Viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 13:48:34 (1103)

2003-11-04 13:48:34# 130. lþ. 20.96 fundur 126#B viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[13:48]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Sú úttekt sem Neytendasamtökin beittu sér fyrir um tryggingamarkaðinn staðfestir það sem við höfum lengi haldið fram, að tryggingafélögin blóðmjólka bifreiðaeigendur með himinháum iðgjöldum sem eru langt úr takti við alla verðrþróun í þjóðfélaginu og það í skjóli einokunar og valdsamþjöppunar á þessum markaði. Tryggingafélögin boluðu út af markaðnum fyrir nokkrum árum samkeppnisaðila sem bauð 35% lægri tryggingar en þau og vafalaust fór sú verðstýring fram undir hatti samráðsvettvangs Sambands ísl. tryggingafélaga sem margir álíta ólöglegan og Samkeppnisstofnun er nú að rannsaka. Mér finnst Fjármálaeftirlitið sýna allt of mikla linkind gagnvart tryggingafélögunum sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Það er ólíðandi og skapar tortryggni gagnvart Fjármálaeftirlitinu að eftirlitið hefur lítið til málanna að leggja þó iðgjöld bifreiðatrygginga hækki um 70--80% á örfáum árum. Bótasjóðirnir gildna stöðugt sem er m.a. skjól fyrir tryggingafélögin til að skammta sér hagnað með því að geta sjálfir stjórnað því sem þeir greiða hverju sinni í skatt. Reglum um skattlagningu bótasjóðanna verður að breyta þannig að óuppgerð tjón geti ekki legið í bótasjóðum í allt að tíu ár og láta tryggingafélögin þannig liggja með gífurlega mikið af óskattlögðu fjármagni í sinni vörslu.

Ég kalla hér og nú eftir því að Samkeppnisstofnun skili strax niðurstöðu sinni á rannsókn á tryggingafélögunum sem staðið hefur yfir frá því 1997 og ég skora á Fjármálaeftirlitið að sýna gagnrýnna aðhald með tryggingafélögunum en eftirlitið hefur gert til þessa og verja betur hagsmuni neytenda. Ef þeir gera það ekki þá verður stutt í að Fjármálaeftirlitið glati trúverðugleika sínum.