Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:28:26 (1045)

2003-11-03 16:28:26# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að það var í tíð Halldórs Blöndals, þáv. hæstv. samgrh., að landið varð eitt gjaldsvæði í símaþjónustu. Hæstv. samgrh. hefði alveg mátt halda áfram að rifja upp söguna og svara því hvenær sú stefna var mótuð og hvernig ástandið hafi þróast árin þar á undan. Það var nefnilega þannig þegar ég kom í samgrn. að munurinn á innanbæjarsamtölum og langlínu var einn á móti átta. Það var átta sinnum dýrara að hringja á milli landshluta en innan bæjar. Sá munur var kominn í einn á móti þremur þegar ég skellti þar dyrum og sú stefna hafði þegar verið mótuð að landið yrði allt eitt gjaldsvæði í áföngum.

Það er alveg hárrétt, það er alveg gríðarlega mikilvægt atriði og við hæstv. samgrh. erum sammála um það --- það er þó vel --- að allir landsmenn búi við sem jafnastar aðstæður í þessum efnum. Það er orðið algjört úrslitamál hvað varðar alla framþróun í atvinnulífi, í menntun og á fjölmörgum öðrum sviðum samskipta fyrir landsmenn. Það er algerlega ljóst að ef ekki tekst að tryggja þennan jafna aðgang að upplýsingahraðbrautinni, ekki bara í formi verðs heldur líka tækni og aðgangs og jafnvel kunnáttu til að nýta möguleikana, þá verður þetta undirrót hinnar nýju stéttaskiptingar. Það verða þá annars vegar þeir sem hafa þekkingu, tækni eða aðgang að slíku á sínu valdi til að vera þarna fullgildir þátttakendur og hinir sem hafa það ekki. Þess vegna er svo gríðarlega mikið í húfi. Ég hef miklar áhyggjur af því að jafnvel þótt menn af góðum vilja hyggist tryggja slíkt í gegnum reglusetningarvald stjórnvalda þá reynist erfitt í framkvæmd að ná því fram, að misvitrir stjórnendur muni setjast við völd, jafnvel ekki með sama skilning á þessu og núv. hæstv. samgrh., sem ekki beiti tækjunum. Þar getur mismununin læðst aftan að okkur meðal annars.