Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:17:50 (1040)

2003-11-03 16:17:50# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:17]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst þetta ákaflega skrýtin ræða, þ.e. að ekki væri í boði af hálfu ríkisstjórnarinnar að aðskilja dreifikerfið, umferðaræðar fjarskiptanna, eins og þingmaðurinn orðaði það, og þess vegna væri það ekki til umræðu hér. Það er auðvitað til umræðu hvernig við viljum sjá hlutina gerast. Það er heldur ekki í boði af hálfu ríkisstjórnarinnar að hætta alveg við að selja Landssímann og að ríkið eigi fyrirtækið áfram óbreytt eins og núna. Þess vegna erum við hvert fyrir sig eða hver flokkur fyrir sig að skoða hvernig við getum séð fyrir okkur þessa framtíðarþróun og hvað við eigum að leggja áherslu á að halda í að ríkið reki og ríkið eigi.

Hér hefur verið afgreitt raforkufrv. og lög sett sem taka gildi um næstu áramót. Þar er skilið milli reksturs og dreifikerfis. Í þeim lögum stendur að vísu ekki að ríkið eigi að eiga dreifikerfið. En ég ætla að taka undir með þingmanninum: Ég vona að sú verði raunin að ríkið haldi áfram að eiga það dreifikerfi. Og ef önnur fyrirtæki verði til þá vona ég að leigð verði afnot af því, því við þurfum a.m.k. að passa okkur á því að vera ekki með of mikið sýnilegt byggt upp í óþarfa. En um það er verið að ræða og af því þingmaðurinn nefndi að Samfylkingin vilji bara selja, tali að vísu um eitthvert dreifikikerfi, þá er svo mikið undir í dreifikerfinu, þ.e. þetta sem við höfum þegar nefnt. Þess vegna hefur Samfylkingin gert það upp við sig að það sem er á samkeppnismarkaði má fara. Ekki skiptir það mig neinu máli hvort ríkið eigi eitthvert GSM-fyrirtæki þegar til eru orðin mörg önnur. Þá mega þau bara vera einhvers staðar annars staðar. Það skiptir mig máli hvað er hjá ríkinu og m.a. þetta. Ég lít á það sem stórkostlegt byggðamál að ríkið sé með dreifikerfið. Þess vegna spyr ég þingmanninn: Hvað annað en dreifikerfi þarf ,,absalút`` að vera hjá ríkinu?