Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:02:42 (1067)

2003-11-03 18:02:42# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:02]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil reyna að tjá mig aðeins um þetta mál þó að röddin sé nú ekki upp á sitt besta, en það verður að hafa það.

Það er alveg rétt sem hefur komið fram í dag í þessari umræðu að Síminn er þjónustufyrirtæki fyrir alla landsmenn og það er alls ekki sama hvernig á þeim sölumálum er haldið. Við höfum tekið eftir því, sérstaklega við sem erum og teljumst vera að vakta hagsmuni m.a. fólks á landsbyggðinni í okkar kjördæmum, að það er lítill áhugi á því hjá Símanum að bæta dreifikerfið og málin virðast vera í talsverðri biðstöðu þar. Ég tel að það muni ekki lagast þegar búið er að selja Símann og dreifikerfið líka. Eins og staðan er nú hér á landi, þar sem aðeins tvö fyrirtæki eru á símamarkaðnum og Landssíminn hefur þar yfirburðastöðu, tel ég að það komi ekki til greina að dreifikerfið sé selt með Landssímanum. Það beri að aðskilja dreifikerfið algjörlega við sölu á Símanum. Reyndar tel ég að það liggi ekki mikið á að selja Símann eins og málum er háttað og betra að því máli væri frestað um þó nokkurt skeið og menn sæju hvernig þessum málum mundi haga til á næstu missirum hér á landi.

Ég tel það alveg ljóst að ef við ætlum að tryggja jafnan aðgang landsmanna að símkerfinu og því dreifikerfi sem við þurfum að halda uppi hér á landi verði það best gert með því að ríkið haldi dreifikerfinu og sjái til þess að dreifikerfið sé af þeim gæðum og veiti þá þjónustu sem einstaklingar vítt og breitt af landsbyggðinni gera eðlilega kröfu um, að sitja nokkurn veginn við sama borð og aðrir í þessu efni. Ég tel það ábyrgðarleysi í núverandi stöðu að selja dreifikerfið með Símanum og að það eigi að tryggja það að dreifikerfið verði bætt áður en til þess kemur að Síminn verði seldur. Í öllu falli að halda dreifikerfinu sér, það hlýtur að vera lágmarkskrafa.

Núna eru aðeins tvö fyrirtæki á símamarkaði hér á landi og Landssíminn hefur vissulega mikla yfirburðastöðu, þó að málið sé þannig í pottinn búið að bæði fyrirtækin séu að horfa á þann markað sem veitir þeim mestar tekjur. Það eru auðvitað þéttbýlustu staðirnir á landinu. Þetta hefur komið greinilega í ljós þegar verið er m.a. að tala um hvort það þurfi að bæta dreifikerfið, t.d. GSM-símakerfið. Þá er auðvitað á það bent að 98% íbúa, þar sem þeir eru staðsettir í dag, nái að nýta sér það kerfi. Eftir sem áður eru miklar vegalengdir hér á landi þar sem enginn sími næst svo vel sé. Það er líka fjöldamargt varðandi þjónustu í hinum dreifðu byggðum þar sem fólk hefur ekki aðgang að því dreifikerfi sem það gerir vissulega kröfu um varðandi nútímafjarskiptasamband.

Þess vegna vil ég segja það, virðulegi forseti, að ég tel að sala á dreifikerfinu með Símanum komi ekki til greina og við leggjumst gegn því í Frjálsl. og teljum reyndar að það þurfi ekki og liggi ekki mikið á í því einkavæðingarferli sem nú er fyrirhugað varðandi Símann. Síminn skilar eiganda sínum, íslensku þjóðinni, miklum arði á hverju ári og það er ekkert sem kallar á að þessum málum sé hraðað, virðulegi forseti.