Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 15:45:04 (1033)

2003-11-03 15:45:04# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að segja að mig undrar nokkuð að hæstv. forsrh. skyldi ekki sjá ástæðu til að mæla fyrir frv. með ítarlegri ræðu en raun bar vitni. Þá á ég sérstaklega við það að þetta frv. tengist að sjálfsögðu endurvöktum áformum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu Landssímans og það er væntanlega einnar messu virði að ræða það mál þótt ekki væri nema að ríkisstjórnin gerði grein fyrir reynslunni af fyrri tilraun, færi yfir stöðuna og rökstyddi að nú stæði betur á til að leggja í þennan leiðangur á nýjan leik. Þetta mál er ekki bara formsatriði. Það er ekki bara einhver einföld kerfisbreyting að færa forræði í máli frá samgrh. yfir til fjmrh. í kyrrstöðu. Ég hef skilið það svo að þetta sé undirbúningur að framkvæmd þessa ákvæðis stjórnarsáttmálans og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar að fara nú í að selja Landssímann. Það er ekkert smámál þannig að ég vonast til þess að hæstv. forsrh., þá síðar kannski í umræðunni, geri grein fyrir mati ríkisstjórnarinnar á stöðunni, þar á meðal því hvort ástæða sé til að ætla að betur takist til í tilraun tvö en gerði í fyrstu tilraun, í þessari hraklegu brotlendingu ríkisstjórnarinnar þegar hún hugðist einkavæða eða selja Landssímann fyrir nokkrum missirum. Það er leitun að snautlegri, svo að það ágæta íslenska orð sé viðhaft hér sem ég veit að gleður hæstv. forsrh. jafnan, útkomu á einu máli en því hvernig ríkisstjórnin, undir forustu þá að vísu hæstv. samgrh., brotlenti þeim málum.

Úr því að ég bryddaði upp á því, herra forseti, er ástæða til að ræða það efnisatriði málsins fyrst. Er endilega sjálfgefið að ekki séu rök fyrir því að hlutir heyri til fagráðherranna þó að almenna reglan sé sú að fjmrn. fari með eignir og verðmæti ríkisins? Það eru auðvitað mýmörg dæmi um hið gagnstæða þar sem menn telja fagleg rök vera fyrir undantekningunni og þau hafa sannarlega verið fyrir hendi og eru að mínu mati enn þann dag í dag hvað varðar Landssímann sem er með náttúrulega einokun að uppistöðu til á sviði fjarskipta í landinu. Það er kannski einmitt tímanna tákn að við þessa einkavæðingu sé hrint úr vör í tilraun tvö með því að undirstrika að fagleg sjónarmið verði látin lönd og leið og það verði bara svona einfaldur bisness í höndum fjmrh. að selja þetta þjóðarfyrirtæki með náttúrulega einokun á sviði fjarskipta í landinu. Það er sem sagt það. Það er kannski til þess einmitt að fjmrh. geti síðan vísað til þess að hann sé ekki fjarskiptamálaráðherra, honum komi ekki við hvaða áhrif þessi eignasala hefur t.d. á aðstöðu landsbyggðarinnar hvað varðar það að vera fullgildur þátttakandi í þróun upplýsingasamfélagsins o.s.frv.

