Viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 13:54:45 (1106)

2003-11-04 13:54:45# 130. lþ. 20.96 fundur 126#B viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna# (umræður utan dagskrár), ÁF
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Ásgeir Friðgeirsson:

Virðulegi forseti. Góð arðsemi fyrirtækja er nauðsyn, ofsahagnaður er það ekki. Bættur hagur tryggingafélaga á síðustu árum er skoðunarverður. Eigið fé félaganna hefur nær þrefaldast á um fjórum árum. Á sama tíma hefur vátryggingaskuld verið greidd rausnarlega inn á reikning sem eitt sinn var kallaður bótasjóður. Þessir sjóðir tryggingafélaganna stóru hafa fjórfaldast á átta árum. Þeir nema nú samtals yfir 40 milljörðum kr. sem er langt umfram þær skuldbindingar sem þeim er ætlað að standa við.

Með hliðsjón af árlegum iðgjaldatekjum félaganna sem hafa vaxið eins og hér hefur komið fram hafa þessir sjóðir styrkst um 300% á síðustu fjórum árum. Þennan styrk hafa félögin notað til þess að hindra aukna samkeppni og girða fyrir aðkomu nýrra aðila. Þau nota úr bótasjóðum fé til þess að veita viðskiptavinum á fyrirtækjamarkaði lán eða bjóða þeim fé til fjárfestinga. Þess eru dæmi að tryggingafyrirtækin hafi boðið viðskiptavinum sínum sem ætla að segja upp tryggingum sínum svokallaðan samkeppnisafslátt. Þetta er brot á samkeppnislögum. Það er full ástæða til þess að stjórnarstofnanir skoði vel og ítarlega starfsemi tryggingafélaga og að þau mál sem þar eru til afgreiðslu og í athugun fái skjóta afgreiðslu.