Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:19:57 (1041)

2003-11-03 16:19:57# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:19]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. má hafa allar skoðanir á mínum ræðum og kalla þær skrýtnar. En veruleikin er bara þessi: Hér er stjórnarfrv. á ferðinni um breytingu á lögum þar sem ekki er gert ráð fyrir því að aðskilja þessa þætti í starfsemi Símans og þar sem er gert ráð fyrir sölu á þessu öllu saman í einum pakka. Þá standa menn frammi fyrir því og að taka afstöðu til þess. Menn geta að sjálfsögðu haldið til haga áherslum sínum og hugmyndum um hvernig hefði verið hægt að gera hlutina öðruvísi. En þegar við komum til með að greiða atkvæði í þessum efnum eða þegar við höfum verið að greiða atkvæði í þessum efnum þá hefur það verið um þetta, einkavæðingu Landssímans eins og hann leggur sig.

Að sjálfsögðu væri til bóta að undanskilja grunnnetið. En það er síður en svo án vandkvæða. Það mikið veit ég um þessi mál hafandi glímt við þau talsvert um hríð. Það er alls ekki einföld eða vandalaus leið að fara. Ég tel að hún væri fær og ég tel að hægt væri að gera það og miklu betra en að ana þessa leið áfram. En þá þyrfti að stofna sérstakt fyrirtæki rekstraraðila um grunnnetið. Því yrði að tryggja fullnægjandi tekjur til þess að geta haldið uppbyggingu og fjárfestingum áfram o.s.frv. Það yrði að útbúa reglur á grundvelli hverra menn ættu síðan aðgang að þessu neti á jafnræðisgrundvelli og sanngjörnum grundvelli. Það yrði að kostnaðarreikna þættina o.s.frv.

Vandinn m.a. gagnvart því að svara því hvað þurfi að vera á hendi ríkisins eða hvað þurfi að tryggja til að allir landsmenn sitji við sama borð er að það er ekki það sama t.d. í Reykjavík og í strjálum byggðum landsins. Sumt gæti verið í samkeppni hér en það eru engar forsendur fyrir því þegar kemur út um landið. Þess vegna er þetta ekki bara þannig að einhver virðisaukaþjónusta, viðbótarþjónusta eða jaðarþjónusta sé í samkeppni en einhver undirstöðuþjónusta um allt land hins vegar ekki. Það tekur líka mið af landfræðilegum aðstæðum. Ég held þar af leiðandi, herra forseti, þegar upp er staðið og að lokum þá stöndum við frammi fyrir því hvort við viljum fara út á þessa braut eða ekki. Svo einfalt er það. Eitt er víst og það er að ég held að það muni um hvert ár sem það er ekki gert.