Ég held, herra forseti, að þegar á dagskrá kemur einkavæðing Landssímans séum við komin að enn nýjum vatnaskilum í sögu einkavæðingar í landinu. Ýmislegt má um þau ósköp segja sem hingað til hafa á gengið, eins og með bankana sem núna stunda sjálftöku á gróða sem aldrei fyrr í höndum hinna nýju eigenda og þjóna markmiðum þeirra um valdatöku í íslensku viðskiptalífi eins og við höfum séð undanfarna mánuði. En þegar kemur að Landssímanum og fjarskiptanetinu í landinu er komið að enn nýjum vatnaskilum því að hér á í hlut almannaþjónusta sem skiptir gríðarlega miklu máli að landsmenn standi allir jafnt að vígi gagnvart. Það er verulegur munur í mínum huga og okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði á bönkunum sem fjármálastofnunum annars vegar og Landssímanum sem þessu undirstöðuþjónustufyrirtæki hins vegar, m.a. vegna þess að hin náttúrulega einokun Landssímans er miklu ríkari. Hún liggur grafin í jörðu og í loftinu yfir höfðum okkar í formi ljósleiðarans, koparlagna, örbylgjusendinga, jarðstöðva og fleiri slíkra hluta. Það er ekkert sem breytir í einu vetfangi hinni náttúrulegu einokun Landssímans. Hún er múruð inn í uppbyggingu fjarskiptakerfisins í landinu og auk þess hafa aðstæður á samkeppnismarkaði, ef eitthvað er, þróast þannig að það er algerlega borðleggjandi að það verður engin eiginleg samkeppni í fjarskiptum á Íslandi næstu árin. Það er rugl. Blaðran sprakk þegar hér spruttu upp einhver fjarskiptafyrirtæki sem þóttust ætla að fara að veita Landssímanum samkeppni. Hvert eru þau farin? Þau eru skriðin saman í eitt fyrirtæki. Heitir það ekki Og Vodafone, eitthvað svoleiðis, upp á nútímalega íslensku? Hvað verður þá þegar búið verður að afhenda Landssímann, að vísu gegn smáendurgjaldi því að ég geri ekki ráð fyrir að þeir gefi hann? Það verður svipuð aðferð og með bankana. Hann verður afhentur gegn endurgjaldi. Það er það sem ég kalla þessar aðferðir ríkisstjórnarinnar. Þá verða tveir markaðsráðandi risar eða öllu heldur einn markaðsráðandi risi og einn svona stubbur við hliðina á honum, það verður fjarskiptamarkaðurinn á Íslandi. Halda menn að það verði merkileg samkeppni? Halda menn að það verði flókið fyrir menn að hafa smásamráð? Hvers konar sjálftökuaðstæður er verið að setja þá í sem fá forræði fyrir þessu stóra fyrirtæki í hendur ef þetta verður gert svona, ég tala nú ekki um ef tískufyrirbærið ,,kjölfestufjárfestir`` verður dregið á flot eina ferðina enn og það verður talið nauðsynlegt að hafa kjölfestufjárfesti í Landssímanum? Hvað mun það þýða á mannamáli? Það mun þýða að einn aðili fær í krafti kannski 45 eða 51% eignaraðildar allt vald í þessu fyrirtæki. Og þeim þykir ágætt að einhverjir sem engu ráða eigi á móti þeim, þá þurfa þeir ekki að leggja eins mikið út fyrir völdunum.

Hvað verður þá, herra forseti, um t.d. stöðu hinna dreifðu byggða og áframhaldandi fjárfestingar í fjarskiptakerfinu þar, til þess að menn geti haldið áfram að vera þátttakendur í uppbyggingu upplýsingasamfélags, nýtt sér möguleika fjarkennslu og annað í þeim dúr? Ég skal að vísu viðurkenna fyrstur manna að ég er hundóánægður með það hvernig Landssímanum hefur verið beitt undanfarin missiri í þeim efnum og ég tel að það standi stórkostlega upp á hinn stóra eiganda, ríkið, að hafa ekki gefið Landssímanum fyrirmæli um að gera nauðsynlegar úrbætur, t.d. á sviði fjarskiptamála í þeim landshlutum þar sem þau mál eru í ólestri. Fyrir þinginu liggur fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. samgrh. um þá hneisu að það skuli látið dragast ár eftir ár eftir ár að gera nauðsynlegar úrbætur í fjarskiptamálum á norðausturhorni landsins og það kostar 35--40 millj. kr. Þetta mikla fyrirtæki sem græðir marga milljarða á ári og greiðir ríkulegan arð í ríkissjóð getur ekki tryggt að Raufarhöfnungar og Kópaskersbúar hafi nútímalega og fullnægjandi fjarskiptaþjónustu. Nei, það bara borgar sig ekki. Það er ekki nógur gróði af því.

Þá erum við einmitt komin að vatnaskilunum og því sem mestu máli skiptir. Með hvaða hugarfari er þessi starfsemi rekin? Er þetta bisness til þess að græða á honum, fleyta rjómann þar sem markaðurinn er bestur eða er þetta þjónusta? Er þetta spurning um að það búi ein þjóð í þessu landi og allir geti notað tölvur, farið á netið o.s.frv., hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem brosir hér mjög úti í salnum undir þessum ræðuhöldum, hv. 10. þm. Reykv. n.? Það verður fróðlegt að heyra viðhorf þingmannsins til þessara þátta og kannski verður hv. þm. svo vænn að koma hér í ræðustólinn og ræða út frá frjálshyggjuhugmyndafræði sinni hvernig hann sér fyrir sér að þessum málum verði fyrir komið í hinum ríkiseinokunareinkavædda heimi sjálfstæðismanna en um hann dreymir þá mjög.

