Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 17:31:35 (1060)

2003-11-03 17:31:35# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[17:31]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var sem sagt ekki verið að segja neitt sem mark er á takandi á flokksþingi Samf., það skipti engu máli, það þýddi ekki neitt.

Ég tók hins vegar eftir því hve sláandi lík orðanotkun formanns Samf. var orðanotkun hv. þm. Ástu Möller sem er einn einarðasti talsmaður markaðshyggjunnar á þessu sviði innan Sjálfstfl. Ég sat í útvarpsþætti þennan morgun eftir setningu þingsins og ég hef ekki hitt sælli manneskju en téðan hv. þm. Ástu Möller. Hún var svo glöð yfir því að hafa snúið Samf. á sitt band. Ég er ekki einn um að skilja þetta á þennan hátt.

Ritstjóri Morgunblaðsins sat þing Samf. og ekki lýgur hann eða hvað? Var það ekki þetta sem sagt var? Skipta orð engu máli? Skipta yfirlýsingar engu máli? Skiptir yfirleitt engu máli hvað Samf. segir? (Gripið fram í: Það er nú það.) Það er nú það. Við eigum kannski eftir að fá nánari og gleggri svör við því síðar, hugsanlega við þessa umræðu. Ég vona að við gerum það.