Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:41:37 (1080)

2003-11-03 18:41:37# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:41]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að hæstv. forsrh. ætti eftir eina ræðu sem frsm. frv. þó að það sé aukaatriði málsins en ég þakka þau svör sem hér komu í andsvari. Þau eru mér að vissu leyti vonbrigði. Ég held að það hefði verið mikilvægt framlag af hálfu ríkisstjórnarinnar að heita þinginu því að þegar söluáformin sem slík væru komin í búning og í form tillagna frá einkavæðingarnefnd fengju þau hér umfjöllun. Auðvitað er hárrétt að þetta mál má taka upp í ýmsu samhengi, t.d. í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga og þetta hefur fjárhagsáhrif o.s.frv. Það er hægt að biðja um umræður utan dagskrár og annað í þeim dúr en við slíkar aðstæður og vegna máls af þessu tagi fyndist mér í raun og veru að skemmtilegasti svipurinn á umræðu um það innan veggja væri sá að ríkisstjórnin hefði sjálf forgöngu um það, legði málið fyrir í formi skýrslu til kynningar og umræðu.

En auðvitað eigum við þess kost með ýmsum hætti væntanlega að takast á við málið. Það er gott í sjálfu sér að það á ekki að flana að neinu, hér er upplýst að ekki séu líklegar neinar aðgerðir á þessu ári og einn mögulegur leikur þingsins, sem auðvitað hefur valdið í sínum höndum, væri sá að setja skilyrði eða þá kvöð inn í frv. að ríkisstjórnin skyldi ekki nýta heimildir sínar eða væri ekki bær til þess fyrr en að undangenginni umfjöllun á þingi. Vel væri athugandi að leggja það til við 2. umr. og atkvæðagreiðslu í málinu.