færa fyrir því gild rök að óheppilegt geti verið að fyrirsvar vegna þess sé á hendi sama ráðherra og fer með mál er varða síma og önnur fjarskipti.

Ég tel reyndar ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að hafa um þetta frv. fleiri orð enda málið afar einfalt og auðskilið í alla staði. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn. enda lýtur það eingöngu að verkaskiptingu í Stjórnarráðinu.