Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:21:34 (1070)

2003-11-03 18:21:34# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:21]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að ræða hv. þm. formanns Samf. á landsfundinum hafi vakið mikla athygli. Menn hafa lagt út af henni á ýmsan hátt. Það sem gerð var athugasemd við hæstv. forsrh. með í upphafi, að hann fjallaði um ræðu hv. þm. undir öðru máli, hefur orðið uppistaðan í þessari umræðu.

Hæstv. forsrh. sagði einnig að hv. þingmenn hefðu þurft að bakka út úr einhverju eða éta eitthvað ofan í sig. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig sá málsverður var. Það sem ég lagði fram í þessa umræðu í andsvari við hv. þm. Ögmund Jónasson var að ég vildi gera athugasemd við þann skilning hv. þm. að sú ræða sem formaður Samf. flutti hafi verið þess eðlis að þar hafi sérstaklega verið gengið til liðs við Verslunarráðið og ýmis frjálshyggjuöfl. Við bentum á að hv. þm. Össur Skarphéðinsson setti á dagskrá að menn skoðuðu allar færar leiðir til að koma frekari böndum á þenslu ríkissjóðs og útgjöld á þessu sviði. Menn vilja skoða allar leiðir í þeim efnum þó að ákveðnir varnaglar hafi vissulega verið slegnir.

Ég vildi bara að þessi túlkun og þessi skýring væri á hreinu. Ég leyfi mér þann munað að frábiðja mér að pólitískir andstæðingar eða menn úr öðrum flokkum sem vilja leyfa sér að túlka þetta geri það á þann hátt að það henti þeim eitthvað sérstaklega.