Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 19:13:51 (1092)

2003-11-03 19:13:51# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[19:13]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki verið að plata neinn til þess að kaupa köttinn í sekknum, fjarri því. En tæknin er að breytast mjög hratt og því er spáð að símanotkunin færist yfir á farsímakerfin en gagnaflutningarnir nýti sér ljósleiðaratæknina og koparinn í jörðu. Það eru allar líkur á því að enn um sinn, að sjálfsögðu, verði símkerfið afar mikils virði vegna vaxandi notkunar gagnaflutninga.

En þá kem ég að því sem hv. þm. nefndi af því að hann klifar stöðugt á því að það eigi að aðskilja netið. Við skoðuðum þetta afskaplega vel og fengum sérfræðinga til þess að meta stöðuna og það voru alveg ótvíræð ráð sérfræðinga sem við treystum og einkavæðingarnefndin lét vinna þetta verk, að aðskilja þetta ekki. Það væri svo flókið að greina frá annars vegar lagnakerfið og tölvurnar í símstöðvunum að það væri ekkert vit í að gera það. Og það sem við gerðum í þinginu til þess að koma til móts við áhyggjur manna var að tryggja þetta í löggjöf sem gerir kröfu um aðgang að þessu kerfi. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sem fór vandlega yfir þetta í samgn. ásamt Kristjáni L. Möller veit að löggjöfin um aðgang að neti er mjög skýr og ströng og símafyrirtækin sem eru markaðsráðandi geta ekkert undan því vikist að hleypa öðrum símafyrirtækjum að grunnkerfunum. Þannig tryggjum við hagkvæmni og komum í veg fyrir það að byggja upp margfalt grunnkerfi í landinu og í því felast hagsmunir neytenda.