Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:48:12 (1083)

2003-11-03 18:48:12# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:48]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að við ræddum um þessar breiðu línur og hugmyndafræði sem hv. þingmenn og einstakir flokkar standa fyrir þá átti ég kannski von á því að við gætum dregið fram að einhverju leyti línu þessum efnum.

Nú er það einfaldlega þannig, eins og hv. þm. komst að orði, að landamæri markaðarins hafa færst út. Í dag eru markaðslausnir notaðar á ákveðnum sviðum. Það má t.d. nefna einkarekstur, sjálfseignarstofnanir og ríkisrekstur. Það má nefna ýmis rekstrarform sem eru til staðar. Þá skil ég hv. þm. þannig að lína hans flokks eða sú hugmyndafræði sem hann byggir á sé sú að þetta verði ekki víkkað frekar út en það er í dag en hann sætti sig þá við það fyrirkomulag væntanlega eins og skipan mála er í dag.

Ég skil hv. þm. þannig. En í því eru náttúrlega fólgnar ákveðnar andstæður því mjög erfitt verður að átta sig á því hver lína flokksins er ef hann er í raun að tala um blandað fyrirkomulag á þessu öllu saman án þess að kannski sé hægt að finna nokkra línu í þeim efnum.