Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:52:21 (1086)

2003-11-03 18:52:21# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. kærlega fyrir upplýsingarnar og þær tilraunir til að hjálpa okkur til dýpri skilnings á því sem þarna raunverulega gerðist sem í því voru fólgnar. Það er að vísu skaði að hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndur hefur ekki verið hér á síðari spretti umræðunnar til þess að útskýra ræðu sína. Mér sýnist þetta dálítið vera farið að snúast um það hvort gildi, ræða formanns eða ályktun landsfundarins, þó formlega sé náttúrlega ljóst að samþykktin er sterkari orðum formannsins ef þar er mismunur á. Að vísu hafa komið af því fréttir að eitthvað hafi verið samþykkt þarna fyrir misskilning eins og t.d. afnám verðtryggingar á húsnæðislánum þannig að kannski skolast þetta nú eitthvað til. Þarf þá orðið það sem kallað var í öðru samhengi kremlarlóga til þess að ráða í hlutina, þ.e. hvað raunverulega var þarna sagt og gert og hvað gildir. (Gripið fram í: Þú ert nú kominn í kremlarlógí.)

Ég ætla ekki að fara dýpra eða lengra út í það en þakka hv. þm. fyrir þennan upplestur sem var til þess fallinn að skýra málið.