Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:26:50 (1044)

2003-11-03 16:26:50# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil minna á að tekið hefur langan tíma að byggja upp fjarskiptakerfi í landinu. Það gerist hins vegar ekki fyrr en í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að eitt gjald verður fyrir símnotkun í öllu landinu í fjarskiptakerfinu. Í dag er það þannig að GSM-símaþjónustan er á sama verði alls staðar. Mikil lækkun hefur orðið á kostnaði í gagnaflutningum hin síðari ár. Þessari þróun hefur því allri miðað í rétta átt. Verð á fjarskiptaþjónustu á Íslandi samkvæmt skýrslum OECD er með því allra lægsta sem gerist í veröldinni og það er afar mikilvægt fyrir okkur. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að auðvitað þarf að koma í veg fyrir að eitthvað sem hann kallar náttúrulega einokun geti orðið til þess að koma í veg fyrir að fjarskiptaþjónustan verði það mikla afl til uppbyggingar í landinu sem hún á að geta verið.

Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til að njóta hans ábendinga og stuðnings sem ég veit er að einlægur í því að fjarskiptafyrirtækin fái ekki frið til annars en að byggja upp þjónustu sína um landið allt og fyrir því vil ég standa.