Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:26:35 (1074)

2003-11-03 18:26:35# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:26]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er athyglisvert að hæstv. forsrh. skuli farinn að kalla eftir því að Össur Skarphéðinsson flytji ræður á landsfundum Sjálfstfl. Það er fagnaðarefni að hæstv. forsrh. skuli hafa fundið ljós lífs síns og leiðtoga í heilbrigðismálum í hv. formanni Samf., Össuri Skarphéðinssyni.

Það er hins vegar rangt hjá hæstv. forsrh. að ég hafi leiðrétt ræðu Össurar Skarphéðinssonar. Ég leiðrétti ræðu Ögmundar Jónassonar sem líkt og hæstv. forsrh. reyndi nokkra útúrsnúninga í máli sínu, þá einkum með því að segja Samf. hafa sett einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu á dagskrá. Það er bara alls ekki rétt.

Þó að formaður Samf. hafi sannanlega sagt að við skyldum skoða lausnir markaðarins í heilbrigðisþjónustunni þá fólst ekki í þeim orðum nein yfirlýsing um að fara ætti að selja ríkisfyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. Það stendur ekki til af okkar hálfu, að selja Landspítalann svo að dæmi sé tekið. Það er alger oftúlkun og rangtúlkun á orðum formanns Samf. og full ástæða til að leiðrétta ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar en ekki ræðu Össurar Skarphéðinssonar.