Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 17:00:13 (1052)

2003-11-03 17:00:13# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka það að framsóknarmenn, aldrei þessu vant, viðhaldast í salnum og taka meira að segja þátt í umræðum. Hv. 9. þm. Norðaust. sýnir nokkurn kjark í því að koma hér og reyna að verja hinn hroðalega málstað Framsfl. í þessu máli. Það er virðingarvert við hann sem ungan og óreyndan þingmann að lenda í því. En venjan hefur verið sú að framsóknarmenn hafa forðað sér úr þingsalnum þegar þessi mál ber á góma.

Að stefna Framsfl. hafi verið skýr --- jahá. Ja, hún hefur tekið talsverðum stakkaskiptum eins og kunnugt er og ég fór yfir í ræðu minni. Og hv. þm. viðurkenndi það, og ég er honum sammála um það, að uppbygging dreifikerfisins og rekstur þess og hvernig fjárfestingum og uppbyggingu er háttað t.d. á landsbyggðinni sé eitt stærsta landsbyggðarmál samtímans. Það er það augljóslega vegna mikilvægis fjarskiptaþjónustunnar og gagnaflutninganna um landið og þess að vera þátttakendur í upplýsingatækninni.

Er þá niðurstaðan sú að Framsókn treysti einkaaðilunum best til þess að gera það, eða hvað? Það er sú stefna sem hér er verið að skrifa upp á. Framsfl. hélt lengi vel, framan af, þeirri stefnu sinni til haga á síðasta kjörtímabili að það ætti ekki að einkavæða grunnnetið. Síðan gafst Framsfl. upp, lagðist á kviðinn í þessu máli eins og fleiri gagnvart nýfrjálshyggjunni og það var farið í að reyna sölu. En þau söluáform runnu út í sandinn. Og þannig var staðan í aðdraganda síðustu kosninga.

Þess vegna var málið í sjálfu sér opið á nýjan leik og Framsókn hefði verið í lófa lagið að endurmeta áherslur sínar. Ég leyfi mér að halda því fram og tek undir með hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni --- það var nú ekki beinlínis þannig að frambjóðendur Framsóknar hömpuðu því að eitt af forgangsverkefnum á næsta kjörtímabili yrði að selja Landssímann. Þeir mynduðu hins vegar ríkisstjórn með Sjálfstfl. að loknum kosningum og tóku það inn í stjórnarsáttmála á nýjan leik að selja Landssímann. Þannig að tækifærið til að móta þarna nýja stefnu var ekki notað.

(Forseti (GÁS): Forseti verður að vekja athygli hv. þm. á því að hann er duglegur að tala inn í rauða ljósið.)