Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:07:30 (1035)

2003-11-03 16:07:30# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Að þetta frv. sé eingöngu formbreyting, þá er það nú engu að síður svo að hér erum við að ræða breytingu á lögum um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands. Þannig að það hlýtur að teljast akkúrat að ræða dagskrármálið að inna eftir áformum hæstv. ríkisstjórnar í þeim efnum og er ekki aldeilis að fara með umræðuna út um víðan völl. En að þetta sé ekki tengt áformunum beint sem slíkum, þá hef ég nú fyrir mér m.a. viðtal við formann einkavæðingarnefndar frá því fyrir nokkru síðan, kannski viku, hálfum mánuði, þrem vikum, þar sem hann var einmitt að upplýsa um það að nú væri einkavæðingarnefndin að snúa sér að þessu mikla verkefni. Og eins og venjulega kom þar fram að það fyrsta sem nefndin ætlaði að ræða væri hvaða aðferð hún mundi nú viðhafa í þessu tilviki. En eins og kunnugt hefur einkavæðingarnefnd ævinlega reynt að finna upp nýja aðferð, nýja formúlu í hverju einstöku tilviki. Það hefur aldrei verið notast við sömu aðferðina. Ýmist er verið að reyna að dreifa eignaraðildinni eða verið að reyna að þjappa henni saman til þess að finna kjölfestufjárfesta o.s.frv.

Það sem skiptir auðvitað mjög miklu máli hér, herra forseti, er í hvernig umhverfi þetta fyrirtæki kemur þá til með að starfa, ef af verður, þ.e. að það breyti um eiganda að einhverju leyti eða öllu. Verður það allt gert í einu lagi eða yrði farin þarna einhver yfirveguð leið eins og Norðmenn hafa t.d. gert? Þegar þeir hafa verið að breyta eignarhaldi að einhverju leyti í mörgum stórum ríkisfyrirtækjum þá hafa þeir gert það í rólegheitum með því að taka inn nýtt hlutafé eða lækka hlut ríkisins á margra ára tímabili og sú áætlun hefur öll legið fyrir fyrir fram. Eða verður bara haldið eitt uppboð hér og verður jafnvel Síminn seldur í heilu lagi eins og einn kassi ef einhver býður bara í hann? Þetta skiptir allt saman máli.

Og varðandi möguleika ríkisins til að tryggja jöfnun þá eru þeir fræðilega séð til staðar. En að þeim hugmyndum er sótt, eins og hæstv. forsrh. veit, t.d. í tilviki olíuverðjöfnunarsjóðs.