Herra forseti. Maður hefði þó a.m.k. bundið vonir við hæstv. fagráðherra ef allt hefði verið með felldu. Ef samgrh. hefði verið með hýrri há í þessu máli hefði verið til bóta að framkvæmd einkavæðingarinnar væri þó áfram í höndum þess hæstv. ráðherra sem fer með fjarskiptamál. Maður getur þó velt fyrir sér hvort það hafi nokkuð upp á sig samanber hvernig staðið var að málum í fyrri tilraun. Það var t.d. þannig að Ísland ætlaði að gera þetta með meiri frjálshyggju, vil ég segja, heldur en nokkurs staðar annars staðar hefur litið dagsins ljós á byggðu bóli.

Fyrri áform um einkavæðingu Landssímans voru þannig að ríkið ætlaði ekki að halda eftir neinu í höndum fagráðherrans til þess að geta haft tiltekin ítök um rekstur fyrirtækisins. Meira að segja Nýsjálendingar, sem lentu í því á dimmustu hremmingarárum sínum þegar nýfrjálshyggjukratar náðu þar illu heilli völdum á 9. áratugnum og einkavæddu allt sem hægt var að einkavæða og helst til útlanda, héldu þó eftir gullbréfi þegar þeir einkavæddu landssímann nýsjálenska. Þeir héldu eftir einu hlutabréfi í höndum ríkisins gegnum hvað var hægt að tryggja vissa hluti, t.d. að meiri hluti stjórnar væri ævinlega í höndum Nýsjálendinga jafnvel þótt eignarhaldið væri farið úr landi og annað í þeim dúr. Ég spurði að þessu á sínum tíma: Á ekki einu sinni að halda eftir gullbréfi í höndum ríkisins ef fyrirtækið verður einkavætt alfarið? Og svarið var nei. Ekkert af slíku tagi átti þarna að gera og það kalla ég meiri frjálshyggju en annars staðar hefur sést í þessum efnum.

Það væri auðvitað, herra forseti, ástæða til að fara yfir reynslu annarra þjóða sem hafa ratað í þær ógöngur að einkavæða alfarið fjarskipti sín. Nýja-Sjáland er þar kannski hroðalegasta dæmið þar sem tvö amerísk stórfyrirtæki sem hugsa ekki um annað en gróðann eiga núna fjarskiptamarkaðinn í Nýja-Sjálandi og flytja arðinn úr landi í stórum stíl. Og meira en arðinn, talsverður hluti af starfsemi nýsjálenska símans hefur beinlínis fýsískt verið fluttur til Bandaríkjanna og er unninn þar. Fyrirtækin eru rekin og þeim er stjórnað frá Bandaríkjunum. Það er málamyndastjórn eftir í landinu. Verður t.d. boðið upp á það hér að erlendir risar á sviði fjarskipta kaupi Landssímann? Gæti kjölfestufjárfestirinn orðið eitt útlenskt stórfyrirtæki sem kynni að ómaka sig til að hafa áhuga á þessum litla fjarskiptaaðila hér uppi á Íslandi? Það reyndist ekki síðast, enda þótti það þá kannski ekki nógu góð söluvara mitt í kreppu nýja hagkerfisins og upplýsingafyrirtækjanna en kannski kann að verða annað upp á teningnum nú. Auðvitað sjá menn þarna ákjósanlegar aðstæður fyrir sjálftöku hagnaðar til að ná tangarhaldi á fyrirtæki sem hefur náttúrulegar einokunaraðstæður í einu landi og ekkert er í sjónmáli um að muni sæta neinni umtalsverðri samkeppni á komandi árum.

Á vettvangi Norðurlandaráðs, herra forseti, sem mönnum er ferskt í huga þessa dagana var unnin fyrir nokkrum missirum mjög ítarleg skýrsla af þáverandi Evrópunefnd Norðurlandaráðs um fjarskiptamarkaðinn norræna, sérstaklega fjarskiptakerfið og hvernig hinum dreifðu byggðum Norðurlandanna mundi reiða af í þeim efnum. Niðurstaða þeirrar skýrslu var mjög skýr, mjög einföld, og stóðu að henni allir stjórnmálaflokkar sem fulltrúa eiga á Norðurlandaþingi, þar á meðal hægri menn. Niðurstaðan varð sú að enginn annar aðili en hið opinbera gæti séð um og tryggt að undirstaðan væri til staðar, að fjarskiptakerfin væru til staðar, þau væru þróuð, byggð upp og öllum landsmönnum tryggður aðgangur að þeim. Það þýðir ekki endilega að ríkið þurfi að eiga eða reka alla hluti. En hin opinbera ábyrgð er þarna og verður að vera þarna því að það getur enginn annar aðili tryggt þetta. Þessir hlutir eru allir í lausu lofti eins og ríkisstjórnin ætlar greinilega að standa að þessu.

