Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:09:46 (1036)

2003-11-03 16:09:46# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það gefur náttúrlega augaleið að þetta sérstaka frv. tengist ekki sölunni á Símanum því ef svo færi að salan færi fram að öllu leyti þá skiptir engu máli hver fer með hlutaféð í Símanum eftir það vegna þess að þá er það ekki lengur ríkið, hvorki samgrh. né fjmrh. Þannig að þá mundi það nú ekki skipta öllu máli.

Hins vegar er það nú svo að afstaða manna til allra þessara hluta eins og einkavæðingar breytist. Ég minnist þess vegna þess að vitnað var sérstaklega í Samf. að hv. formaður Samf. lýsti því yfir með starfsmönnum Pósts og síma 1995, hygg ég, að hann mundi aldrei styðja það að Póstur og sími, eins og það hét þá, yrði seldur yfirleitt, á fundi í Sigtúni gamla. Þannig að það breytist nú margt. Og meira að segja er það svo að sá ágæti formaður flutti að því er best verður séð athyglisverða ræðu varðandi heilbrigðismál á landsfundi sínum, meira að segja svo athyglisverða að ég held því fram að ef ég hefði haldið þá ræðu þá hefðu hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og nokkrir fleiri verið búin að heimta utandagskrárumræðu við mig út af þeirri fáheyrðu framkomu sem ég hefði sýnt á mínum landsfundi. En hér er allt með ró og friði og spekt þannig að margt er það nú sem breytist í heiminum og er það kannski vel.

(Forseti (GÁS): Forseti vekur athygli hæstv. forsrh. á því að hann er hér í andsvörum við hv. 5. þm. Norðaust.)