Viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 14:02:51 (1110)

2003-11-04 14:02:51# 130. lþ. 20.96 fundur 126#B viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin sem mér fannst þó ekki sannfærandi um að eftirlitsþátturinn væri í nógu góðu lagi. Hæstv. ráðherra segir að tryggingafélögin fái aðhald á tvennan hátt, annars vegar frá markaðnum og hins vegar frá eftirlitsstofnunum.

Nú hefur komið í ljós að markaðurinn er nánast í herkví sökum fákeppni og það var sýnt fram á það í frumathugun Samkeppnisstofnunar að gögn bentu til þess að tryggingafélögin hefðu um langt skeið haft samráð sín á milli. Þau neituðu þessu þegar þetta kom til umræðu í þjóðfélaginu um mánaðamótin júlí/ágúst og voru svo óskammfeilin að segja jafnframt að ef brot hefðu verið framin þá væru þau án efa fyrnd þannig að aðhaldið er ekki frá markaðnum.

Þá víkur málinu að eftirlitsstofnunum. Það vakti athygli mína að talsmaður Fjármálaeftirlitsins sagði fyrir fáeinum dögum að tjónasjóðirnir væru núna í skoðun hjá einstökum vátryggingafélögum en það hefði ekki verið ákveðið enn þá hvort og þá hvernig greint yrði opinberlega frá þessu. Þetta finnst mér undarlegt og mér finnst þetta ámælisvert.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði að iðgjöldin ættu að standa undir tjónakostnaði og hagnaði. Það gera þau svo sannarlega eins og fram hefur komið í máli mínu því að arðsemi eigin fjár tryggingafyrirtækjanna hefur yfirleitt verið 10--20% á undanförnum árum og eigið fé þeirra hefur þrefaldast á fimm árum svo að dæmi sé tekið.

Þessi mál eru ekki í nógu góðu lagi. Fjármálaeftirlitið og opinberar stofnanir virðast fara silkihönskum um tryggingafélögin. Ég vek athygli á því að aðrar tryggingar, brunatryggingar sem einnig eru lögbundnar, sem einnig eru lögþvingaðar, virðast vera að hækka líka. Eitt fyrirtækjanna, Sjóvá--Almennar, hefur sent sínum viðskiptavinum bréf þar sem boðuð er 50% hækkun á brunatryggingum. Þetta þarf að stöðva.