Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:08:13 (1068)

2003-11-03 18:08:13# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., EKH
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:08]

Einar Karl Haraldsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að lýsa því að frv. það sem hér liggur fyrir er í samræmi við þá áherslu sem Samfylkingin hefur lagt á skýrari stjórnsýslu og að greint verði á milli fagráðuneytis og eignarhluta ríkisins í einu stærsta fyrirtæki landsins á sviði samgöngumála.

Ég stend hérna upp til þess að ræða aðeins um þá markaðshagfræði sem hefur verið flutt af hv. þm. Ögmundi Jónassyni og til þess að gera svolitla grein fyrir viðhorfum Samfylkingarinnar til markaðarins.

Samfylkingin er flokkur jafnaðarstefnu en hann er líka markaðssinnaður flokkur. Samfylkingarfólk er einfaldlega þeirrar skoðunar að virkur samkeppnismarkaður skili betri árangri en miðstýrð ákvarðanataka hins opinbera, eins og hefur komið fram á svo mörgum sviðum. Þess vegna erum við þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki endilega að standa í samkeppnisrekstri á þeim sviðum þar sem virkur markaður er fyrir hendi eða miklar vonir standa til þess að svo geti orðið. Það er af þessum ástæðum sem Samfylkingin leggur á það áherslu að samkeppnissvið Símans verði einkavætt og telur að það sé eðlilegt, um leið og flokkurinn leggst gegn því að grunnnetið, sjálft dreifikerfið, verði selt heldur verði það áfram í eigu opinberra aðila og það verði opið öllum og aðgengilegt um allt land.

Markaðslausnir eiga ekki alls staðar við, síst af öllu innan heilbrigðis- og menntakerfisins, vegna þess einfaldlega að þar er ekki neinn eiginlegur markaður fyrir hendi. Þar eru menn ekki frjálsir að sínum ákvörðunum, hvorki nemendur, a.m.k. á lægri stigum skólakerfisins, né sjúklingar og ýmsir aðrir sem leita til þjónustu heilbrigðiskerfisins, vegna þess að þar eru aðrir sem ráða meðferðum, lyfjagjöf og aðgerðum. Það er því ekki hægt að segja að um óháða aðila, ákvörðunaraðila á markaði sé að tefla.

Hins vegar er heilbrigðiskerfið stórt kerfi sem tekur til sín gífurlega mikla fjármuni og það er margreynt, á því eru mörg svið og sums staðar er sjálfsagt hægt að koma við markaðslausnum. Það sem Samfylkingin samþykkti á sínum landsfundi var að það væri nauðsynlegt að horfast í augu við það að með því miðstýrða kerfi sem við höfum á ákvörðunartöku um framlög og skipulag heilbrigðiskerfisins erum við ekki að ná þeim árangri sem við hefðum vænst til. Eins gott og íslenska heilbrigðiskerfið er þá er þar við gríðarleg vandamál að stríða, eins og kemur fram í biðröðum eftir þjónustu og í útgjaldaaukningu sem hefur ekki tekist að hemja á ýmsum sviðum. Svo er komið að margir eru þeirrar skoðunar að það verði ekki mikið lengur haldið áfram á sömu braut og að það verði að nýta fjármunina betur innan heilbrigðiskerfisins en gert er.

Það sem Samfylkingin lagði til á sínum fundi var einfaldlega það að kanna að hvaða leyti markaðslausnir gætu komið til greina við lausn þeirra vandamála sem við er að stríða í heilbrigðiskerfinu. Mér finnst það vera heiðarleg niðurstaða að viðurkenna það að við höfum rekið okkur á ákveðna veggi í sambandi við skipulag og rekstur heilbrigðiskerfisins og að það verður að leita nýrra lausna á þeim viðfangsefnum.

Það sem fyrir liggur er að kanna þau mál en það er algjörlega ljóst að Samfylkingin mun ekki samþykkja að þessum markaðslausnum verði beitt á þessu sviði nema á ákveðnum forsendum. Þær eru að þjónustan verði ekki verri, að hún kosti ekki meira fyrir sjúklingana, að aðgengi verði opið og öllum jafnt og að það verði sparnaður af þeim aðgerðum fyrir ríkið.

Það var athyglisvert að hlusta á breska hagfræðinginn John Kay á landsfundi Samfylkingarinnar. Hann lagði mikla áherslu á það að stjórnmálamenn ættu fyrst og fremst að ræða forsendur og markmið en láta aðila úti í samfélaginu, hvort sem það eru einkaaðilar eða opinberir aðilar, vera í samkeppni um að velja leiðir og sjá um framkvæmdina en ekki að vera of mikið með puttana í því, heldur leggja áherslu á það að koma sér upp aðferðum til að mæla árangurinn af pólitískum markmiðum í samfélaginu og vera tilbúnir að leiðrétta þau mistök eftir á ef þeir sem treyst hefur verið til að sinna þessum verkefnum hafa ekki staðið sig sem skyldi. Það er kannski eitt af því sem stjórnmálamenn hafa átt erfitt með að gera, að horfast í augu við mistök sem gerð hafa verið.