Það er merkilegt ef ríkisstjórn Íslands ætlar að láta verða af þessu með leifarnar af Framsfl. innan borðs líka sem einhvern tíma þóttist hafa einhverja meðvitund í þessum efnum. Hann er að vísu farinn úr salnum eins og ævinlega þegar þessi mál ber á góma. Ég man aldrei eftir því að einn einasti framsóknarmaður hafi tollað yfir þessari umræðu stundinni lengur nema þá hann sé bundinn í forsetastól eða er fyrir tilviljun að sortera pappírana sína. Af einhverjum ástæðum vilja framsóknarmenn lítið við tilvist sína kannast þegar þetta mál ber á góma, kannski skiljanlega því að Framsókn þóttist ætla að standa í lappirnar og leggjast gegn því að Landssíminn yrði einkavæddur, þ.e. með grunnnetinu. Það var lengi vel opinber stefna Framsfl. að ekki skyldi ljá máls á því að umferðaræðar fjarskiptanna í landinu, vegirnir fyrir fjarskiptin, yrðu seldar í hendur einkaaðila. Síðan lak Framsókn auðvitað niður, gafst upp fyrir nýfrjálshyggjuliðinu í Sjálfstfl. og hefur núna skrifað upp á hráa einkavæðingu fjarskiptafyrirtækisins að meðtöldu grunnnetinu.

Þá bar að vísu svo við að sú stefna var hirt upp af öðrum. Samf. tók hana upp á arma sína, þessa munaðarlausu stefnu um að ekki skyldi selja Landssímann með grunnnetinu, og hefur hana nú við hún, að ég best veit, og það er gott mál svo langt sem það nær. Hitt er miklu miður að einnig að þessu leyti leggur Samf. að hluta til einkavæðingaröflunum lið, hún getur ekki staðið vaktina hér með þeim aðilum öðrum sem vilja yfir höfuð ekki sjá víglínuna færða inn í þá mikilvægu almanna- og samfélagsþjónustu sem undirstöðufjarskiptaþjónustan í landinu er.

Að mínu mati, herra forseti, er það þannig að þegar kemur að talsímasamskiptunum, símþjónustunni og upplýsingaflutningunum, á a.m.k. að slá skjaldborg um þá þjónustu og segja: Hún er þess eðlis, hún er svo mikilvæg og hún lýtur þannig lögmálum að þar á einkavæðingin ekki heima. Menn geta keppt um afmarkaða þætti eins og GSM-þjónustu eða annað því um líkt og fyrir því kunna að vera tæknilegar forsendur að þar skapist raunveruleg og virk samkeppni. En það á ekki við um fastlínusamböndin og það á ekki við um gagnaflutninga í miklum mæli, t.d. út um byggðir landsins.

[16:00]

Það er augljóst mál að það er enginn í sjónmáli og verður ekki á komandi árum sem veitir þar neina samkeppni. Hugmyndir manna um að svokölluð þriðja kynslóð farsíma eða þráðlausir gagnaflutningar í miklum mæli kæmu til sögunnar og gætu keppt við ljósleiðara eða örbylgjusambönd hafa reynst óraunhæfar. Þær hafa bæði reynst tæknilega óraunhæfar og viðskiptalegar óraunhæfar. Og helstu sérfræðingar Norðurlanda á þessum sviðum, þróunarsérfræðingar Nokia og Ericsson, komu fyrir þá norrænu nefnd sem ég nefndi áðan og skrifuðu upp á það að á næstu árum væri það ekki raunhæfur kostur að keppa við fastlínusamböndin eða örbylgjurnar um slíka gagnaflutninga í miklum mæli. Það gæti komið til sögunnar á afmörkuðum sviðum, og allt í góðu lagi með það, en það mundi ekki breyta grundvallarstöðunni hvað þetta varðar.

