Viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 13:34:25 (1099)

2003-11-04 13:34:25# 130. lþ. 20.96 fundur 126#B viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[13:34]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Að undanförnu hafa Neytendasamtökin fjallað ítarlega um þrjár tegundir markaða sem eru mjög mikilvægir fyrir neytendur og hafa mikil áhrif á lífskjör fólks. Þetta eru matvörumarkaðurinn, vátryggingarmarkaðurinn og bankamarkaðurinn. Á öllum þessum mörkuðum hafa verið gerðar rannsóknir og ber niðurstöðurnar í öllum tilvikum að sama brunni. Fyrirtækjum á þessum mörkuðum fer fækkandi og er fákeppni að verða allsráðandi. Í öllum tilvikum er viðkvæðið hjá formælendum fyrirtækjanna að þessu valdi nauðsynleg hagræðing.

Hagnaður þeirra er hins vegar mjög mikill og fer í mörgum tilvikum ört vaxandi og hann rennur allur til fyrirtækjanna og eigenda þeirra því að neytendur njóta einskis. Fyrir neytendurna er niðurstaðan hærra verð. Hér styðst ég við rannsóknarskýrslur og vísa í staðhæfingar forsvarsmanna Neytendasamtakanna.

Eðlilegt er að menn staðnæmist við slíkar upplýsingar. Tilefni umræðunnar eru vátryggingar og þá sérstaklega bílatryggingar. Þær eru lögbundnar sem eðlilegt er. Það er hins vegar ekki eðlilegt ef trygging sem er lögþvinguð er á afarkjörum, að ekki sé minnst á ef tryggingafélögin hafa myndað eins konar bandalag um að hafa þær tryggingar á óeðlilegu verði þannig að þau geti makað krókinn á kostnað almennings.

Hvers vegna segi ég þetta? Verðið segir sína sögu en einnig minni ég á að Samkeppnisstofnun komst að þeirri niðurstöðu í frumskýrslu sem nýlega var birt að gögn sýni að tryggingafélögin hafi haft með sér víðtækt samráð um iðgjöld í ökutækjatryggingum um langt árabil.

Fyrir 15 árum voru 25 vátryggingafélög starfandi í landinu. Nú eru starfandi þrjár meginsamsteypur, Sjóvá--Almennar, Tryggingamiðstöðin og Vátryggingafélag Íslands. Þessi félög ásamt dótturfélögum ráða nú 95% af markaðnum. Á milli þessara aðila á sér ekki stað mikil samkeppni og í nýbirtri skýrslu Neytendasamtakanna segir m.a., með leyfi forseta:

,,Samræmdar og stórfelldar breytingar á iðgjöldum félaganna benda hins vegar ekki til að samkeppnin sé ýkja hörð, ...``

Hver hefur verðlagsþróunin verið? Í skýrslu Neytendasamtakanna kemur fram að iðgjöld hafi hækkað að meðaltali um 70% á síðustu sex árum og iðgjöld vegna lögbundinna trygginga hafi tvöfaldast. Neytendasamtökin eru ekki ein um að benda á þá þróun. Fyrr í haust var talsverð umræða um þetta. Var þá haft eftir framkvæmdastjóra Félags ísl. bifreiðaeigenda að þessi þróun á verðlagi iðgjalda væri óeðlileg og væru iðgjöldin miklu hærri en þau ættu að vera.

Í leiðara í byrjun september vakti Morgunblaðið athygli á því að bifreiðatryggingar skiluðu tryggingafélögunum vaxandi hagnaði og hefði hann aukist um 20% frá sama tímabili í fyrra. Orðrétt sagði blaðið, með leyfi forseta:

,,Iðgjöld vegna bílatrygginga eru umtalsverður útgjaldaliður í heimilisbókhaldi flestra fjölskyldna á Íslandi. Þessi kostnaðarliður verður ekki umflúinn, eigi fólk á annað borð bíl, enda er ábyrgðartrygging lögboðin.``

Síðan segir á þá leið að neytendur hljóti að ganga út frá því að á markaðnum fyrir bílatryggingar ríki virk samkeppni og einstök félög sem ná miklum afkomubata nýti hann til að lækka verðið og ná til sín nýjum viðskiptavinum. Svona virðast kaupin hins vegar ekki gerast á eyrinni. Lægsta trygging fyrir Toyota Corolla í Svíþjóð og Danmörku er 14.000 ísl. kr. á meðan lægsta iðgjaldið hér á landi er 69.000 kr.

Nú spyrja menn: Er eðlilegt að á sama tímabili og verðbólgan hækkar um 20,1% skuli bílatryggingar hækka um 86,6%? Þetta gerðist á árunum 1999--2002 og á sex ára tímabili hækkuðu þessar tryggingar um helming, um 100%. Er eðlilegt að tjónasjóðirnir séu orðnir 38,3 milljarðar og hafi vaxið um 54% eða 13 milljarða á síðustu fimm árum?

Hver á að gæta þess að tryggingafélögin misnoti ekki aðstöðu sína gagnvart lögþvinguðum kúnnum sínum? Það er Fjármálaeftirlitið sem heyrir undir viðskrn. sem á að gera það. Og nú er þeirri spurningu beint til hæstv. viðskrh. hvort hún geti upplýst okkur hvernig þessi mál er nú stödd hjá hinum opinbera eftirlitsaðila.