Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:45:56 (1082)

2003-11-03 18:45:56# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:45]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég væri mjög fús til þess að eiga langar og ítarlegar viðræður við hv. þm. um þessi grundvallarhugmyndafræðilegu atriði og útskýra fyrir honum áherslu flokks míns. Mér dettur sannarlega í hug að ekki veiti af. Kannski hefði það haft góð áhrif ef við hefðum verið búnir að eiga slík samtöl áður en hv. þm. Lúðvík Bergvinsson fór á landsfund Samfylkingarinnar. Hugsanlega hefði hann þá getað haft holl áhrif á formann sinn og fleiri sem þar véluðu um.

Það er ekki öfund af minni hálfu hvað varðar athygli þá sem ræða formanns Samfylkingarinnar hefur fengið. Ég er ekki hallur undir þær kenningar amerískar að vont umtal sé betra en ekkert svo að það sé algerlega á hreinu. Ég öfunda formann Samfylkingarinnar og Samfylkinguna alla ekki af sviðsljósinu sem landsfundur þeirra er í að þessu leyti. En það er auðvitað ekki mitt að tjá mig um það. Ég hóf ekki þessa umræðu. Ég tek það fram. Það má gjarnan koma fram að ég hef beðist undan því að tjá mig um nákvæmlega þessa sömu atburði við fjölmiðla á meðan helgin gekk af því að ég reyni að halda í heiðri þá reglu að við formenn stjórnmálaflokkanna séum ekki að blanda okkur í innri mál hvers annars akkúrat þegar atburðir af þessu tagi ganga yfir. En fjölmiðlar og umræðan í þjóðfélaginu hefur alveg hjálparlaust af okkar hálfu greinilega fengið sína upplifun af því sem þarna fór fram.

Við erum ekki endilega talsmenn þess að færa aftur í opinbera eigu hluti sem eru það ekki í dag. Við erum hins vegar mjög einörð í andstöðu okkar við að færa út landamæri markaðarins og færa þau inn í sjálfan kjarna velferðarþjónustunnar. Það er alveg á hreinu og þegar í hlut eiga almannaþjónustufyrirtæki af tagi Landssímans sem búa við náttúrulega einokun þá horfum við á reynsluna og hvernig það hefur gefist t.d. annars staðar að fara út í breytingar af því tagi sem hér eru fyrirhugaðar. Við sjáum ekki annað en þar hafi menn yfirleitt farið hinar mestu ófarir og þá viljum við draga dám af því. Við viljum reyna að forðast það að við hér uppi á Íslandi þurfum að gera mistök sem aðrir hafa gert á undan okkur og lært af.