Og málið, herra forseti, snýr alveg sérstaklega að landsbyggðinni og hinum dreifðu byggðum. Nú þegar er staðan auðvitað orðin önnur á höfuðborgarsvæðinu þar sem eru orðnar vissar tæknilegar forsendur fyrir samkeppni með ljósleiðaravæðingu á vegum annarra aðila eða fleiri aðila en Landssímans og í einstöku öðrum bæjarfélögum kann það að koma til sögunnar. Fyrirtæki eins og Landsvirkjun á hér ljósleiðara norður yfir hálendið o.s.frv. En þar fyrir utan er bara allt annar heimur sem menn lifa í þar sem eru þau byggðarlög önnur sem eru alfarið háð þeirri tæknilegu uppbyggingu og þeirri þjónustu sem þetta stóra fyrirtæki, Landssíminn, veitir. Og ég hef engin svör heyrt, haldbær eða gagnleg í þeim efnum, hvernig tryggja eigi að þessi þjónusta verði fullnægjandi og í boði og að ekki sígi á ógæfuhliðina þegar köld viðskiptasjónarmiðin ein ráða þarna ferðinni, þegar þjónustuhugsuninni er ýtt til hliðar fyrir arðsemiskröfunni og þegar fyrirtæki sem telur sig þurfa á því að halda að geta beitt styrk sínum í mögulegri samkeppni við einhverja aðra þar sem verið er að fleyta rjómanum ofan af, þarf að geta haft sína hentisemi í sambandi við gjaldskrár og annað.

Hvað gerðist í Nýja-Sjálandi? Á því eina svæði þar sem amerísku símafyrirtækin fengu samkeppni sem var í höfuðborginni Wellington og í Auckland á Norðurey þar sem upp undir fjórðungur íbúa Nýja-Sjálands býr, lækkuðu þeir verðið og hækkuðu það á landsbyggðinni. Strjálbýlið á Nýja-Sjálandi hefur greitt herkostnaðinn af samkeppni símans á stóru markaðssvæðunum. Þetta er sannað. Um þetta hafa gengið dómsmál og kærur.

Það er inn í þessa framtíð sem menn ætla að fara með málin hér. Og það er verra en það, herra forseti. Það er eins og hæstv. ríkisstjórn hafi ekki fengið nóg af því sem hefur verið að gerast í íslenskum viðskiptaheimi undanfarin missiri og hefur ekki síst birst okkur í sviptingunum miklu á haustdögum, af vaxandi fákeppni og markaðsráðandi drottnunarstöðu hringa á sífellt fleiri sviðum viðskipta í landinu. Fjármálaþjónustan er nýjasti geirinn þar sem þrír markaðsráðandi risar skipta markaðnum þannig á milli sín að gróðinn flæðir út úr eyrunum á þeim. Það dettur engum þeirra í hug að lækka hjá sér gjaldskrá. Hvernig stendur á því, herra forseti? Gæti hæstv. forsrh. upplýst okkur um það að þrátt fyrir hinn gríðarlega gróða bankanna og meinta samkeppni, þá hagga þeir ekki gjaldskránni. Enginn þeirra býður minnsta afslátt af þjónustugjöldum til þess að reyna að ná til sín auknum viðskiptum. Hvernig stendur á því? Er það ekki eitthvað skrýtið að enginn þeirra skuli í öllum gróðanum telja sig hafa efni á því að bjóða betri kjör til að ná til sín meiri viðskiptum? Hringja engar bjöllur? Hvað með matvörumarkaðinn, vátryggingarstarfsemi, olíudreifingu o.s.frv.? Er ekki nóg af sviðum í íslenskum viðskiptum sem eru ofurseld þessari markaðsráðandi fákeppni tveggja, þriggja aðila? Hér á að fara að búa til eitt enn. Það er það sem þetta mál snýst um, að koma fjarskiptunum líka yfir í þetta umhverfi. Er það það sem menn vilja þegar komið er að almannaþjónustu af þessu tagi? Ég segi nei, takk.

Mér finnst, herra forseti, að menn eigi að geta verið menn til þess að læra af eigin reynslu og annarra. En það er alveg sama hvar borið er niður í þessum efnum, það hefur ekki leitt til farnaðar að einkavæða undirstöðuþjónustu af þessu tagi. Og allra síst þegar í hlut á veitustarfsemi eða fjarskiptaþjónusta sem lýtur lögmálum náttúrulegrar einokunar. Reynslan hrópar öll á okkur og hún er ein og hin sama frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Nýja-Sjálandi og annars staðar þar sem þetta hefur verið gert. Það hefur leitt til ófarnaðar. Og hvers vegna þá að ana út í þá keldu hér?